Brussel er ekki raunveruleg borg. Flestar borgir spretta frá einum miðpunkti, hafnarsvæðinu eða vegamótunum, gamla miðbænum sem smám saman gleypti þorpin í kringum sig. Vissulega gæti maður ímyndað sér að þetta hefði átt sér stað, það er augljóslega gamall bær með kaupmannshúsum, stórum torgum, virðulegum dómkirkjum og leyfum af gömlum borgarmúr. En um leið og maður skoðar samgöngukortið áttar maður sig á að hér er ekkert skipulag, engin miðja, ekkert samtal. Brussel er hin póstmóderníska Evrópa, saumuð saman. Hún á sér ekkert eitt tungumál og enga heildarmynd. Hún er samansafn þorpa sem einhvern tímann í lok nítjándu aldar skullu saman í árekstri og finnst það enn svo vandræðalegt að þau ræðast ekki einu sinni við.
Það fyrsta sem kemur upp í huga fólks þegar Brussel er nefnd eru skriffinnar og skrifstofur í sálarlausum glerhýsum. Íbúar grámyglulegrar borgarinnar jakkafataklæddir karlar og konur í drögtum. Og þau vinna fyrir skammstafanir eins og EFTA, ESA, ESB, EES og NATO. Borgin hefur enda oft verið sett á lista yfir þær leiðinlegustu í heimi.
En Brussel er einmitt ekki það. Hún er sérvitur og skrítin, borg sem hefði hvergi annars staðar getað orðið til. Hún er vissulega grámygluleg, það er einhvern veginn stöðugur regnúði í loftinu, en hún er líka ligeglad á máta sem Danmörk hefur sennilega aldrei verið. Brusselbúar eru afslappaðir og meirihluti þeirra er ekki frá Belgíu. Rúm 5% eru spænskumælandi, og þegar arabíska, portúgalska, gríska, kínverska, enska og þýska hafa verið upptalin er um þriðjungur íbúa kominn, franska og hollenska rífast um afganginn. Innflytjendurnir eru ekki bara diplómatar eða frama-skriffinnar, heldur eigendur ostabúða, læknar, listamenn og verkafólk. Menningarheimurinn er alþjóðlegur og Brussel er ekki bara reglugerða-höfuðból Evrópu, heldur er borgin samtímadans-mekka. Líkt og með svo margt annað í Belgíu er það frekar sögulegt slys heldur en nokkurn tímann yfirlýst markmið.
Hörmungartúristinn
Við erum stödd fyrir framan Beurse. Húsið er nýklassískur kubbur, grískt hof sem átti að vera kauphöll reist innan um miðaldakirkjur og miðaldahús við endann á breiðgötu í frönskum art-nouveau stíl.
Athugasemdir