Bjarni Benediktsson forsætisráðherra telur að umræðan um Donald Trump Bandaríkjaforseta og ímynd Bandaríkjanna sé ekki að öllu leyti sanngjörn. Of snemmt sé að fella stóra dóma um stefnu hins nýja forseta. Þetta kom fram í viðtali við Bjarna í Silfrinu í dag, en þátturinn er í umsjá Egils Helgasonar og Fanneyjar Birnu Jónsdóttur.
Aðspurður hvort hann hefði áhyggjur af þróuninni í alþjóðamálum sagði Bjarni: „Já og nei. Mér finnst það vera áhyggjuefni hvernig ímynd Bandaríkjanna er akkúrat í augnablikinu og ég er ekki viss um að það sé allt alveg sanngjarnt sem sagt er í þeirri umræðu. Við sjáumt.d. forsíður þessara stóru blaða í Evrópu þessa dagana líkja Trump við hrottalegustu morðingja úr röðum ISIS, með ákveðinni myndlíkingu, mér finnst nú vera of langt gengið víða.“ Vísaði hann þar líklega til forsíðu þýska blaðsins Der Spiegel sem sýnir Trump halda á afskornu höfði Frelsisstyttunnar og blóði drifnum hníf.
Bjarni viðurkenndi að viss atriði í tilskipun Trumps um að meina fólki frá ákveðnum löndum um komu til Bandaríkjanna væru sláandi.„Bandaríkjaforseti leggur blátt bann við flóttamönnum frá Sýrlandi sem er nýtt sem er býsna afdrifarík ákvörðun. Svo eru tekin til endurskoðunar þessi skilyrði fyrir því að menn komi til Bandaríkjanna,“ sagði Bjarni og benti á að Trump hefði einnig afturkallað vegabréfsáritanir.
„Málið verður að þola einhverja efnislega umræðu, nákvæmlega hvað hann er að gera í innflytjendamálum og það sem slær mann er það sem dómstóllinn fettir fingur út í. Það virðist vera að þarna sé verið að flokka fólk eftir trúarbrögðum,“ sagði Bjarni.
„Ég hef áhyggjur af þessari spennu sem ákvarðanir hans hafa valdið. En mér finnst ekkert að því í sjálfu sér að það komi fram á sjónarsviðið af og til einstaklingar sem eru ekki alveg steyptir úr sama mótinu og allir fyrirrennarar, sem hafa alla sinn æviferil verið þáttakendur í stjórnmálalegri starfsemi og svo framvegis. Þarna kemur maður á þessum aldri, í fyrsta sinn að stíga fyrir alvöru inn á vettvang stjórnmálanna og mörg af hans vinnubrögðum bera þess merki, hann er ekki mjög diplómatískur forseti. Mér finnst alltof snemmt hins vegar að fara að fella þessa stóru dóma sem eru gerðir um hans forsetastefnu.“
„Mér finnst alltof snemmt hins vegar að fara
að fella þessa stóru dóma sem eru gerðir
um hans forsetastefnu“
Ítarlega er fjallað um Donald Trump og stefnu hans í forsetaembætti í nýjasta tölublaði Stundarinnar. Stefna Trumps lá að miklu leyti fyrir áður en hann var kosinn. Í kosningabaráttu sinni lofaði hann að banna múslimum að ferðast til Bandaríkjanna tímabundið, skera verulega niður útgjöld til umhverfisverndarmála og alþjóðlegrar samvinnu en auka fjárframlög í herinn. Þá sagðist hann ætlað að auka frelsi til skotvopnaeignar, reisa múr við landamæri Mexíkó og krefjast þess að Mexíkó tæki á sig kostnaðinn, og lækka skatta, einkum á fyrirtæki og tekjuhæstu hópa Bandaríkjanna. Hér má lesa úttekt Stundarinnar í heild.
Athugasemdir