Forsætisráðuneytið heldur áfram að verja almannafé til kaupa á heilsíðuauglýsingaplássum í dagblöðum þar sem áherslumál ríkisstjórnarinnar eru auglýst. Í auglýsingu sem birtist í Fréttablaðinu í gær er vakin athygli á útgjaldaliðum hins opinbera og fullyrt að mestu sé „varið í vexti, velferð og heilbrigði“. Þá kemur fram að vegna niðurgreiðslu á skuldum hins opinbera og lækkunar vaxtakostnaðar skapist nú „tækifæri til að lækka skatta og álögur á almenning eða fjárfesta frekar í velferð, menntun og innviðum“.
Framsetningin í auglýsingunni hefur vakið athygli, en þar eru vextir, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar sýnd líkt og um sé að ræða einn og sama útgjaldaliðinn. Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, bendir á það á Facebook að óvenjulegt er að flokka lífeyrisgreiðslur með vaxtagreiðslum. Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, tekur í sama streng í samtali við Stundina.
„Það er villandi að horfa bara á vaxtaútgjöld án þess að skoða vaxtatekjur ríkisins og aðrar eignatekjur sömuleiðis. Vaxtagjöldin eru að hluta til svona há vegna þess að ríkið hefur á undanförnum árum lagt verulegt fé inn í fjármálafyrirtæki, sérstaklega Landsbankann, og tekið lán til að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð,“ segir Gylfi
Athugasemdir