Óskar Húnfjörð byggingafræðingur skrifar harðorðan pistil sem birtist í Víkurfréttum í morgun þar sem hann gagnrýnir uppsögn Landsbankans í Reykjanesbæ á Guðmundi Ingiberssyni. Guðmundur, eða Gummi eins og hann er vanalega kallaður, hefur starfað í bankanum um áratugaskeið en Guðmundur lenti í alvarlegu slysi nýverið og hefur hann í kjölfarið verið metinn 75 prósent öryrki.
Um síðustu páska varð Guðmundur fyrir því að bíll keyrði inn í forstofu á heimili móður hans. Guðmundur var þar og slasaðist alvarlega, þar á meðal á hendi, og var hann frá vinnu í nokkra mánuði. Guðmundur var þó fyrir öryrki en hann er spastíkur.
Samkvæmt Óskari, sem er mágur Guðmunds, var Guðmundi boðinn starfslokasamningur fjórum mánuðum eftir að hann sneri aftur til vinnu eftir slysið. „Eins og á hverju almennilegu heimili er þörf á að taka til öðru hvoru. Landsbankinn í Reykjanesbæ er þar ekkert undanskilinn, eins og sýndi sig um daginn þegar gerður var starfslokasamningur við Gumma í „góðu“ samkomulagi, því að öðrum kosti fengi hann sent uppsagnarbréf. Ástæða starfslokanna var sögð, tiltekt í bankanum.
Auðvitað er hverjum atvinnurekanda í sjálfsvald sett hvenær hann hættir að kaupa þjónustu starfsmanns, en hér greinir okkur á um samfélagslega ábyrgð bankans,“ skrifar Óskar.
Lætur ekki deigan síga
Í samtali við Stundina segist Guðmundur snortinn af þessum viðbrögðum en hann ætli þó ekki að láta deigan síga og hyggst finna sér nýja vinnu. „Ég upplifi það ekki beint að það sé verið segja mér upp út af örorkunni. Þeir sögðu að þetta væri hagræðing. Ég er persónulega mjög sár og reiður út af þessu, það var ekki planið mitt að hætta að vinna,“ segir Guðmundur. Miðað við viðbrögð við pistli Óskars á Facebook má ætla að Guðmundar verði sárt saknað í bankanum. „Ég er búinn að vera þarna lengi, með minn kúnnahóp. Ég er mjög ánægður með að fólk hugsi svona til mín,“ segir Guðmundur.
Í samtali við Stundina bendir Óskar Húnfjörð á að Guðmundur hafi ávallt starfað á almennum vinnumarkaði þrátt fyrir fötlun sína. „Það gengur fram af manni þegar maðurinn er búinn að vera þarna í þrjátíu ár. Það er ekki annað hægt en að láta heyra í sér, þetta er framkoma sem er fyrir neðan allar hellur. Það blöskrar öllum sem ég hef heyrt í, þeir eru að stíga mjög vond skref. Þetta er eins og einn kommentaði á Facebook áðan, hann benti á að Gummi hafi valið það í gegnum tíðina að vinna frekar en að fá bætur en nú er verið að taka þann valmöguleika af honum,“ segir Óskar.
Viðskiptavinum í útibúum fækkar
Í svari Landsbankans við fyrirspurn Stundarinnar vegna málsins kemur fram að bankinn geti ekki tjáð sig opinberlega um starfsmannamál. „Á undanförnum árum hefur heimsóknum í útibú fækkað ört því um 80 prósent allra bankaviðskipta eru nú rafræn. Landsbankinn hefur þurft að mæta þessum breyttu aðstæðum með því að fækka starfsmönnum í útibúum út um allt land.
Starfsfólki í útibúinu í Reykjanesbæ hefur fækkað úr 52 í 33 á undanförnum fimm árum. Uppsögn starfsmannsins sem um ræðir, er hluti af þessum breytingum. Að öðru leyti getur Landsbankinn ekki tjáð sig um málefni einstakra starfsmanna,“ segir í skriflegu svari Landsbankans.
Athugasemdir