Árið 2014 voru þrír aðilar ráðnir í stöðu aðjúnkts við íslensku- og menningardeild í Háskóla Íslands. Allir þrír aðilarnir tengjast ýmist þáverandi deildarforseta eða forseta Hugvísindasviðs fjölskylduböndum. Aðjúnktarnir eru Heiða Jóhannsdóttir, sem er mágkona Ástráðs Eysteinssonar, forseta Hugvísindasviðs, Björn Þór Vilhjálmsson, sem er svili Ástráðs, og Alda Björk Valdimarsdóttir, sem er eiginkona Guðna Elíssonar, þáverandi deildarforseta.
Hermann Stefánsson skáld vakti fyrst athygli á málinu í pistli á Kjarnanum. „Talaði einhver um meðvirkni kunningjasamfélagsins? Þetta er hreinn brandari. Háskóladeild þar sem helmingur starfsfólks er skyldur og venslaður. Hvar sem er í heiminum væri slík deild orðin að almennu athlægi,“ skrifaði hann í grein sinni.
Stundin ræddi við núverandi deildarforseta íslensku- og menningardeild, Svein Yngva Egilsson, og fullyrðir hann að bæði Guðni og Ástráður hafi vikið frá allri aðkomu að ráðningu fjölskyldumeðlima þeirra. Athygli vekur að báðir gerðu það strax við gerð auglýsingar á stöðunum. Eiginkona Guðna var nýverið ráðin í lektorsstöðu við skólann í kjölfar þess að hún lauk við doktorspróf.
Athugasemdir