Jürgen Habermas níræður
Sé Noam Chomsky áhrifamesti hugsuður Norður-Ameríku má telja þýska heimspekinginn Jürgen Habermas áhrifamesta hugsuð Evrópu en hann verður níræður þann átjánda júní. Hann hefur komið víða við, varð ungur þekktur sem nýmarxisti en hefur smám saman orðið hógværari í skoðunum. Nú er hann meðlimur í þýska jafnaðarmannaflokknum og eindreginn Evrópusinni.
Hann var alinn upp í Þýskalandi á dögum Hitlers og voru foreldrar hans fylgjandi nasistum, hann var um tíma í Hitlersæskunni. En stríðinu lauk þegar Habermas var sextán ára gamall, hann uppgötvaði fljótlega sannleikann um nasismann. Hann varð fyrir losti og tók að hugsa um hvernig bólusetja megi mannfólkið gegn nasismanum og skyldum stefnum.
Sem heimspekistúdent kynntist hann ögn eldri stúdent að nafni Karl-Otto Apel (1922-2017). Sá hafði trúað áróðri nasista, verið sjálfboðaliði í þýska hernum og tekið þátt í innrásinni í Sovétríkin. En þegar hann sá Moskvu brenna hugsaði hann „þetta verður að taka enda, nasisminn er helstefna“. Þeir Habermas tóku nú að ræða þessi mál og velta fyrir sér hvernig heimspekin geti andæft ósómanum. Nasisminn einkenndist af skynsemishatri og afstæðishyggju, því væri nauðsynlegt að verja skynsemishyggju og andæfa afstæðishyggju, sögðu þeir félagar.
Rökræðusiðfræði.
Þeir sjá í heimspeki Kants skynsemis- og mannstefnu en hana verði að aðlaga nútímanum. Í stað þess að telja hugann burðarás skynseminnar eins og Kant gerði sé réttara að líta á tungumálið sem slíkan burðarás. Hugtakið um rökstuðning og þar með hugtakið um skynsemi sé ofið inn í hugtakið um málnotkun. Ef Gummi segir við Siggu „ég hata þig!“ þá er yrðingin óskiljanleg nema menn þekki ástæður Gumma fyrir hatrinu. Og ástæður eru rök. Því er skynsemisþáttur í fáránlegustu yrðingum, þær eru óskiljanlegar nema í ljósi mögulegra raka. Hugtakið um rökstuðning er svo ofið inn í hugtakið um rökræðu. Menn geta haldið að þeir hafi rök fyrir máli sínu en aðrir geta sýnt fram á í rökræðu að svo sé ekki. En menn geta ekki rökrætt nema að þeir séu saupsáttir að kalla, taki tillit til raka andstæðingsins, beiti hann ekki ofbeldi o.s.frv. Því er siðferðilegur þáttur í rökræðu.
Ekki nóg með það, rökræðan er forsenda siðferðis, Apel og Habermas boðuðu svonefnda rökræðusiðfræði (þ. Diskursethik, e. discourse ethics). Habermas telur að tvö skilyrðislaus boðorð myndi grundvöll siðferðisins, meginrökræðu-boðorðið (M) og alhæfingar-boðorðið (A). Hið fyrrnefnda boðorð er á þessa leið: Siðaboð getur einvörðungu talist réttmætt ef allir hlutaðeigandi geta sammælst um það í frjálsri og óþvingaðri, siðferðilegri rökræðu. Alhæfingar-boðorðið varðar þau áhrif og aukaverkanir sem hljótast af því að tilteknu siðaboði sé almennt fylgt. Siðaboðið getur ekki talist réttmætt nema hlutaðeigandi sætti sig við þessi áhrif af fúsum og frjálsum vilja. Um er að ræða þau áhrif og aukaverkanir sem siðaboðið getur haft á möguleika manna á að fullnægja þörfum sínum. Hvaða áhrif og aukaverkanir hefur til dæmis siðaboðið um að fóstureyðingar eigi að vera frjálsar? Hverjir eru hlutaðeigandi? Sérstaka gerð siðferðilegrar orðræðu þarf til að svara slíkum spurningum, segir Habermas.
