Hinn umdeildi forseti Gambíu, Yahya Jammeh, hefur neitað að viðurkenna úrslit forsetakosninga landsins, þar sem hann tapaði fyrir fyrrverandi öryggisverðinum, Adama Barrow. Jammeh hefur verið forseti landsins í 22 ár og hefur á þeim tíma ítrekað verið gagnrýndur af mannréttindasamtökum fyrir tilraunir til að þagga niður í fjölmiðlum og fyrir að beita andstæðinga sína í stjórnmálum harðræði.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundaði um ástandið síðastliðinn mánudag og var þar tekin ákvörðun um að senda alþjóðlega samningamenn til höfuðborgarinnar, Banjul, til þess að reyna að miðla málum. Sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ, Samantha Power, sagði ástandið „hættulegt“ og benti þar meðal annars á fregnir þess efnis að sumir yfirmenn hersins í landinu væru mjög hliðhollir Jammeh og jafnvel líklegir til þess að grípa til vopna ef svo færi. „Mátturinn til þess að koma Gambíu í friðsælt horf er í höndum Jammeh forseta,“ sagði hún við fréttafólk að fundinum loknum.
Athugasemdir