Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Umræðan (fólk er fífl)

1.

Almenningur hefur aldrei verið jafn upplýstur og hann er nú. Ég er ekki að segja að við búum í neinni útópíu, ég er bara að benda á staðreynd. Menntunarstigið á Íslandi hefur aldrei verið jafn hátt. Aðgengi að upplýsingum aldrei jafn mikið.

2.

Ég er núna að skrifa pistil á tölvu. Hann verður núna kominn á netið eftir fimm mínútur þegar ég klára að lesa hann yfir, og þið vitið hvað ég er að hugsa, getið kommentað, lækað, deilt eða bara hrist höfuðið og lesið eitthvað annað.

En þessi hugsun og allar þessar hugsanir sem þið lesið á meðan þið drekkið morgunkaffið eða laumist til að kíkja á vinnunni, skólanum eða bara í símanum á klósettinu, komust út í heiminn með nánast engri áreynslu. Þetta þurfti ekki að fara í pósti eða á prent. Skoðanaskipti geta átt sér stað samstundis milli heimsálfa, og það er ekki hæfileiki sem einu sinni er takmarkaður. Allir geta gert þetta.

 

Með þessar tvær staðreyndir í huga er gott að velta fyrir sér hinu baneitraða orði „umræðan.“

Ég hef heyrt marga pólitíkusa, forstjóra, fjölmiðla og svo líka bara venjulegt fólk hreyta úr sér orðinu líkt og það meinti: „öfuguggi, barnaníðingur, ofbeldismaður.“

Virkir í athugasemdum, kommentakerfi, umræðan, þessi þrjú orð verða að blótsyrðum í munni einstaka aðila.

Þessi meinleysislegu orð. Ekki að besserwisserar á kommentakerfum geti ekki verið vitlausir, eða að virkir í athugasemdum geti ekki skrifað nastý þrugl. Jújú. En samt finnst  mér það ekki vandamál frekar en að það sé vandamál að í dag skuli fólk hittast á kaffihúsum úti um allan bæ, í heita pottum, inn á skrifstofu, út í búð eða fyrir framan sjónvarpið í stofunni. Að allt þetta „virka“ fólk skuli hittast og skiptast á meiningum, skoðunum, og alls kyns bulli.

Bulli og staðreyndum. Sannleika og kjaftæði. Sögum, orðrómum og fréttum.

Umræðan er ekkert verri en áður. Umræðan er ekkert öfgafull. Nema allt samfélagið sé öfgafullt. (Það má vel vera).

Kommentakerfi er ekkert verra en hvaða önnur tegund af skoðanaskiptum sem er. Þeir sem kommenta hjá mér eru ekki verri en þeir sem skiptust á skoðunum með því að skrifa bréf á sautjándu öld. Og þó að við séum komin með málfrelsi í dag og getum skrifað allan þann andskota sem við viljum þá þýðir það ekki að við séum búin að missa umræðuna úr böndunum. 

Nei.

Fólk er auðvitað fífl. Ég hef enga trú á því að aukin þátttaka almennings sé töfralausn. Þvert á móti held ég að lýðræði muni á endanum drepa okkur öll líkt og það rústaði borgríkinu Aþenu fyrir tveimur þúsöldum síðan. Hvort lýðræði drepi okkur hægar eða hraðar en menntað einveldi, eða ómenntað einveldi, má alveg ræða . . . 

En umræðan er fín. 

Ef einhver er að láta umræðuna fara í taugarnar á sér spurðu viðkomandi hvort hann sé á móti fólki eða skoðanaskiptum. Kannski er viðkomandi bara á móti fólki sem er ósammála honum. Eða saknar þess tíma þegar helvítis alþýðan fékk ekki að tjá sig eins og henni sýndist.

Auðvitað er viss söknuður fyrir þeim tíma þegar fólk þurfti að notast við sléttubönd til að gagnrýna opinbera starfsmenn. Kannski var umræðan betri þá. Eða kannski er fólk sem kallar eftir betri umræðuhefð í raun bara að kalla eftir þögn? En umræðan finnur sér alltaf leið líkt og sléttuböndin, a.m.k. þangað til lýðræðið drepur okkur öll, hafið súrnar, jöklar bráðna, kapítalisminn hrynur og risaeðlurnar snúa aftur (erfðabreyttar í boði Monsanto). Þá munu rotturnar og kakkalakkarnir byggja nýja siðmenningu og höfuðkúpur okkar sem innihéldu gagnslausar skoðanir verða að fínustu híbýlum í sótsvartri og geislavirkri eyðimörk síð-anthropocene-tímabilsins.
 

Grundar dóma, hvergi hann

hallar réttu máli.

Stundar sóma, aldrei ann

illu pretta táli.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni