Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fór öðru sinni með rangt mál um efnisatriði skýrslu starfshóps um aflandseignir Íslendinga á Alþingi á þriðjudag. Hann sagði starfshópinn hafa komist að þeirri niðurstöðu að Íslendingar hefðu verið „í fararbroddi“ þegar kom að því að „breyta lagalega umhverfinu í tengslum við skattaskjól“. Hið rétta er að starfshópurinn gagnrýnir einmitt íslensk stjórnvöld fyrir að hafa verið eftirbátur nágrannaríkjanna að þessu leyti. Í skýrslunni er vakin athygli á því að umfang aflandsvæðingar íslensks efnahagslífs hafi verið „einstakt í heiminum“ á útrásarárunum og það m.a. rakið til þess hve seint lagaumhverfinu á Íslandi var breytt.
Í sérstökum umræðum um tafir á birtingu skýrslunnar um aflandseignir Íslendinga varpaði Bjarni Benediktsson fram þeirri spurningu hvort eitthvað í skýrslunni benti til þess að Íslendingar ættu enn eftir að „gera margt til þess að breyta lagalega umhverfinu í tengslum við skattaskjól þannig að við þrengjum enn frekar að notkun þeirra?“ Þá bætti hann við: „Er eitthvað í skýrslunni sem segir það? Það sem skýrslan segir er: Við höfum verið í fararbroddi. Við höfum gert margt. Það er hægt að velja aðrar leiðir en þá erum við farin að nálgast það að leggja blátt bann við félögum af þessum toga.“
Þetta er í samræmi við orð sem Bjarni lét falla á Alþingi þann 6. febrúar síðastliðinn, en þá sagði hann að það væri „ekkert sérstakt sem skýrslan bendir á að stjórnvöld hafi látið undir höfuð leggjast að gera“. Þau orð standast ekki skoðun, enda er sérstaklega fundið að því í skýrslunni að stjórnvöld hafi, á árunum fyrir hrun, hunsað ráðleggingar sérfræðinga um að innleiða svokallaða CFC-löggjöf á Íslandi. Leitt er líkum að því að með lögfestingu slíkra reglna hefði mátt koma í veg fyrir að aflandsvæðingin sem átti sér stað á útrásarárunum yrði jafn umfangsmikil og raun ber vitni.„Ólíklegt er að fjármagnsflóttinn hefði orðið eins mikill ef hér hefðu gilt sömu reglur og á hinum Norðurlöndunum,“ segir í skýrslunni þar sem sérstakur kafli er helgaður þessu umfjöllunarefni. Þá er vikið að málinu í öðrum köflum skýrslunnar og í reifun á niðurstöðum starfshópsins.
Athugasemdir