Gunnlaugur Jónsson og frjálshyggjan
Fyrir nokkrum árum skrifaði Gunnlaugur Jónsson mikla mærðarvellu um frjálshyggjuna. Hún væri miðju- og friðarstefna, einna helst í anda kristni og daóisma. En eins og ég mun reyna að sýna fram á fer Gunnlaugur villur vegar, hann skilur ekki að frjálshyggjan er dæmd til að grafa undan sjálfri sér. Ég mun reyna að sýna fram á að frjálshyggjan sé ekki efnahagsleg miðjustefnu, tæpast friðarstefna og vart í samræmi við kristna trú og daoískan sið.
Miðjustefna?
Gunnlaugur virðist ekki vita að stjórnmálafræðingar telja réttilega frjótt að tala um fleiri en einn vinstri/hægri ás í pólitík. Frjálshyggjumenn kunna að vera miðjusinnar í menningarefnum en ekki efnahagspóltiík. Samkvæmt venjulegum skilgreiningum á efnahagsstefnu er sú stefna lengst til vinstri sem vill sameign eða ríkiseign á efnahagslífinu, sú lengst til hægri sem vill sem mest markaðsfrelsi og sem umfangsmest einkaframtak. Fylgjendur blandaðs hagkerfi eru miðjumenn þegar efnahagsstefna er annars vegar, frjálshyggjumenn yst til hægri. Ef aðeins er litið á efnahagsstefnu er kenning Gunnlaugs um frjálshyggjuna sem miðstefnu einfaldlega röng. Meinið er að hann talar eins og sjálfsagt sé að gera ráð fyrir einum allsherjar vinstri/hægriási. En auðvitað er honum frjálst að skilgreina þessi hugtök með sínum hætti. Heiminn má hugtaka á ýmsan máta.
Reyndar hugtekur Gunnlaugur veröldina með sérstæðum hætti er hann segir frjálshyggjuna meðalveginn gullna milli boðahyggju og bannhyggju. Hann skilur ekki að frjálshyggjan hefur að forsendu að banna beri mönnum að brjóta gegn einkaeignarétti. Þetta kann að vera gott og réttlætanlegt bann en bann samt. Og bönn eru einskis virði nema hægt sé að beita þá valdi sem brjóta þau. Frjálshyggjan er því alls ekki andstæð ofbeldi þótt sú valdbeiting sem hún réttlætir sé kannski af hinu góða.
Ekki skortir boðendur meðal frjálshyggjumanna, má nefna Gunnlaug sjálfan, Ayn Rand, Milton Friedman og fleira stórmenni. Staðhæfing hans um frjálshyggju sem andstæðu jafnt boða- sem bannhyggju er því beint og milliliðalaust röng.
Friður og frjálshyggja
Nú skal sýnt hvers vegna ég tel rangt frjálshyggjan sé friðarstefna. En til að sýna fram á það verður að beita flókinni rökfærslu: Frjálshyggjan hefur að forsendu að markaðsfrelsi og einkaeign séu forsendur frelsis almennt, jafnframt því að vera helstu birtingarmyndir þess. Þetta leiðir að minni hyggju til ýmissra röklegra vandkvæða sem grafa undan frjálshyggjunni. Til að skilja það verðum við að vita að samkvæmt kenningum frjálshyggjumanna á borð við Milton Firedman ber fyrirtækjum að hámarka gróða, þau eigi ekki að stunda góðgerðarstarfi því allir tapi til langframa á því (Friedman 1962, sjá einnig Salvöru 2010: 93-111). Velta má fyrir sér hvort boð munu skekkjast á markaði ef margir gerendur á honum láta eiga sig að hámarka gróðan og stunda í þess stað kristileg kærleiksstörf. Hafi ég skilið frjálshyggjumenn rétt þá ógnar slík skekkjun markaðnum og þar með frelsinu eins og þeir skilja það. Þetta þýðir að forsenda frelsisins er sú að markaðsgerendur láti að jafnaði upplýsta eigingirna ráða gerðum sínum, ekki kristilegan kærleika. En það þýðir líka að markaðsfrelsi er stöðugt ógnað af markaðsgerendum: Upplýst eigingirni segir þeim að það að takmarka samkeppni sé oft, jafnvel alltaf, besta leiðin til að hámarka gróða. Þess vegna má ætla að all nokkuð stór hluti markaðsgerenda sé í því að takmarka samkeppni, oft með fulltingi ríkisins. Markaðskerfið er því dæmt til að vera óstöðugt.
