Björgvin Þór Hólm, framkvæmdastjóri í Kópavogi, sendi Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, áskorun í gær um að leysa ráðherra ríkisstjórnarinnar frá störfum. Tæplega fimm hundruð manns hafa nú skrifað nafn sitt á undirskriftalista Björgvins á vefsíðunni change.org þar sem biðlað er til forseta Íslands að grípa í taumana. Ástæðan eru fréttir af aflandsfélagi eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Eins og kunnugt er átti félagið um 500 milljóna króna kröfu í slitabú bankanna á sama tíma og forsætisráðherra var sjálfur að semja við kröfuhafa slitabúanna fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Í áskorun til forseta Íslands segir að um alvarlegt trúnaðarbrot sé að ræða. „Það er í verkahring forseta að sjá til þess að Alþingi sé í lagi,“ segir Björgvin í samtali við Stundina. „Að mínu mati hefur hann ekki verið að vinna vinnuna sína.“
„Það er í verkahring forseta að sjá til þess að Alþingi sé í lagi.“
Þetta rímar við sjónarmið Svans Kristjánssonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, en hann sagði á Facebook-síðu sinni fyrr í vikunni að forseti Íslands mætti ekki, að hans mati, sitja hjá aðgerðarlaus nú þegar hyldjúp gjá hefur myndast á milli þorra þjóðarinnar og þingmeirihluta eða ríkisstjórnar. „Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, handvaldi Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem forsætisráðherra. Hann situr svo lengi sem forsetanum þóknast. Í valdi forsetans er að skipa nýja ríkisstjórn - síðan yrði rofið þing og boðað til nýrra þingkosninga.“
Stefnir í fjölmenn mótmæli á mánudag
Rúmlega 14 þúsund manns hafa nú skrifað undir undirskriftalista þar sem þess er krafist að Sigmundur Davíð láti af störfum sem forsætisráðherra og hverfi af þingi. Þá segjast um 1.700 manns ætla að mæta á mótmæli á Austurvelli mánudaginn 4. apríl næstkomandi þegar þing kemur saman á ný eftir páskafrí. „Ríkisstjórnin er rúin trausti og andlýðræðislegt að hún skuli ætla sér að sitja áfram. Ríkisstjórninni ber að virða lýðræðislegar grundvallarreglur og fara frá sem fyrst,“ segir meðal annars í texta með viðburðinum á Facebook. Krafa mótmælanna verður því að fá kosningar strax.
„Í raun og veru finnst mér að mótmælin ættu að vera á Bessastöðum,“ segir Björgvin, sem telur afar ólíklegt að þingmeirihluti muni samþykkja vantrauststillögu eða þingrof. „Það þarf að losa okkur við spillinguna á Alþingi og það er bara einn maður sem getur gert það - forseti Íslands.“
Athugasemdir