Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 9 árum.

Áróðursmeistari Sigmundar Davíðs

Einn mesti áhrifa­vald­ur sam­tímaum­ræðu á Ís­landi er lít­ið þekkt­ur. Jó­hann­es Þór Skúla­son, að­stoð­ar­mað­ur Sig­mund­ar Dav­íðs Gunn­laugs­son­ar for­sæt­is­ráð­herra og ræðu­höf­und­ur hans, var grunn­skóla­kenn­ari þeg­ar kall­ið barst úr Stjórn­ar­ráð­inu. Hann hafði áð­ur ver­ið sig­ur­sæll þjálf­ari í ræðu­keppni fram­halds­skóla­nema, Morf­ís, og þró­aði sér­stak­an áróð­urs­stíl sem var kennd­ur við það að „ein­falda og marg­falda“ og „trekta“. Hann hef­ur lagt sér­staka áherslu á þjóð­ern­is­hyggju.

Jóhannes Þór hafði aldrei komið nálægt hefðbundnu stjórnmálastarfi, þegar Sigmundur réði hann sem aðstoðarmann í febrúar 2011. Hann hafði hinsvegar getið sér gott orð sem grunnskólakennari og einn þekktasti þjálfari í Mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskóla á Íslandi, Morfís. Jóhannes ólst upp í Vesturbænum og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1993, tveimur árum áður en Sigmundur Davíð útskrifaðist úr sama skóla. Leiðir þeirra lágu síðar saman þegar Indefence hópurinn varð til sem viðbragð við hryðjuverkalögum breskra stjórnvalda í október 2008. Þeir náðu fljótt vel saman í gegnum starfið en báðir lögðu ríka áherslu á að sameina Íslendinga, fyrst gegn hryðjuverkalögum Breta og síðar gegn Icesave samningunum.

Saman í viðræður
Saman í viðræður Jóhannes Þór var sá eini sem Sigmundur tók með sér til skrafs og ráðagerða í stjórnarmyndunarviðræðurnar sem fram fóru í sumarbústað fjölskyldu Bjarna Benediktssonar vorið 2013.

Jóhannes hefur verið einn nánasti samstarfsmaður forsætisráðherra síðan í febrúar 2011 en hann var til að mynda sá eini sem Sigmundur tók með sér til skrafs og ráðagerða í stjórnarmyndunarviðræðurnar sem fram fóru í sumarbústað fjölskyldu Bjarna Benediktssonar vorið 2013. En hvers vegna valdi forsætisráðherra fyrrum grunnskólakennara sem sinn helsta ráðgjafa? Stundin ræddi við á annan tug viðmælenda sem starfað hafa með Jóhannesi og þekkja til hans fyrri starfa. Þeir lýsa honum sem „krúttnörd“ með mikinn áhuga á Júróvisjón, sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og seinni heimsstyrjöldinni. Þá sjá margir þeirra fingraför Jóhannesar á ræðum forsætisráðherra. „Ég held klárlega að öll mín fyrri störf hafi nýst í þessu á einhvern hátt,“ segir Jóhannes aðspurður hvort reynslan af ræðuskrifum fyrir menntaskólanema komi sér nú að góðum notum í stjórnarráði Íslands.

Algjört legend“

Jóhannes lauk B.A. prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1999 og kennslufræði til kennsuréttinda frá sama skóla árið 2000. Að því loknu tók hann til starfa sem grunnskólakennari í Seljaskóla. Jóhannes var vel liðinn af samkennurum, lét til sín taka í kjarabaráttu kennara, var formaður Félags ungra kennara og ritari Kennara­félags Reykjavíkur. Þá hlaut hann dugnaðarforkaverðlaun Heimilis og skóla fyrir starf sitt sem félagsstarfskennari Seljaskóla en Jóhannes leikstýrði nemendum skólans fyrir hæfileikakeppnina Skrekk til margra ára með góðum árangri.

„Hann er langsamlega besti og skemmti­legasti kennari sem ég hef nokkurn tíma haft,“ segir einn þeirra sem sat sögutíma hjá Jóhannesi Þór á þessum árum. „Hann fékk mann virkilega til þess að hafa áhuga á því sem um ræddi.“ Annar fyrrverandi nemandi Jóhannesar er sama sinnis. „Hann var frjálslegur í tímum, hress og fyndinn. Hann talaði við krakkana eins og jafningja.“ Sjálfur segir Jóhannes að reynslan af kennslunni hafi nýst honum vel í starfi aðstoðarmanns enda byggist kennarastarfið mikið á samskiptum við annað fólk og verkefnastjórn: „Það er mjög góður undirbúningur fyrir vinnu á þessu sviði.“

Vinsældir Jóhannesar sem kennara urðu til þess að fyrrum nemendur hans úr Seljaskóla fengu hann til þess að þjálfa Morfís-lið Fjölbrautaskólans í Breiðholti, FB, árið 2002. „Hann var annað og meira en þjálfari, hann var vinur þeirra og þeir vinir hans og þeir halda enn sambandi,“ segir viðmælandi Stundarinnar. Jóhannes var áberandi á keppnum ræðuliðs FB. Fyrir það fyrsta var hann langelsti þjálfarinn á svæðinu, um og yfir þrítugt, en vanalega eru Morfís þjálfarar nýútskrifaðir fyrrum keppendur. Jóhannes mætti vígalegur á keppnir, í flíspeysu og svörtum leðurfrakka sem fór ekki fram hjá neinum. Oftar en ekki tók hann sjálfur þátt í atriðum ræðuliðsins, reis úr sæti og fékk salinn til þess að taka þátt með ræðumanninum. „Hann var algjört legend á þessum keppnum.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár