Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur skipað Erlend Magnússon, stjórnarformann Borgunar, í sérfræðingahóp sem mun undirbúa löggjöf um stofnun stöðugleikasjóðs. Í hópinn voru einnig skipuð þau Kristín Haraldsdóttir, lögfræðingur, sérfræðingur í auðlindarétti og fyrrverandi aðstoðarkona Ólafar Nordal í innanríkisráðuneytinu og Ingimundur Friðriksson, fyrrverandi seðlabankastjóri.
Bjarni tilkynnti um þetta í ávarpi sínu á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands í gær. „Grunnhugsunin hér er sú að við komum á fót stöðugleikasjóði sem haldi utan um arð af orkuauðlindum í eigu ríkissjóðs og tryggi komandi kynslóðum hlutdeild í ávinningi af sameiginlegum auðlindum um leið og hann getur verið sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið,“ sagði hann og greindi svo frá því að hann hefði skipað í sérfræðinganefnd um stofnun sjóðsins.
Kjörinn stjórnarformaður í kjölfar Borgunarmáls
Erlendur Magnússon er menntaður í alþjóðasamskiptum og starfar sem fjárfestir og stjórnarformaður Total Capital Partners í London. Hann var framkvæmdastjóri hjá Glitni á árunum fyrir hrun og yfir deild sem sá um skuldsetta fjármögnun. Félag í eigu Erlends og eiginkonu hans, Fjársjóður ehf., var talsvert til umfjöllunar í fjölmiðlum árið 2013 eftir að grunur vaknaði um innherjasvik vegna sölu á hlutabréfum félagsins í mars 2008. Sérstakur saksóknaði ákærði Erlend og eignir Fjársjóðs voru kyrrsettar en síðar felldi Hæstiréttur kyrrsetninguna úr gildi auk þess sem sérstakur saksóknari dró ákæruna til baka.
Erlendur var kjörinn stjórnarformaður Borgunar hf. á aðalfundi þann 19. febrúar 2015 skömmu eftir að Landsbankinn hafði selt eignarhlut sinn í fyrirtækinu í lokuðu söluferli, án auglýsingar og langt undir markaðsvirði. Einn af kaupendunum var Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna Benediktssonar sem þá var fjármálaráðherra og fór óbeint með hlut ríkisins í Landsbankanum. Viðskiptin vöktu mikla tortryggni, en nokkrum vikum eftir söluna voru 800 milljónir króna greiddar út í arð til hluthafa Borgunar.
Alls hefur félag Einars, sem Benedikt Einarsson sonur hans er stjórnarmaður í, fengið um 86 milljónir króna í arð vegna hlutarins í Borgun frá því að salan fór fram. Bæði bankastjóri og bankaráð Landsbankans hafa viðurkennt að eðlilegra hefði verið að selja eignarhlut bankans í Borgun í opnu söluferli.
Taldi umræðu um ójöfnuð á villigötum
Erlendur er varamaður í skólanefnd Seltjarnarnesbæjar fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Athygli vakti á dögunum þegar hann gagnrýndi skýrslu hjálparsamtakanna Oxfam um ójöfnuð í heiminum og taldi umræðuna um að átta ríkustu menn heims ættu jafn miklar eignir og fátækari helmingur mannkyns á villigötum. „Þegar þessir átta ríkustu menn heims eru skoðaðir, má sjá að þeir hafa ekki orðið ríkir af ofurlaunum, heldur er auður þeirra að mestu til kominn vegna þess að þeir stofnuðu fyrirtæki sem hafa vaxið og orðið verðmætari vegna mikils áhuga stórs hluta jarðarbúa á þeim vörum eða þeirri þjónustu sem þau veita,“ skrifaði hann.
Í október árið 2014 eftir að skattrannsóknarstjóri hafði sent fjármálaráðuneytinu erindi vegna boðs um að kaupa gögn um skattaskjólsstarfsemi Íslendinga skrifaði Erlendur grein í Morgunblaðið undir yfirskriftinni „Að kaupa þýfi“ þar sem hann lagðist eindregið gegn því að íslenska ríkið keypti gögnin. Síðar átti Bjarni Benediktsson eftir að sæta gagnrýni fyrir aðkomu sína að umræddu máli, en ráðuneyti hans setti embætti skattrannsóknarstjóra skilyrði fyrir kaupunum sem ollu töfum auk þess sem Bjarni sakaði skattrannsóknarstjóra ranglega um að þvælast fyrir málinu.
Fjallað er um skipan sérfræðingahóps um stöðugleikasjóð á vef forsætisráðuneytisins. „Gert er ráð fyrir að fjármögnun stöðugleikasjóðs verði með þeim hætti að til hans verði ráðstafað fjárhagslegum arði ríkisins af orkuauðlindum, eftir atvikum í formi afnotagjalda, arðgreiðslna orkufyrirtækja, verðbréfa tengd orkufyrirtækjunum eða í öðru formi,“ segir á vefnum. „Þá þarf að meta hvort til sjóðsins yrði lagðar aðrar fjárhagslegar eignir, svo sem fjármunir sem varðveittir eru í gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands samkvæmt sérstöku samkomulagi við bankann.“
Athugasemdir