Talið er að 148 manns hafi farist þegar farþegaflugvél brotlenti í frönsku Ölpunum fyrir skömmu. Vélin var á leiðinni frá Barcelona til Dusseldorf og er af gerðinni Airbus A320. Brak úr vélinni hefur fundist í fjallaþorpinu Barcelonette sem er nærri slysstaðnum. Vélin fór af stað kl. 10 að staðartíma en flugmenn vélarinnar sendu út neyðarkall kl. 10:47. Vélin hvarf síðan af ratsjám kl. 11:20.
Vélin er í eigu lággjaldaflugfélagsins Germanwings en fyrirtækið hefur enn ekki staðfest fregnir af slysinu. Vefsíða flugfélagsins hefur legið niðri í morgun en aðstandendur eru beiðnir um að fylgjast með fréttum á Twitter-síðu Germanwings.
Samkvæmt sjónarvottum voru veðurskilyrði góð þegar slysið varð. Tildrög slyssins eru enn ókunn.
Samkvæmt frétt á Kjarnanum hefur utanríkisráðuneyti Íslands haft samband við sendiráð Íslands í Berlín og París vegna slyssins. Enn eru engar upplýsingar um það hvort Íslendingar hafi verið um borð í vélinni.
Athugasemdir