Eins og gefið hefur verið í skyn telja rökræðusiðfræðingar að siðaboð séu þá og því aðeins réttlætanlegt að menn gætu sæst á það í öldungis frjálsri og óþvingaðri rökræðu sem fram fari við kjöraðstæður. Við slíkar aðstæður séu menn sjálfráðir, njóta jafnt innra sem ytra frelsis. Um leið hafi þeir fullkomna yfirsýn yfir kosti, allir hafa jafna möguleika á þátttöku í rökræðunni o.s.frv. Meginreglur frjálsrar og óþvingaðrar rökræðu setji skorður við því hvaða siðferðishugmyndir séu réttlætanlegar, t.d. er hugmyndin um réttmæti þess að meina ákveðnum hópum að taka þátt í rökræðum ekki réttlætanleg því hún gengur þvert á meginreglur frjálsrar rökræðu. Rökræðusiðfræðingar gera sér ljósa grein fyrir því að hverfandi líkur eru á að hægt sé að raungera þetta fullkomna rökræðusamfélag en leiða ýmis rök að því að við verðum að hafa slíkt samfélag sem viðmið og markmið. Við getum t.d. ekki trúað staðhæfingu án þess að vera röklega knúin til þess að viðurkenna að menn myndu sættast á sanngildi hennar í frjálsri og opinni rökræðu við kjöraðstæður. Þannig getum við ekki trúað á staðhæfingar nema hafa hið fullkomna rökræðusamfélag sem röklegt viðmið.
Sættir og boðskiptabreytni.
“Sættir” er eitt lykilhugtakanna í þessari speki. Þær eru grundvöllur þess sem Habermas kallar „boðskiptabreytni (þ. kommunikatives Handeln, e. communicative actions). Það eru athafnir sem hafa gagnkvæman skilning (þ. Verständigung) og sættir að markmiði. Til dæmis gæti samstarf vísindamanna verið af þessu tagi.
Andstæða boðskiptabreytni er tækisathöfnin, athöfn þar sem menn gefa sér markmið án þess að leita sátta um ágæti þess, og reyna svo að finna hagkvæmustu leiðinna til að ná markmiðinu. Bóndinn sem erjar jörðina, viðskiptahöldurinn sem stefnir að hámarksgróða og stjórnmálamaðurinn sem vill ná völdum stunda tækisathafnir. En einnig móðir Teresa sem reynir að efla hag fátækra af fremsta megn. Tækisathafnir séu bráðnauðsynlegar en þær séu röklega bundnar á klafa boðskiptaathafna. Ef sannleikur er sáttatriði þá eru mögulegar sættir forsenda þess að menn geti fundið hagkvæmar leiðir til að ná settu markmiði. Og ef siðferðilegur þáttur er í málnotkun og hugsun þá vísa meira að segja hin ósiðlegustu markmið óbeint til siðaboða.
En tækisathafnir geti losnað úr greipum boðskiptabreytni og kristallast í kerfi sem geta ógnað þeirri breytni. Ógnarstjórn Stalíns gæti verið dæmi um slíkt kerfi. Um leið er markaðskerfið líka slíkt kerfi tækisathafna, sagði ekki Milton Friedman að markaðurinn virkaði ekki vel nema gerendur stefndu að hámarksgróða og stunduðu ekki góðgerðastarfsemi? Habermas viðurkenndi eftir að hann losaði sig við marxismann að markaðurinn væri nauðsynlegur en taldi að hann gæti ógnað boðskiptabreytni og þar með siðferðinu. Siðleysi og auðvaldsþróun útrásaráranna gæti verið dæmi um slíkt. Tekið skal fram að það sem hér segir um boðskiptabreytni er túlkun undirritaðs, Habermas getur verið óþarflega torskilinn á köflum.
Sættir og ígrundað lýðræði.
Ekkert lýðræði er mögulegt nema menn séu a.m.k. sáttir um leikreglur lýðræðisins, sáttir um að leysa skuli vandamálin með lýðræðislegum hætti í stað þess að berja hver á öðrum. Sættirnar séu röklegar forsendur þess að menn geti stundað eigingjarnt hagsmunapot með lýðræðislegum hætti, með sama hætti og boðskiptabreytni sé forsenda tækisathafna. Þegar öllu er á botninn hvolft sé lýðræði tilraun til að koma á almennum sáttum í krafti rökræðu. En vegna þess að við höfum of lítinn tíma, ónóga yfirsýn og aðrar takmarkanir verðum við oft að bera tillögur atkvæðum og sætta okkur við ófullkomið fulltrúalýðræði, sögðu þeir félagar á yngri árum.
