Stundin greindi frá því í lok maí að erlendir verkamenn frá Póllandi, flestir farandverkamenn sem hingað komu til lands í apríl til þess að starfa fyrir Icelandair Ground Services, dótturfélag Icelandair, væru að greiða sjöfalda húsaleigu í fjölbýlishúsi sem fyrirtækið keypti sérstaklega fyrir starfsmennina á Ásbrú í Reykjanesbæ. Um var að ræða átta fermetra herbergi með aðgangi að sameiginlegu baðherbergi og eldhúsi auk þess sem fataskápur, rúmlega fermeter, fylgdi hverju herbergi.
„Það var í raun lítið sem ég gat gert fyrir þá þar sem allar þær íbúðir sem félagið mitt hefur til umráða eru í útleigu.“
Aðeins nokkrum metrum frá leigja Íslendingar svipuð herbergi, í öðru fjölbýlishúsi, en þau eru töluvert stærri og leigan töluvert lægri. Þannig greiða Íslendingar 72.000 krónur fyrir 55 fermetra þar sem þeir hafa sérbaðherbergi og séreldhús. Fermetraverð Íslendinganna eru því rúmar 1300 krónur á meðan fermetraverð erlendu verkamannanna er rúmlega 8.000 krónur. Slíkt leiguverð á fermetra, um og yfir átta þúsund krónur á fermetra, er með því hæsta sem finnst á Íslandi, ef ekki það hæsta.
Þýdd og dreift meðal verkamanna
Samkvæmt heimildum var frétt Stundarinnar þýdd yfir á pólsku og henni dreift á meðal þeirra 150 Pólverja sem herbergin leigja. Mikil óánægja var með málið hjá þessum erlendu verkamönnum sem fóru saman í hópum í leit að ódýrara leiguhúsnæði í Reykjanesbæ. Einhverjir fengu íbúðir á svæðinu en eftir því sem Stundin kemst næst er leigumarkaðurinn í bæjarfélaginu ekki upp á marga fiska og lausar leiguíbúðir því af afar skornum skammti.
Stundin ræddi við eiganda fasteignafélags í Reykjanesbæ sem staðfesti við Stundina að fjölmargir starfsmenn IGS hefðu sett sig í samband við hann og spurt um lausar leiguíbúðir. Þeir hafi fengið að vita það í gegnum íslenska fjölmiðla að þeir væru að greiða allt of háa leigu miðað við það sem gengur og gerist og vildu út: „Það var í raun lítið sem ég gat gert fyrir þá þar sem allar þær íbúðir sem félagið mitt hefur til umráða eru í útleigu.“
Hann segist hafa bent þeim á að nota leitarsíður á netinu auk þess sem hægt væri að kanna auglýsingar í héraðsblöðum.
Eftir því sem Stundin kemst næst er dótturfélag Icelandair í viðræðum um kaup á þriðja fjölbýlishúsinu á Keflavíkurflugvelli en ekki er vitað hvort flótti verkamannanna hafi áhrif á þær áætlanir.
Athugasemdir