Það sem meira er: Ef markaðsgerendur eru almennt eigingjarnir má ætla að sú staða getið komið upp að ríkir og voldugir markaðsgerendur hafi hag af styrjaldarekstri. Sem sagt: Forsenda frelsis í anda frjálshyggju er að markaðsgerendur séu almennt eigingjarnir en eigingirnin getur gert þá að frumkvöðlum stríðs. Þannig er frjálshyggjan engin trygging fyrir friðsemd hversu göfugar sem hugsjónir frjálshyggjumanna kunni að vera. Blaðakóngurinn William Randolph Hearst er sagður hafa borið mikla ábyrgð á stríði Bandaríkjamanna við Spánverja. Hann hafi séð sér hag í að æsa til stríðs þar eð blöð hans myndu seljast betur ef til átaka kæmi. Þetta var rétt fyrir aldamótin 1900 þegar Bandaríkin voru eins nálægt því að vera markaðsfrjáls eins og nokkurt samfélag getur orðið.
Kristni, daoismi og frjálshyggja
Hin upplýsta eigingirni er í engu samræmi við boðskap kristninnar, öðru nær. Kristur segir að til að verða «algjör» verði maður að selja eigur sínar, gefa fátækum og fylgja sér (Matteus 19: 31). Menn eigi sem sagt að láta samhyggju, ekki eigingirni stjórna gerðum sínum. Ef flestir menn hegðuðu sér þannig yrði markaðurinn ekki langlífur. Heldur ekki ef ríkisbubbar hyrfu, þeir gegna mikilvægu hlutverki sem fjárfestar á markaði. Þess utan skiptir möguleikinn á að verða ríkur miklu fyrir æði marga markaðsgerendur, er hvati þeirra gjörða.
En Kristur var lítt hrifinn af auðkýfingum «Sannlega segi ég yður: torvelt mun verða fyrir ríkan mann að ganga inn í himnaríki» (Matteus 19: 22). Margt í boðskap Krists er andsnúið auðsöfnun «Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu» (Matteus 6: 20). En án auðsöfnunar getur markaðurinn vart virkað. Frjálshyggjan er því lítt í samræmi við boðskap Krists.
Hvað með daoisma? Það er kannski aðeins auðveldara að finna frjálshyggjuþátt í Ferlinu og dyggðinni, meginverki daoismans, eignað Laozi. Á einum stað segir í íslenskri þýðingu «Best er sú stjórn sem fólk veit vart af“ (Laozi 2010: 67 (§ 17). Um leið mælir Laozi með athafnaleysi, passiviteti (t.d Laozi 2010: 37 (§ 2). En markaðurinn fær ekki þrifist ef menn eru almennt passivir, markaðurinn krefst athafnasamra og dugmikilla einstaklinga.
Frjálshyggjan og veröld fornaldar
Hvað sem því líður er vafasamt að kenna spekinga fornaldar (til dæmis Krist og Laozi) við nútíma stjórnmálastefnur, m.a. vegna þess að ríki og markaður voru afar ólík nútímaríki og –markaði. Að svo miklu leyti sem hægt er að tala um markaði til forna réðist verðmyndun oftast ekki af framboð og eftirspurn heldur hefð. Formóderni fólk er/var á valdi hefðanna. Hvað ríkið varðar þá höfðu ríki fornaldar ekki einkarétt á ofbeldi eins og nútímaríki hafa a.m.k. að nafninu til. Að auki voru hugmyndir um frjálshyggju eða sósíalisma fjarri hugsuðum fyrri tíma. Það má kannski finna alræðishneigð í samræðu Platons Ríkinu, hugsanlega vörn fyrir réttarríki í samræðu hans Lögunum. Svipað gildir um ýmsa kínverska spekinga.
Lokaorð
Engin ástæða er til að telja frjálshyggjuna miðju- og friðarstefnu sem sé í samræmi við boðskap kristni og daoisma. Upplýst eigingirni er burðarás markaðarins en um leið afl sem getur ógnað honum.
Gunnlaugur sér frjálshyggjuna í rósrauðu ljósi draumanna. Hann skilur ekki að „í draumi sérhvers manns er fall hans falið“.
Helstu heimildir utan nets:
Biblían. Reykjavík: Hið íslenzka Biblíufélag, 1957.
Milton Friedman (1962): Capitalism and Freedom. Chicago: Chicago University Press.
Laozi 2010: Ferlið og dygðin (þýðandi Ragnar Baldursson). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.
Salvör Nordal 2010: “Samfélagsleg ábyrgð í viðskiptalífinu”, í Kolbeinn Stefánsson (ritstjóri): Eilífðarvélin. Uppgjör við nýfrjálshyggju. Reykjavík: Háskólaútgáfan, bls. 93-111.
Athugasemdir