Banaslys varð á Reykjanesbrautinni í dag við Rósaselstorg, skammt frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Tvær bifreiðar rákust saman en svo virðist sem að þær hafi verið að koma úr gagnstæðri átt. Karlmaður á fertugsaldri var fluttur alvarlega slasaður á sjúkrahús þar sem hann var síðan úrskurðaður látinn. Ekki er hægt að greina frá nafni mannsins að svo stöddu.
Tveir voru fluttir á heilsugæsluna í Keflavík vegna minniháttar meiðsla að sögn lögreglunnar í Reykjanesbæ.
Þetta er annað banaslysið á þessum kafla Reykjanesbrautarinnar á fjórum mánuðum. Í byrjun júlí lést annar karlmaður á fertugsaldri í umferðarslysi á Reykjanesbrautinni eftir árekstur vörubifreiðar og bifhjóls. Sá árekstur átti sér stað á umdeildum gatnamótum Reykjanesbrautar og Hafnarvegar, skammt frá þeim stað þar sem banaslysið átti sér stað í dag.
Tvö á gjörgæslu eftir annan árekstur
Annað alvarlegt umferðarslys varð einnig á Reykjanesbrautinni í dag við Vallarhverfið í Hafnarfirði. Slysið varð þegar bifreið var ekið fyrir lögreglumann á bifhjóli sem sinnti forgangsakstri fyrir sjúkrabifreið. Sjúkrabifreiðin var að flytja manninn sem lést í slysinu við Rósaselstorg. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum voru tveir karlar og ein kona flutt á bráðamóttöku Landspítalans eftir það slys. Tvö þeirra eru á gjörgæslu.
Óskar eftir vitnum
Vegna rannsóknar óskar lögreglan á Suðurnesjum eftir vitnum að slysinu sem átti sér stað skammt frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þeir sem geta veitt upplýsingar eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna á Suðurnesjum í síma 444-2299.
Athugasemdir