Lögregluyfirvöld í Hamborg í Þýskalandi hafa kallað eftir liðsauka nú þegar mótmæli í borginni eru að ná nýjum hæðum. Austurríki er á meðal þeirra ríkja sem hyggjast senda lögreglumenn til borgarinnar. Þúsundir mótmælenda voru komnir saman í Hamborg í dag til þess að mótmæla fundi G20-ríkjanna. Komið hefur til mikilla átaka á milli mótmælenda og lögreglumanna en nákvæm tala yfir þá sem hafa slasast liggur ekki fyrir. Kveikt hefur verið í bílum víðsvegar um borgina auk þess sem rúður ýmissa banka hafa verið brotnar. Svartan reyk leggur yfir borgina.
Fjörutíu mótmælendur hafa verið handteknir auk þess sem ellefu, hið minnsta, slösuðust þegar þeir féllu niður af vegg þegar lögreglumenn höfðu afskipti af þeim. Ekki eru til nákvæmar tölur um fjölda slasaðra á meðal mótmælenda en lögreglan hefur gefið það út að 160 lögreglumenn hafi slasast á mótmælunum, flestir þeirra lítillega. Óeirðarlöreglumenn eru vel tækjum búnir, í sérútbúnum klæðnaði og með hjálma auk þess sem þeir njóta aðstoðar trukka sem beita stærðarinnar vatnsbyssum til þess að tvístra mannskapnum. Svartklæddir og grímuklæddir mótmælendur sem kenna sig við anarkisma [e. Black bloc] hafa verið áberandi í fremstu víglínu mótmælanna.
Athugasemdir