Upp úr 1990 setti Habermas fram skipulega kenningu um lýðræðið. Hann telur að lýðræðið hafi tvö svið, annað formlaust, hitt formfast. Formlausa sviðið sé svið sam-félagsins (e. civil society), formfasta sviðið sé svið þjóðfélagsstofnana, aðallega þó ríkisins. Á formlausa sviðinu skeggræði menn pólitík á Netinu, yfir kaffibolla/bjórglasi eða í heita pottinum, bindist samtökum um að mótmæla óhæfu, fari í mót- og meðmælagöngur. Formfasti þátturinn sé þáttur ríkisstjórna, þinga og flokka. Best sé að hin formföstu og formlausu svið lýðræðisins efli hvort annað og haldi um leið hvort öðru í skefjum. Ríki formlausi þátturinn einn er hætta á skrílræði, sé formlegi þátturinn alvaldur þá er hætta á kjarnræði. Fyrri þátturinn getur eflt þann síðarnefnda með þeim hætti að kjörnir fulltrúar taki fyllsta tillit til velrökstuddra hugmynda sem á sveimi eru í samfélaginu. Þannig lagað lýðræði sé ígrundað lýðræði (þý. deliberative Demokratie).
Þessi sáttahugmynd um lýðræðið gengur þvert á hugmyndir frjálshyggjumanna og borgaralega þenkjandi fólks almennt. Þeim er tamt að líta á lýðræði sem friðsamlega baráttu ósáttra einstaklinga, framhald styrjalda með friðsömum hætti. Hinn frjálslyndi Karl Popper var þeirrar skoðunar en ég held að þeir Habermas og Apel séu nærri sannleikanum, sættir eru forsendur lýðræðislegrar baráttu. Lýðræði er ekki bara vettvangur friðsamlegra styrjalda heldur líka skynsamlegra rökræðna, ekki bara spurning um hagsmuni heldur líka hugsjónir.
Athugið að hugmyndin um ígrundað lýðræði er hugmynd um samræðulýðræði. Hún kann að vera móteitur gegn íslenskri frekju- og hagsmunapotspólitík þar sem meirihluti á Alþingi valtar einatt yfir minnihlutann. Í Noregi þykir sjálfsagt að gefa minnihlutanum sjans, t.d. formennsku í einstaka þingnefndum. Meirihlutinn reynir að ná sáttum við minnihlutann í sumum málum (en sáttfýsin gengur stundum of langt, norskar sættir geta verið þrúgandi). Þetta er mjög í anda samræðulýðræðis og ætti að vera Íslendingum fyrirmynd. Hvað sem því líður þá telur Habermas að ígrundað lýðræði sé móteitur gegn ofursjálfstæðum kerfum tækisskynsemi, þ.e. óbeisluðum markaði, skrifræði og veldi hagsmunapotandi pólitíkusa.
Gagnrýni á rökræðusiðfræðina.
Ég er síður hrifinn af rökræðusiðfræðinni þótt hún sé vissulega merk tilraun til að nútímavæða siðspeki Immanuel Kants. Hún er óþarflega abstrakt, of reglusinnuð og leggur nánast enga áherslu á þátt tilfinninga í siðferðinu. Siðferði er í mínum huga jarðbundið fyrirbæri, réttara sagt knippi skyldra fyrirbæra. Þau verða ekki dregin upp á eina seil, ekki er til neinn einn rauður þráður sem finna má í öllum siðlegum fyrirbærum. Upplýst dómgreind og vitlegar tilfinningar eru tækin sem nýtast best við siðamat. Hvað eru vitlegar tilfinningar? Réttlát reiði er reiði sem hvílir á rökum, er vitleg. Gagnstætt því er blind bræði vit-laus. Að finna réttláta reiða og ígrunda hana með rökum er dæmi um það hvernig vitlegar tilfinningar leika siðferðilegt hlutverk. Slíka reiði finna menn einatt þegar þeir sjá að menn, jafnvel þjóðir séu beittir ranglæti. Eru þá vitlegar tilfinningar burðarás siðferðis? Nei, eins og áður segir er slíkur burðarás torfundinn.
Kannski eiga meginreglur rökræðusiðfræði stundum við á vissum siðasviðum. Ýmsir fræðimenn, t.d. Jean Cohen, telja að líta beri á þær sem forskriftir fyrir góðu lýðræðissamfélagi, ekki grundvöll siðferðis. Og auðvitað má velta því fyrir sér hvort Habermas sé ekki óþarflega trúaður á töfrmátt hins ígrundaða lýðræðis.
Lokaorð.
Habermas hefur verið kallaður „heimspekingur stúdentauppreisnarinnar“, „samviska Sambandslýðveldisins þýska“, „heimsandinn Habermas“, „hugsuður Evrópu“ (af mér) o.s.frv. Þótt speki hans sé hreint ekki gallalaus er hann einn merkasti og áhrifamesti heimspekingur vorra daga.
Hann er hinn vitri öldungur Evrópu.
Athugasemdir