Lorrie Moss er viðkunnaleg bandarísk kona með hrokkið hár sem hefur búið á Íslandi frá maí í fyrra. Henni líður vel hérna, hefur eignast vini og hefur náð að hrista af sér mikil óþægindi sem hvíldu á henni í Bandaríkjunum. Hún hefur engin lög brotið.
Í dag á hún von á símtali þar sem henni verður sagt hvenær hún verði rekin úr landi.
Lorrie sótti um hæli hér í fyrra vegna mikilla óþæginda og ógnartilfinningar sem hún lifði við vestanhafs. Íslensk yfirvöld segja hana hafa gefið ófullnægjandi ástæður fyrir hælisveitingu, saga hennar sé „fjarstæðukennd og brengluð‟ og að hún megi ekki vera á Íslandi meðan málið hennar fer fyrir dómstóla. Þegar ég talaði við hana í fyrsta skipti fyrir nokkrum dögum var röddin hennar skjálfandi. Hún lifir við stöðuga streitu vegna yfirvofandi brottvísunar.
„Mér hefur liðið vel hér á Íslandi. En frá því í gær hefur mér verið óglatt.‟ Fjórum dögum fyrr hafði hún verið boðuð á skrifstofu Ríkislögreglustjóra og henni tilkynnt að hún fengi ekki að vera hér lengur.
Verður vísað úr landi í vikunni
Fyrstu mánuðina sem Lorrie var hér gat hún ekki gengið um vegna verkja í fæti og baki, en síðustu mánuði hefur hún sótt íslenskunámskeið, rakið gönguleiðir Reykjavíkur og tekið ljósmyndir. „Ég tók mynd af minnisvarðanum um vináttu Bandaríkjanna og Íslands,‟ segir hún og hlær. „Og hugsaði; en frábært fyrir mig.‟
Athugasemdir