Líkt og Stundin greindi frá fyrr í dag er vísað til þess að áhrifin af hlýnun jarðar séu „spennandi sóknarfæri“ fyrir íslenskan landbúnað í drögum að ályktunum fyrir flokksþing Framsóknarflokksins sem haldið verður um helgina.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, er ósáttur við orðalagið og varar við skaðsemi þessa viðhorfs.
„Menn hafa hreinlega afneitað vandanum“
„Við megum engan tíma missa og því virka yfirlýsingar eða ályktanir þess efnis að í loftslagsbreytingum felist „spennandi sóknarfæri“ eins og hver annar bjánaskapur. Í besta falli. Innan Sjálfstæðisflokksins hafa viðbrögðin verið önnur. Menn hafa hreinlega afneitað vandanum eða gert lítið úr honum. Innan Framsóknarflokksins hafa menn lengi reynt að telja bændum trú um að landbúnaður sé atvinnugrein framtíðarinnar og sennilega er þessi ályktun (drög) dæmi þar um. Menn virðast halda að landbúnaður á Íslandi verði eins og á Skáni eða í Suður Noregi þrátt fyrir að Ísland verði áfram staðsett á sömu gráðu Umeå (sunnan lands) og Luleå (norðan lands),“ segir Árni.
Skordýr gætu flutt sig norður
Árni bendir enn fremur á að hlýnun jarðar mun vísast hafa skelfileg áhrif á landbúnað á Íslands. Hvað landbúnað varðar getur hlýnun hæglega rústað uppskerum því í loftlagsbreytingum felst líka óstöðugt veðurfar. „Sömuleiðis gætu skordýr flutt sig hingað norður eftir og gert drauma framsóknarmanna um skógrækt á skandinavískum skala að engu,“ segir Árni.
Loftslagsbreytingar geta haft hörmuleg áhrif á sjávarútveg
Hann bendir á að þó landbúnaður gæti haft góð áhrif af loftslagsbreytingum þá hefði það hörmuleg áhrif á sjávarútveg. „Menn vilja gera líklegt að á Íslandi verðu landbúnaður höfuðatvinnuvegur; að héðan verði flutt út korn, hveiti og skógarafurðir. Á hinn bóginn - lesi menn skýrslu IPCC sem kom út á síðasta ári geta menn fundið margt til að óttast þegar framtíð sjávarútvegs er annars vegar. Ekki bara súrnun. Hlýnun sjávar kemur okkur vel þessi misserin vegna þess að makríllinn gengur á Íslandsmið en ekkert segir að stofnar hér við land haldi tryggð við Íslandsmið þegar hlýnun ágerist (eða kólnun vegna veikari Golfstraums). Nýlegt dæmi eru erfiðleikar við að finna loðnuna,“ segir Árni.
Tvískinnungur hjá Sigmundi
Árni bendir á að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem Framsóknarflokkurinn tali um tækifæri loftlagsbreytinga en svo virðist sem það sé bara til heimabrúks. Sigmundur hafi talað eindregið og varað við loftlagsbreytingum í ávarpi á ráðstefnu um loftlagsbreytingar sem Ban Ki-moon hélt í september í fyrra. „Vissulega er umræða af þessu tagi ekki bundin við Framsóknarflokkinn eingöngu en líklega er hann eini stjórnmálaflokkurinn sem heldur þessu blákalt fram. Fyrir rúmu einu ári síðan kommenteraði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á nýútkomna skýrslu IPCC um loftslagsbreytingar og vildi þá meina að þrátt fyrir allt fælust viss tækifæri í stöðunni fyrir Ísland. Hann fékk á sig flóðöldu gagnrýni sem ekki síst byggði á ábendingum vísindamanna þess efnis að súrnun sjávar væri ákaflega hættuleg íslenskum hagsmunum,“ segir Árni.
Athugasemdir