„Næsti forsætisráðherra er traustur og góður maður og það er ástæða til að óska Íslendingum til hamingju með hann,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, í samtali við hóp fréttamanna í Alþingishúsinu fyrir skemmstu. Hann sagði hins vegar ekki hver væri nýr forsætisráðherra. „Jæja, ég held að þið getið nú getið ykkur til um það. Mér finnst líka eðlilegt að á þessu kvöldi leyfi ég honum svolítið að eiga sviðið,“ sagði Sigmundur, brosti og yfirgaf svæðið.
Höskuldur Þór Þórhallsson þingmaður kom næstur og sagði að Sigurður Ingi Jóhannsson verði forsætisráðherra. Það var staðfest síðar þegar Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi ræddu við fjölmiðla.
Sigurður Ingi og Bjarni sögðu að ekki yrði gerður nýr málefnasamningur heldur yrði haldið áfram með þau mál sem ríkisstjórnin hafði á prjónunum.
Viðtal fyrir mistök
Höskuldur hafði farið í viðtal hjá hópi fjölmiðlamanna í Alþingishúsinu fyrir mistök, en hann taldi að nýr forsætisráðherra hefði þegar stigið þar fram og sagðist ekki hafa ætlað sér í viðtal á undan honum.
„Mér skilst að það sé ekki búið að raða niður endanlega í ráðherraembætti,“ sagði Höskuldur Þór og útskýrði svo að hann teldi að Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson hefðu þegar rætt við fréttamenn, en svo var ekki. „Ég bjóst reyndar við því að þeir væru búnir að taka viðtal. Ég bara var að rölta heim til mín, svo ég segi nú bara alveg hreinskilið,“ sagði hann. „Framsóknarflokkurinn hefur orðið fyrir skaða, eins og Sigurður Ingi nefndi í dag í fjölmiðlum, en ég hélt og stóð í þeirri meiningu að sá sem mun taka við forsætisráðherraembættinu, vonandi, hefði nú þegar tekið viðtal og gekk þess vegna hérna reiðubúinn að svara spurningum.“
Höskuldur yfirgaf því svæðið.
Mörgum spurningum er því enn svarað varðandi nýja ríkisstjórn.
Samkvæmt svörum leiðtoga stjórnarandstöðunnar verður kosningum flýtt. Stjórnarandstaðan leggur engu að síður til þingrof og kosningar. „Þeir komu ekki með neinn lista yfir hvað þeir ætluðu að klára,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Stundin fjallaði um umdeildan feril Sigurðar Inga á ráðherrastóli í gær.
Athugasemdir