Auglýsingaherferð símafyrirtækisins WOM í sumar vakti hörð viðbrögð um alla Suður-Ameríku. Símafyrirtækið var stofnað í Chile í sumar og var herferðin gagnrýndi af ríkisstjórnum Bólivíu og Venesúela á meðan almenningur í Chile gagnrýndi kvenfyrirlitningu í auglýsingunum.
Símafélagið WOM er alfarið í eigu Novator, félags Björgólfs Thors Björgólfssonar. Símafyrirtækið var stofnað í júlí í fyrra í kjölfar yfirtöku Novator á símafyrirtækinu Nextel Chile. Því er ljóst að bein tengsl eru á milli herferðarinnar og Novator. Novator hagnaðist um 114 milljónir á árinu 2014 samkvæmt nýjasta ársreikningi félagsins. Greint var frá því í fyrra að Björgólfur Thor Björgólfsson væri aftur kominn á lista Forbes yfir þá sem eiga meira en einn milljarð dollara en eignir hans eru metnar á um 173 milljarða króna. Björgólfur er því langríkastur Íslendinga.
Fjölmiðar í Chile fjölluðu þó nokkuð um þá kvenfyrirlitningu sem margir töldu birtast í auglýsingaherferð félagsins. Auglýsingarnar sýndu til að mynda hálfnakta stúlku sleikjandi maga annarrar stúlku sem og þrjá eldri menn að taka upp myndband af tveimur stúlkum í skólabúningum.
Samkvæmt chileska fjölmiðlinum BioBioChile var femínistum algjörlega misboðið er þeir sáu mynd úr búð WOM þar sem sjá mátti sölukonu klædda eins og kabarettdansara. „Þessi mynd sýnir hvernig þeir nota fáklæddar stúlkur til að auglýsa vöruna. Þeir nota ódýra kvenfyrirlitningu og klámvæða og hlutgera konur,“ hefur fjölmiðlinn eftir Elias Jimenez, talsmanni femínistsamtakanna MUMS.
Símafyrirtækið WOM er ekki einungis umdeilt fyrir meinta kvenfyrirlitningu því ríkisstjórnir bæði Bólivíu og Venesúela hafa kvartað opinberlega yfir auglýsingum félagins. Chileskir fjölmiðlar greindu frá því að ríkisstjórn Bólivíu hefði haft samband við yfirvöld í Chile og óskað eftir því að auglýsing sem sýndi forseta Bólivíu, Evo Morales, horfandi á málverk af skipi yrði bönnuð. Auglýsingin vitnar í aldagamla deilu landanna tveggja um aðgang Bólivíu að sjó, en stríð var háð um þessa deilu. Bólivísk yfirvöld töldu jafnframt að auglýsingin vísaði á niðrandi hátt til frumbyggjauppruna Morales.
Í annarri auglýsingu WOM er gert grín að forseta Venesúela, Nicolas Maduro, og tengsla hann við Hugo Chavez. Maduro lýsti því yfir að auglýsingin væri fáránleg. „Þeir skilja ekki, þetta er öfundsýki. Þeir skilja ekki hve glaðir og frjálsir við byltingarsinnar erum,“ hafði chileski fjölmiðillinn La Tercera eftir Maduro.
Málefni fyrirtækisins WOM hafa ratað í fjölmiðla víðar en í Suður-Ameríku. Blaðamaðurinn Èric Lluent Estela, sem talsvert hefur skrifað um Ísland undanfarin ár, birtir grein um auglýsingaherferð WOM í katalónska vefmiðlinum Directa.
Athugasemdir