Lögreglumaður sem annaðist fíkniefnarannsóknir hjá embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu hefur kvartað undan einelti sem hann telur sig hafa orðið fyrir af hendi Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur lögreglustjóra.
Lögmaður mannsins sendi starfsmannaskrifstofu lögreglunnar og innanríkisráðuneytinu bréf í gær. Þar er því meðal annars lýst hvernig Sigríður Björk hótaði manninum stöðulækkun, svipti hann lögreglufulltrúastöðu og dró til baka ákvörðun um að hann fengi að sækja sérhæfingarnámskeið erlendis.
Allt þetta gerðist í vitna viðurvist eftir að maðurinn lét í ljós efasemdir um réttmæti ásakana sem bornar höfðu verið á samstarfsmann hans, þann mann sem kallaður hefur verið lögreglufulltrúi x í umfjöllun Stundarinnar og var hreinsaður af ásökunum um brot í starfi og óeðlileg samskipti við aðila úr fíkniefnaheiminum fyrr í sumar.
Í bréfinu kemur fram að vegið hafi verið að starfsheiðri lögreglumannsins og fjárhagslegri afkomu hans auk þess sem málið hafi haft djúpstæð áhrif á fjölskylduna. Bæði hann og fleiri fjölskyldumeðlimir hafi þurft að leita sér sálfræðiaðstoðar vegna framgöngu Sigríðar Bjarkar og greiddi lögregluembættið kostnaðinn af þeirri meðferð.
Fullyrt er að Sigríður hafi öskrað á manninn í vitna viðurvist, gefið í skyn að hún myndi standa í vegi fyrir framgangi hans innan lögreglunnar, borið á hann rangar sakir og krafist þess að hann drægi til baka skoðanir sem hann hafði látið í ljós.
Lögreglumaðurinn sem kvartað hefur undan Sigríði Björk er ekki sá fyrsti sem sakar hana um einelti. Aldís Hilmarsdóttir, fyrrverandi yfirmaður fíkniefnadeildar, stefndi lögreglustjóranum fyrr í sumar, meðal annars á þeim grundvelli að Sigríður hefði með ámælisverðum og endurteknum hætti valdið sér vanlíðan og lagt sig í einelti.
Sá lögreglumaður sem kvartar nú undan Sigríði kom fyrir í ítarlegri fréttaskýringu Stundarinnar í sumar undir yfirskriftinni „Hallarbylting og hreinsanir í fíkniefnadeild“. Þar var greint frá því hvernig lögreglumenn sem höfðu lögreglufulltrúa x fyrir rangri sök voru hækkaðir í tign, fengu óauglýsta stöðu og hlutu annars konar framgang í starfi. Þeir sem stóðu með lögreglufulltrúanum voru hins vegar settir til hliðar. Umræddur lögreglumaður er í síðarnefndum hópi.
Eftir að lögreglufulltrúi x var sviptur yfirmannsstöðu upplýsingateymis fíkniefnadeildar tók þessi lögreglumaður við þeirri stöðu. Í kjölfarið hófst sú atburðarás sem fjallað var lauslega um í umfjöllun Stundarinnar á sínum tíma en er lýst með ítarlegum hætti í kvörtuninni sem nú hefur verið lögð fram. Atburðarásinni lyktaði með þeim hætti að lögreglumaðurinn var fluttur á aðra starfsstöð þar sem hann naut lakari kjara en áður. Í kjölfarið ákvað hann að taka sér leyfi.
„Reiddist þá lögreglustjóri enn frekar, öskraði og sagði skoðun umbjóðanda míns engu skipta“
Kvörtunin er ítarleg og efnismikil. Í þessari frétt verður einungis fjallað um hluta hennar, einkum fund sem Sigríður Björk Guðjónsdóttir boðaði lögreglumanninn á þann 31. ágúst 2015. Aldís Hilmarsdóttir, fyrrverandi yfirmaður fíkniefnadeildar, sat einnig fundinn og varð vitni að því sem þar fór fram.
Lögreglumaður vildi aftur fá inngöngu í upplýsingateymið
Eftir að lögreglumaðurinn tók við stöðu yfirmanns upplýsingateymisins kom lögreglumaður úr fíkniefnadeild, sem áður starfaði með teyminu, að máli við hann og óskaði eftir að fá aftur inngöngu í teymið. Þeim
Athugasemdir