Ólafur Teitur Guðnason, sem starfað hefur sem framkvæmdastjóri samskiptasviðs Rio Tinto frá árinu 2008, hefur verið ráðinn sem aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Ólafur Teitur vann sem fjölmiðlamaður um árabil en sneri sér svo að almannatengslum. „Hann var fjölmiðlafulltrúi Straums-Burðaráss fjárfestingabanka árið 2008 en var undir lok þess árs ráðinn framkvæmdastjóri samskiptasviðs Rio Tinto á Íslandi hf., sem rekur álverið í Straumsvík, og hefur starfað þar síðan,“ segir í fréttatilkynningu ráðuneytisins.
Á meðal þeirra mála sem Þórdís Kolbrún fer með samkvæmt forsetaúrskurði eru ívilnanir vegna nýfjárfestinga, gerð fjárfestingarsamninga við fyrirtæki, fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri, orkumál og auðlindanýting. Þá fer hún með önnur mál er lúta að iðnaði, svo sem verksmiðjuiðnaði og stóriðju.
Rio Tinto Alcan á Íslandi hf. rekur álverið í Straumsvík og er hluti af Rio Tinto Alcan, einum stærsta álframleiðanda í heimi. Verksmiðjuheiti álversins er ISAL og notar það tæplega 3.000 gígawattstundir af raforku á ári, eða um 18% af þeirri raforku sem notuð er á Íslandi.
Sem framkvæmdastjóri samskiptasviðs Rio Tinto á Íslandi hefur Ólafur Teitur meðal annars þurft að svara fyrir milljarðagreiðslur álversins í Straumsvík til móðurfélagsins í Sviss. Stundin greindi frá því í desember 2015 hvernig álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík á í margs konar viðskiptum við móðurfélagið þar sem fjármunir renna frá Íslandi og til þess. Greiðslurnar til móðurfélagsins eru bókfærðar sem kostnaður við starfsemi Rio Tinto Alcan á Íslandi og því ekki skattlagðar.
Stundin fjallaði einnig ítarlega um verkfallið í álverinu sem leiddi af því að Rio Tinto Alcan vildi semja um fá að notast í auknum mæli við verktaka í starfsemi sinni í stað fastráðinna starfsmanna til að lækka kostnað. „Svo sannarlega er nauðsynlegt fyrir fyrirtæki sem horfir fram á taprekstur að geta sótt slíkan ávinning, og það er líka mikið sanngirnismál í ljósi þess að ISAL er eina fyrirtækið á Íslandi sem býr við hömlur,“ sagði Ólafur Teitur í svari við fyrirspurn Stundarinnar um málið.
Aðstoðarmenn eru ráðnir á grundvelli laga um stjórnarráð Íslands og heyra beint undir ráðherra. Meginhlutverk aðstoðarmanns ráðherra er að vinna að stefnumótun á málefnasviði ráðuneytis undir yfirstjórn ráðherra og í samvinnu við ráðuneytisstjóra.
Athugasemdir