Davíð Örn Guðjónsson, sem veiktist alvarlega eftir að hafa verið friðargæsluliði í Sri Lanka, er enn að leita sér hjálpar vegna veikinda sinna. Davíð sagði frá því í viðtali við Stundina í febrúar að hann hefði smitast af bandormi. Hann fann fyrir hreyfingum innan í sér, en taldi það ímyndun, þar til magaverkir, niðurgangur og ofsakláði, ásamt öðrum einkennum, gerðu líf hans nánast óbærilegt. Eftir að hafa tekið ormalyf varð Davíð fyrir þeirri reynslu að eins og hálfs til tveggja metra langur ormur gekk niður úr honum, en honum varð svo hverft við að hann tók ekki sýni áður en hann sturtaði honum niður.
Davíð segist í samtali við Stundina enn finna fyrir veikindum. „Ég finn fyrir eins konar hnút í þörmunum og það veit ekki á gott, hvort sem það er ormur eða eitthvað annað. Ég fór nýlega í röntgen, sem ég taldi að gæti gengið úr skugga um hvort það væri hugsanlega bandormur. Það reyndist ekki vera, en ég fer næst í ristilsspeglun og væntanlega sneiðmyndatöku eftir það. Ég er enn ekki 100 prósent og er að reyna að leita mér hjálpar til að svo megi verða.“
Athugasemdir