Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Úthlutarinn

Það var síðla kvölds og ég á leið í háttinn þegar ég úthlutaði óvart fjórum tonnum af grásleppukvóta til bróður míns. Það hafði ekki verið meiningin en ég var nýbúinn að bursta tennurnar og spýta í vaskinn þegar ég áttaði mig á því að á leiðinni úr stofunni inn á baðherbergið hafði ég alveg óvart úthlutað grásleppunum, eins og getur komið fyrir hvern sem er í raun.

Daginn eftir þegar ég var á leiðinni í vinnuna og hlustaði á útvarpið í bílnum, á flakki milli rásar tvö og bylgjunnar úthlutaði ég restinni af makrílkvóta landsins til frænda míns, skólabróður og guðföður barna minna. Að sjálfsögðu yppti ég bara öxlum. Ísland er svo lítið land.

Í kaffihlénu spurði samstarfsfélagi minn mig hvort ég hefði séð 40 tonn af þorskveiðikvóta einhvers staðar. Ég sagði eins og var að ég hefði úthlutað því um daginn til systursonar míns, og við hlógum báðir.

Í hádegishlénu var selt mjög arðbært kortafyrirtæki til föður míns og föðurbróður úr þrotabúi gamla Landsbankans. Og kunningi minn sem stundum gaukar að mér nokkur hundruð þúsund krónum árlega fékk hugbúnaðarfyrirtæki sem ríkið hefur stutt í gegnum tíðina með nýsköpunarstyrkjum og þjónustusamningum.

Hefurðu nokkuð séð peninginn sem við áttum að fá fyrir Landssímann spurði ein samstarfskona mín mig. Við áttum að setja hann í samgöngur og rekstur á landspítala skilst mér, bætti hún við.

Ég sagðist ekki vera viss. Það gæti verið að við fengum aldrei þennan pening, sagði ég, og fékk mér rjúkandi heitan kaffibolla.

Viltu kaffi?

Hún þáði með smá rjóma. Það er þægilegra að vera í vinnunni þegar allir hjálpast að.

Eftir kaffisopann teygði ég úr mér og úthlutaði smá humarkvóta, smá laxeldisleyfum, einni virkjun til amerísks fyrirtækis sem stundum árlega gaukar að mér og vinunum nokkur hundruð þúsund krónum, og spáði svo sem ekkert meira út í það.

Á leiðinni í leikskólann að sækja krakkana úthlutaði ég syni mínum nokkrum tonnum af kvóta, en ég get ekki einu sinni munað hvers konar kvóta.

Við vinnufélagarnir hittumst svo á barnum um kvöldið og spjölluðum við afríska stjórnmálamenn.

Okkar maður, sögðu félagar mínir og mútuðu stjórnmálamönnunum með nokkrum milljörðum.

Það er víst lenska þar. Spáði ekki mikið meira í það.

En svo daginn eftir þegar ég kom í vinnuna voru mættir 4700 manns að mótmæla mér á Austurvelli.

Ég lét það auðvitað ekkert á mig fá. Yfirmaður minn sagðist vona til að það skapist traust um mig og ég treysti mér allavega vel í öll störf. Seinna um daginn heyrði ég í vini mínum.

Hvernig líður þér? spurði ég.

Bara ágætlega, sagði hann. Þetta gengur yfir.

Þetta hvað? spurði ég og hristi svo höfuðið. Já, það, já það. Auðvitað.

Símtalinu var ekki fyrr lokið fyrr en ég áttaði mig á því að ég hafði úthlutað nærri öllum náttúruauðlindum, fiski, vatnsfallsorku, nýtingarrétti á jarðvarma, námuréttindi og laxveiðileyfi, olíuleitarleyfi, skógrækt, fjármálafyrirtækjum landsins og fleira, fleira dóti til félaga míns.

Ísland er svo lítið land. Og vinur minn framtakssamur maður. Ég var ekki fyrr kominn í háttinn þegar kona mín sagði mér að hann væri búinn að kaupa allar matvörubúðir, ferðaþjónustufyrirtæki, hótel og raftækjaverslanir fyrir það sem ég hefði gefið honum.

Og að hann væri hvergi nærri hættur og hygðist kaupa alla fjölmiðla, stjórnmálaflokka og félagasamtök með rest.

Góða nótt, sagði ég og brosti til hennar.

Og síðan svaf ég ósköp vel.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu