Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti með sex atkvæðum gegn fjórum á fundi í vikunni að afturkalla tímabundna frestun á launabreytingum og þiggja þannig 45 prósenta launahækkun.
Þiggja þeir hækkunina á þeim grundvelli að ljóst sé orðið að Alþingi ætli ekki hnekkja ákvörðun Kjararáðs um hækkun þingfararkaups.
Fram kemur í fundargerð bæjarstjórnar að full laun fyrir störf í bæjarstjórn séu í dag 199 þúsund krónur á mánuði en vegna ákvörðunar kjararáðs muni launin hækka upp í 286 þúsund krónur.
Á fundi bæjarstjórnar lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Bjartrar framtíðar fram svohljóðandi bókun:
Nú er ljóst að Alþingi mun ekki breyta ákvörðun kjararáðs frá 1. nóvember 2016 um hækkun á þingfararkaupi. Um árabil hafa kjörnir fulltrúar í Hafnarfirði sjálfir ákvarðað laun sín en það fyrirkomulag verður að teljast mjög óeðlilegt og óheppilegt. Í júní 2016 birti Samband íslenskra sveitarfélaga viðmiðunarlaunatöflu fyrir fulltrúa í sveitarfélögum landsins þar sem miðað er við þingfararkaup. Í kjölfarið ákvað bæjarráð Hafnarfjarðar að launaþróun kjörinna fulltrúa sveitarfélagsins skyldi tekin úr höndum þeirra sjálfra, fylgja framvegis þingfararkaupi og um leið verða ákvörðuð af kjararáði eins og víðar er gert í bæjarfélögum. Með vísan til þess að Alþingi hyggst ekki breyta ákvörðun kjararáðs mun bæjarstjórn Hafnarfjarðar nú fylgja eftir fyrri ákvörðun, að miða laun sín við þingfararkaup og þar með ákvarða ekki sjálf laun sín.
Síðastliðin átta ár hafa laun kjörinna fulltrúa í Hafnarfirði ekki haldið í við almenna launaþróun og dregist jafnt og þétt aftur úr launaþróun starfsmanna sveitarfélaga og munar þar núna um 45%. Full laun fyrir störf í bæjarstjórn eru núna 199 þús. kr. á mánuði. Með ákvörðun kjararáðs hækka launin því og verða um 286.000 kr. á mánuði. Full laun fyrir störf í almennu ráði hjá bæjarfélaginu eru um 90 þús. kr. á mánuði. Með ákvörðun kjararáðs verða laun fyrir setu þar nú um 129.600 kr. á mánuði.
Bæjarfulltrúar minnihlutans, Adda María Jóhannsdóttir auk fulltrúa Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, lýstu furðu yfir að ekki væri hægt að bíða eftir niðurstöðum starfshóps um starfsumhverfi og kjör bæjarfulltrúa:
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað. Þann 1. desember sl. var skipaður starfshópur í bæjarráði, sem í eiga sæti fulltrúar allra flokka í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Samkvæmt erindisbréfi er eitt meginverkefni starfshópsins að endurskoða starfsumhverfi kjörinna fulltrúa hjá Hafnarfjarðarbæ og þar á meðal launakjör. Hópurinn á að skila niðurstöðu 1. febrúar 2017, sem er eftir tæpar 2 vikur. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lýsa furðu yfir því að ekki sé hægt að bíða eftir niðurstöðu starfshópsins.
Í ljósi fyrri athugasemda okkar gagnvart hækkun Kjaradóms á þingfarakaupi förum við fram á að starfshópurinn fái að ljúka sinni vinnu og endurskoðun á launum kjörinna fulltrúa hjá Hafnarfjarðarbæ.
Þann 29. október síðastliðinn ákvað Kjararáð að hækka laun þingmanna um 45 prósent eða sem nemur 338 þúsund krónum á mánuði. Mikil umræða skapaðist um málið og kom upp ákall um að Alþingi myndi reyna að hnekkja úrskurði Kjararáðs með lagasetningu. Það var ekki gert.
Haft var eftir Benedikt Jóhannessyni, núverandi fjármálaráðherra og þáverandi formanni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, milli jóla og nýárs að ólíklegt væri að Alþingi myndi hrófla við úrskurði kjararáðs, enda hefði kjararáð þar „einfaldlega verið að leiðrétta alls konar inngrip undanfarinna ára“.
Eins og Stundin hefur fjallað um hafa þingmenn hækkað mun meira í launum en almennir launþegar á undanförnum árum. Árið 2013 voru laun þingmanna 630.024 krónur og hafa þau því hækkað um 74,8 prósent á rúmlega þremur árum. Launavísitala, sem sýnir almenna launaþróun, hefur hins vegar aðeins hækkað um 28,9 prósent á sama tímabili.
Athugasemdir