Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Rökræða og skynsemi: Karl-Otto Apel (1922-2017)

Rökræða og skynsemi: Karl-Otto Apel (1922-2017)

Þýski heimspekingurinn Karl-Otto Apel  er látinn í hárri elli. Hann starfaði náið með Jürgen Habermas og átti heiðurinn af ýmsum þeim hugmyndum sem Habermas hafa verið eignaðar, þ.á.m. rökræðusiðfræðinni (þý. Diskursethik, e. discourse ethics). Undirritaður sótti fyrirlestra Apels í Frankfurt fyrir margt löngu og kynntist honum svo lítið.

Frá nasisma til skynsemishyggju

Apel var alinn upp í Þýskalandi Hitlers og játaði að hafa trúað áróðrinum. En vatnaskil urðu í lífi hans þegar hann stóð nítjánda ára gamall hermaður í miðju Rússlandi og sá Moskvu brenna. Þá hugsaði hann „þetta má ekki halda áfram“. Eftir  stríð tók hann að nema heimspeki og vildi leggja grunn að speki sem bólusett gæti hugsandi fólk gegn nasisma og annarri alræðishyggju. Nasistar hafi verið andskynsemissinnar og afstæðissinnar, móteitrið væri því alhyggja og skynsemishyggja. Eins og margir skynsemishyggjumenn sagði Apel að ekki sé hægt að andæfa skynsemishyggju með rökum því það að rökstyðja mál sitt þýðir að beita skynseminni og viðurkenna í reynd mátt hennar. En hvað ef  andskynsemissinnar  láta eiga sig að rökstyðja mál sitt? Eru þeir þá ekki lausir allra mála? Það sögðu alltént skynsemishyggjumenn eins og Karl Popper, ekki sé hægt að verja skysnemina með rökum því þá gefa menn sér það sem þeir ætla að sanna, ágæti skynseminnar. Að vera skynsemhyggjumaður eða andskynsemissinni er spurning um rakasnauða ákvörðun, staðhæfði Popper.

Skynsemi og tjáskipti

Apel var ósammála og sagði að við værum fönguð af skynseminni hvort sem okkur líkaði það betur eða verr. Þetta rökstuddi  hann með greiningu á tjáskiptum og tungumáli.  Öll málræn tjáning og öll tjáning sem klæða má í orð megi  telja hluta af „virtúelri“  rökfærslu. Hrópi einhver „bravó!“ verður að vera hægt rökstyðja að hann hafi í raun og veru verið að fagna einhverju eða einfaldlega verið að leika sér með orð og upphrópanir. Það verður hugsanlega líka  að vera hægt að rökstyðja að það sem hann kann að fagna sé í raun og veru til og eigi skilið að vera fagnað. Svipað gildir um meðvitaða líkamstjáningu, t.d. ef einhver ullar á forsætisráðherrann. Mannlegum þörfum sé  miðlað með aðstoð menningarinnar, sumar þeirra eru þess utan ótvírætt sköpunarverk samfélagisins. Margar slíkar þarfir eru í reynd  kröfur og K er þá og því aðeins krafa að hægt sé að rökræða réttmæti hennar. Og sá sem rökræðir hlýtur að virða í reynd allar mögulegar kröfur og þar með þarfir svo fremi hægt sé að réttlæta þær með rökum.

Ef einhver trúir því í fúlustu alvöru að tiltekin staðhæfing sé sönn þá verður hann að vera tilbúinn til að verja þá staðhæfingu með rökum  gegn allri raunverulegri og mögulegri gagnrýni, svo fremi hann  hafi tækifæri til þess. Þannig hlýtur sannleikurinn að vera algildur og rakalega tendgur mögulegri rökfærslu.

Að beita tungumálin tengist réttmæti og þar með siðferði með ýmsum hætti. Standi barn fyrir framan hermannahóp og segir "skjótið!" getur það ekki talist fyrirskipun vegna þess að barnið hefur engan rétt til að gefa hana.

Sanngildi staðhæfinga skiptir máli fyrir fyrirskipanir. Ekki er hægt að gefa hermönnum fyrirskipanir nema að gera ráð fyrir að það satt að þeir séu til. Sama gildir um siðferðilegar boðsyrðingar, ekki er hægt að segja að menn eigi að hjálpa nauðstöddum nema að það sé satt að nauðstaddir séu til. Sannleikurinn er sem sagt algildur og það algildi "smitar" boðsyrðingar.

Siðferði skiptir máli fyrir sannleikann. Ekki er hægt að verja staðhæfingu rökum nema menn hegði í samræmi við boðið "taktu tillit til málefnalegrar gagnrýni!"

Rökræðusiðfræðin

Ekki sé hægt að rökræða nema að líta að jafnaði  á viðmælendur sína sem sjálfráða verur sem geti axlað ábyrgð á orðum sínum og gerðum. Það þjónar engum tilgangi að reyna að rökræða við kornabörn og dýr. Ekki er heldur hægt að rökræða  ef menn beita viðmælendur sína ofbeldi, hótunum og þvingunum. Hvað þá ef menn hunsa ávallt rök annarra.  Þetta þýðir að það er siðferðilegur þáttur í  rökræðu og þar með tjáskiptum þar eð þau eru merkingarvana án tilvísunar til mögulegrar rökræðu. Meðal þeirra siðaboða sem telja má byggð inn í rökræðu eru þessi: 1) Þú skalt að jafnaði líta á viðmælendur þína sem sjálfráða og ábyrga einstaklinga; 2) þú skalt að jafnaði ekki beita ofbeldi og þvingunum, 3) þú skalt að jafnaði taka tillit þess sem aðrir segja. Það að slík siðaboð séu byggð inn í rökræðu og tjáskipti er grundvöllur rökræðusiðfræðinnnar. Til að gera langa sögu stutta segir Apel eitthvað á þá leið siðaboð séu réttmæt svo fremi  þau í fyrsta lagi brjóti ekki gegn grunnsiðaboðum rökræðunnar, í  öðru lagi að  menn geti sammælst um réttmæti þeirra  í frjálsri og opinni rökræðu (samræðu)  sem allir menn geta tekið þátt í  og allir hafa jöfn tækifæri til að leggja orð í belg. Litlar líkur eru á að slíkt samfélag frelsis og jafnaðar verði nokkurn tíman fullkomlega raungert en okkur er einboðið að berjast fyrir slíku samfélagi, sagði Apel.

Lokaorð

Hvers vegna varð Apel aldrei heimsfrægur eins og Habermas? Ein ástæðan var sú að Apel var ekki ýkja taktískur í mannlegum samskiptum, gagnstætt Habermas. Önnur ástæðan var Apel hafði  sig aldrei mikið frammi í pólitískri rökræðu, gagnstætt Habermas. Þriðja  ástæðan  var að Habermas skrifaði mikið um grundvallarvanda félagsvísinda, Apel ekki. Habermas varð fyrst þekktur í enskumælandi löndum sem félagsvísindamaður. Fjórða  ástæðan var sú Habermas vann betur úr hugmyndinni um rökræðusiðfræði en Apel.

Samt er engin ástæða til að vanmeta Apel, hann var um  margt merkur hugsuður, einn þeirra sem átti þátt í að siðmennta þýska hugsun.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni