Klea litla Pepaj er bara fimm ára og skildi ekki af hverju allt fullorðna fólkið grét í komusalnum eftir að fjölskylda hennar lenti á Keflavíkurflugvelli í kvöld. Hún hélt að það hefði eitthvað komið fyrir og fór að gráta. Alveg eins og þegar lögreglan sótti fjölskyldu hennar af heimilinu í Barmahlíð til að flytja þau frá Íslandi bað hún mömmu sína um að gráta ekki. Seinna skildist henni að nú væri grátið af gleði og hún róaðist aftur niður.
Gleðin var annars allsráðandi á Keflavíkurflugvelli þegar tvær albanskar fjölskyldur sneru aftur til Íslands í kvöld. Fjölskyldurnar höfðu áður verið sendar burt í skjóli nætur eftir að þeim var neitað um hæli á Íslandi, en í báðum fjölskyldunum voru langveik börn sem höfðu ekki aðgang að lífsnauðsynlegri læknisþjónustu í heimalandinu, Kevin sem er með ólæknandi slímseigjusjúkdóm og Arjan sem er með hjartagalla.
Stundin fylgdist með brottflutningi þeirra 10. desember. Mynd af litla drengnum Kevin, sem stóð í dyragættinni heima hjá sér og starði út í nóttina, myrkrið og kuldann, og beið eftir því að vera sóttur af lögreglunni, vakti mikla athygli.
Í kjölfar brottflutningsins var ákvörðun Útlendingastofnunar um að senda fjölskyldur þeirra Kastriot og Xhuliu Pepoj og Pëllumb Lalaj Ndoka og Jetmirë Prekaj, mótmælt harðlega, ekki aðeins af almenningi heldur einnig af læknum sem sinna drengjunum eða sambærilegum tilfellum, ekki síst fyrir þær sakir að veita fjölskyldunum ekki dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Málinu lyktaði síðan nokkrum dögum síðar þegar allsherjarnefnd ákvað að veita báðum fjölskyldunum ríkisborgararétt og bjóða þær velkomnar til landsins. Umboðsmaður Alþingis hefur hins vegar óskað eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun um málsmeðferð og rannsókn umsókna um svokölluð mannúðarleyfi af heilbrigðisástæðum.
Athugasemdir