Maí 1968
„the time is right for fighting in the street“
Rolling Stones: Street fighting man
Í marsmánuði árið 1968 las ég skáldssögu John Steinbecks, Hundadagastjórn Pippíns konungs. Hún fjallaði um óeirðir í Frakklandi sem leiddu til þess að komið var aftur á konungsstjórn í landinu. Afkomandi hinnar eldfornu konungsættar Merovinga var krýndur konungur, sér til armæðu og leiðinda. En svo urðu nýjar óeirðir og Pippín gat losað sig við krúnuna þungu.
Sögumaður gaf í skyn að Frakkar væru óeirðarsamir. Þetta þótti mér vond speki, var ekki allt með frið og spekt í Frans eftir að Alsírstríðinu lauk? En svo rann maímánuður upp og Frakkland lagðist á hliðina vegna óeirða, bæði stúdenta og verkamann.
Rauði Danny Cohn-Bendit
Fyrir stúdentunum fór þýski Gyðingurinn Daniel Cohn-Bendit, yfirlýstur anarkisti. Einhvern tímann gluggaði ég í bók hans um hinn kalkaða kommúnisma þar sem hann fordæmdi kommúnista en vegsamaði anarkista. Mörgum árum seinna heyrði ég hann flytja fyrirlestur í Frankfurt og mæltist afar vel, karisminn lak af honum. Hann sagðist vera meiri andkommúnisti en Reagan og sagði að hin vanhelga þrenning „sex, drugs and rock and roll“ hafi skipt sig miklu á 68-árunum. Í nýlegu viðtali í New York Review of Books sagði hann að ungmennauppreisnin hafi hafist 1965 í Berkeley vestur í Kaliforníu. Bandaríska uppreisnarhreyfingin hafi verið mun síður kreddusinnuð en sú franska og sú þýska. Hún hafi verið nátengd hippamennskunni og vistspeki. Bæta má við að einn helsti fulltrúi bandarísku uppreisnarmannanna var vistanarkistinn Murray Bookchin. Og ekki má gleyma fuglum eins og Jerry Rubin og Abbie Hoffman sem stóðu fyrir allra handa gjörningum. Hoffman dreifði seðlum í kauphöllinni á Wall Street og naut þess að sjá verðbréfasalana slást um féð.
Frankfurtarskólinn
En það var líka marxískur þáttur í bandarísku hreyfingunni. Landflótta þýskur Gyðingur og heimspekingur, Herbert Marcuse, hafði mikil áhrif á hana en hann var einn af frumherjum Frankfurtarskólans. Sá skóli var marxískur en laus við bókstafstrú og lagði talsvert mikla áherslu á þátt menningar og sálarlífs í sögulegri (van)þróun. Forsprakkar hans spurðu hvers vegna kreppan mikla hafi ekki leitt til sósíalískrar byltingar í Þýskalandi. Svarið var að sálrænar bælingar og stjórnlynd menning hafi gert Þjóðverja ginnkeypta fyrir nasisma.
Í metsölubók sinni One-Dimensional Man (1964) sagði Marcuse að vestræn samfélög væru orðin ein-víð, á yfirborðinu væru þau frjálslynd og plúralísk en í reynd sé kerfið straumlínulaga og stjórnlynt. Hið sama gildi um menningu og hugsun alla, alls staðar megi kenna þrúgandi sáttamenningu og tæknimennsku. Marcuse var tekið eins og glataða syninum í sínu forna föðurlandi, Þýskalandi. Þar varð hann á gamals aldri ein helsta hetja stúdentauppreisnarinnar. Fyrir voru þrír helstu fulltrúar Frankfurtarskólans, þeir Max Horkheimer, Theodor Adorno og Jürgen Habermas. Adorno var svartsýnn í eðli sínu og þótti lítið til stúdentauppreisnarinnar koma. Enda lenti hann í hatrömmum átökum við stúdentana og sigaði lögreglunni á þá. Þótti ýmsum lítið leggjast fyrir kappann, hugsuðinn Marx-innblásna. En kannski var hann í rétti sínum. Habermas var töluvert yngri en hinir þrír meginfulltrúar Frankfurtarskólans. Framan af studdi hann stúdentana sem voru innblásnir af gagnrýni hans á tæknihyggju. Stjórnmál snerust í æ ríkara mæli um að finna hagnýtar, tæknilegar lausnir, í æ minna mæli um siðferðilegar og hugmyndafræðilegar spurningar, sagði Habermas. En hann snerist svo gegn stúdentunum og fordæmdi harkalega í greininni „Gervibyltingin og börn hennar“ („Die Scheinrevolution und ihre Kinder“). Enda úrættaðist 68-byltingin fljótlega í kreddumarxisma, dóprugl og hryðjuverk. Og Jerry Rubin gerðist verðbréfasali, rauði Danny græningi og evrópuþingmaður, Habermas krati og ESB-sinni.
Kostir og lestir 68
Bandaríska skáldið Allen Ginsberg var hetja hippa og stúdenta vestanhafs. Í kvæðinu Howl orti hann svo „ I saw the best minds of my generation destroyed by madness“. Ég sá þetta gerast, ég sá hæfileikamenn eyðileggja sig á dópi, heillaðir af dópdýrkun hippa og annarra sextíuáttamanna. Ekki bætti ofbeldishyggja sumra þeirra úr skák, auk þess voru margar af hugmyndunum barnalegar. Samt hefur sextíuáttauppreisnin komið ýmsu góðu til leiðar. Eitt er fyrir sig að þýskir og franskir háskólar urðu síður stjórnlyndir enda risu stúdentarnir frönsku og þýsku ekki síst gegn stjórnlyndu háskólakerfi. Þeir þýsku átöldu með rétti foreldrakynslóðina fyrir að þaga um myrkraverk nasista og jafnvel verja þau. Þeim tókst að fá Þjóðverja til að horfast í augu við sína skuggalegu fortíð. Og ekki má gleyma því að sextíuáttamenn vöktu athygli á vistvandanum. Uppúr hreyfingum þeirra spratt ný kvenfrelsishreyfing og hreyfing samkynhneigðra. Bætt staða kvenna og fólks með aðrar kynhneigðir en meirihlutinn má rekja til uppreisnarinnar í maí árið 1968.
Athugasemdir