Að fyrirlíta veikleika
Norski heimspekingurinn Harald Ofstad hélt því fram að nasisminn hefði einkennst af fyrirlitningu á veikleika. Fyrirlitningu á þroskaheftum, geðveiku fólki og öllum sem voru öðruvísi en hinn þýski meðaljón. Fyrirlitningu á þeim sem eiga undir högg að sækja. Kannski geta menn ekki verið nasistar nema vera haldnir slíkri fyrirlitningu en vel gerlegt er að fyrirlíta minnimáttar án þess að vera nasisti.
Tranturinn á Trump
Ég held ekki að Donald Trump sé nasisti en lítill vafi er á því að hann lítur niður á alla þá sem hann telur minnimáttar. Í kosningabaráttunni hæddist hann að fötluðum blaðamanni, hann gerir grín að lágvöxnu fólki, sýnir kvenfyrirlitningu og hneigð til rasisma. Eða hvernig á að túlka ummæli hans um Haíti og Afríkuríki? Lönd sem hann kallar „skítaholur“ (hvað með hans eigin trant?). Hann mun hafa sagt eitthvað á þá leið að hann vildi helst ekki innflytjendur þaðan en gjarnan frá hinum hvíta Noregi. Lítum á Haítí, hvers vegna er landið örfátækt? Ýmsir fræðimenn telja að fátækt og eymd Haitíbúa megi að einhverju leyti rekja til skuldabyrða sem Frakkar lögðu á þá. Skömmu eftir að Haítí varð sjálfsstætt ríki neyddu Frakkar þá til að borga sér fyrir franskar plantekrur og var skuldin ekki að fullu greidd fyrr en 1922. Höfðu Haítíbúar orðið að borga mjög háa vexti af lánunum sem þeir tóku til að borga hina meintu skuld. Í ofan á lag hafi Vesturlönd sniðgengið landið lengi því þau hafi ekki þolað tilveru ríkis sem brotist hafði undan vestrænu nýlenduveldi. Norska blaðið Aftenposten bendir á að Noregur hafi verið hálfgildings skítahola á þeim árum þegar norskir innlfyltjendur streymdu vestur um haf. Norskir innflytjendur hafi ekki plummað sig vel í Bandaríkjunum til að byrja með. Meðaltekjur þeirra hafi um 1880 verið lægri en meðaltekjur danskra, sænskra og rússneskra innflytjenda. En afkomendur þeirra tóku á sig rögg og hafa klárað sig betur en flestir. Hví skyldi það sama ekki geta gerst með innflytjendur frá löndunum sem Trump fyrirlítur? Einhvers staðar las ég að innflytjendur frá Afríku bæru meira úr býtum en meðal-Kani. Enda innflytjendur oft harðduglegir og metnaðargjarnir.
Engar líkur eru á að Trump þekki sögu Haítí eða tölur um tekjur innflytjenda frá Afríku. Fremur en annað. Reyndar fyrirlítur Trump ekki bara veikleika heldur veruleikann, honum er slétt sama um staðreyndir.
Viðars þáttur Guðjohnsens
Um Viðar Guðjohnsen veit ég lítið annað en það sem Stundin hefur nýlega skrifað. Hann er sagður vilja hætta öllum opinberum stuðningi við eiturlyfjaneytendur. Þeir hafi kosið þennan lífsstíl sjálfir og eigi að taka afleiðingunum. Til sé fólk sem hamist við að vera veikt en heilbrigðiskerfið eigi ekki að sinna því. Heldur ekki offeitu fólki, það geti sjálfu sér um kennt. Duglegi píparinn og smiðurinn eigi ekki að þurfa að borga fyrir dópista og slíkt fólk. „Kristilega kærleiksblóminn spretta, kringum hitt og þetta“. Lítum á staðhæfinguna um fituhjassar hljóti að bera ábyrgð á eigin spiki. Rannsóknir benda til þess að tilhneiging til offitu sé að allverulegu leyti meðfædd. Tæpast hafa þeir offeitu kosið sín eigin gen og geta því ekki talist algerlega ábyrgir fyrir offitu sinni, gagnstætt því sem Viðar heldur. Hvað með eiturlyfjaneytendur? Samkvæmt rannsóknum, sem bandaríska sálfræðifélagið telur marktækar, er hægt að rekja helming hneigðarinnar til eiturlyfjahæðis til erfðavísa. Hneigðin er sem sagð að hálfu leyti meðfædd. Við má bæta að eiturlyfjaneytendur alast oft upp við ömurlegar aðstæðar og/eða verða fyrir áföllum í bernsku.
Ekki bætir úr skák að sum eiturlyf, t.d. morfín og heróín, geta verið hæðisskapandi. Dópfaraldurinn vestanhafs er sagður að miklu leyti stafa af því að læknar dæli "opioidum" í sjúklinga sem verði háðir dópi fyrir vikið.
Þess utan leita margir geðsjúklingar á náðir eiturlyfja og áfengis. Vinkona mín fékk alvarlegan geðsjúkdómi sem lýsti sér í því að hún heyrði stöðugt raddir sem atyrtu hana. Hún tók að drekka einhver lifandis býsn til þess að deyfa sig svo mjög að raddirnar hættu að angra hana. En þegar hún fékk geðlyf sem tempruðu raddirnar steinhætti hún að misnota áfengi. Hún sagði að velflestir þeir sem þjakaðir væru af geðveiki notuðu áfengi eða dóp sem flóttaleið frá hörmungum. Af þessu má sjá að það er hrein firra að halda að dópistar velji þennan lífsstíl.
Viðar virðist halda að tekjur duglega fólksins séu alfarið skapaðar af þeim. En þetta er gömul frjálshyggjudella. Allar tekjur okkar og eigur eiga sér a.m.k. einhverjar rætur í starfi milljóna manna í samtíð og fortíð, ekki síst starfi uppfinningamanna sem skapað hafa þau tól sem píparinn og smiðurinn nota. Tekjur okkar og eigur eiga sér líka rætur í hagkvæmu efnahagsskipulagi, alþjóðaviðskiptum o.s.frv. Ef duglegi maðurinn hefði ekki verið svo heppinn að búa í samfélagi sem gerir honum kleyft að læra iðn, reka eigið fyrirtæki o.s.frv. þá væri hann ansi miklu fátækari en raun ber vitni. Samfélag og samvinna manna eiga drjúgan þátt í tekjuöflun okkar, því er ekkert gegn því að við borgum samfélaginu fyrir þennan greiða, t.d. með því að borga skatta. Jafnvel þótt skattféð komi dópistum til góða.
Vilji Viðar létta skattbyrðinni af duglega fólkinu væri honum sæmra að berjast fyrir því að orkufyrirtæki og sjávarútvegurinn borguðu meira til samneyslunnar.
Lokaorð
Hugsandi menn afgreiða ekki heilu löndin og heimsálfurnar sem skítaholur án þess að kynna sér sögu þeirra. Þeir slá heldur ekki um sig með staðhæfingum um dópista og offitu án þess að kynna sér rannsóknir. Siðaðir menn fyrirlíta ekki veikburða fólk heldur rétta þeim hjálparhönd.
Athugasemdir