Unglingar eiga að ráða vel við báðar þessar ferðir og þetta er ágæt leið til þess að draga þá út,“ segir Róbert Marshall, fararstjóri og þingmaður, um hjólaferðir sem hann og Brynhildur Ólafsdóttir, fararstjóri og kona hans, fara í sumar undir merki Ferðafélags Íslands. Þau hafa áður farið með hópa um óbyggðir á reiðhjólum. Þá hafa þau verið dugleg við að fara með börn sín í hjólaferðir heima og erlendis.
Hjólaferðirnar þykja að mörgu leyti tilvaldar til þess að foreldrar og unglingar nái saman utan áreitis tölvu og farsíma. Þá er ekki verra að þetta er ódýrt sport. Flestir eiga fjallahjól í notkun eða í geymslu sem þeir geta þá dustað rykið af. Það þarf ekki fokdýr hjól til þess að fara í fjallaleiðangur.
„Fjallahjólin þurfa ekki að vera ný en ég ráðlegg fólki að láta yfirfara þau á verkstæði fyrir svona ferð. Það kemur oft fyrir að keðjur slitna og dekk springa og þá er gott að hafa varahluti,“ segir Róbert.
Róbert segir að þau hjónin fari í tvær hjólaferðir í sumar sem fararstjórar. Annars vegar er það Laugahjólavegurinn þar sem farin er óhefðbundin leið að fjallabaki í Þórsmörk og svo áfram út úr Þórsmörkinni.
Athugasemdir