Fyrr í dag var birt frétt, byggð á fréttatilkynningu, á bæði DV og Pressunni, þar sem greint var frá því að fyrirtækið Netgíró myndi endurgreiða hundrað einstaklingum reikninga sína. Áður hafði fyrirtækið lofað því að endurgreiða þúsund einstaklingum reikninga sína ef Ísland ynni Eurovision, en þrátt fyrir að María Ólafsdóttir hefði ekki komist í úrslit ákvað fyrirtækið að endurgreiða hundrað einstaklingum reikninga sína. Hér má svo sjá frétt Vísis fyrir tíu dögum sem er auk þess byggð á fréttatilkynningu.
Starfsemi Netgíró er í ætt við smálánafyrirtæki, enda hefur eigandi félagsins hagnast á slíkum rekstri. Netgíró er í eigu Móberg ehf. sem Skorri Rafn Rafnsson á svo meirihluta í. Skorri Rafn, sem varð nýverið þrítugur að aldri, komst í álnir með smálánafyrirtækið Hraðpeninga. Smálánafyrirtækið hefur ekki skilað ársreikningum frá árinu 2011 en óljóst er hver á það félag nákvæmlega. Síðastliðinn febrúar vísaði Héraðsdómur Reykjavíkur frá máli gegn Hraðpeningum á þeim grundvelli að félag staðsett í Kýpur, Jumdon Micro Finance Ltd., ætti allt hlutafé í félaginu.
Athugasemdir