Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Þríagnavandi Cixin Liu

Þríagnavandi Cixin Liu

Þríagnavandinn, eða „The three body problem“ eins og hún heitir í þýðingu Ken Liu er all sérstæð bók. Ekki fyrir þær sakir að hún sé kínversk vísindaskáldsaga (þeir eru nefnilega mjög margar) heldur af því hún er kínversk vísindaskáldsaga sem hefur verið þýdd á ensku það vel að hún Hugo verðlaunin í fyrra sem besta skáldsaga ársins 2015. (Kom út upprunalega í Kína 2006, og er enn býsna fersk).

Bókin er frumleg og líkt og góð vísindaskáldsaga spyr hún óþægilegra spurninga.

Í upphafi kynnumst við Ye Wenjie, ungri stúlku og nemanda í stjarneðlisfræði. Hún verður vitni af því þegar faðir hennar í sýni-réttarhöldum er barin til bana af róttækum nemendum þegar hann neitar að viðurkenna að afstæðiskenning Einsteins og skammtafræði séu andbyltingar-sinnaðar og íhaldsamar í eðli sínu. Til að toppa allt vitnar eiginkona hans og móðir Ye á móti manni sínum til að bjarga eigin skinni, en Ye Wenjie neitar að afneita vestrænni vísindahyggju og er send í endurmenntun. Hún glatar allri trú á mannkyninu, útskúfuð og einangruð í vinnuþrælkun á meðal skógarhöggsmanna, en reynir að viðhalda trú sinni á vísindin.

Að lokum eftir að komast í eintak af kínverskri þýðingu á hinni forboðnu bók „The silent spring“ kemst hún að þeirri niðurstöðu að mannkynið verðskuldi ekki þá plánetu sem hún ræður yfir. Að mannkynið verðskuldi ekki tilvist sína.

Þetta er hin stóra grundvallarspurning bókarinnar, hvaða rétt á mannkynið á að haga sér þannig að aðrar dýrategundir deyi út. Síðar í bókinni kynnumst við bandaríska auðkýfingnum Mike Evans sem heimsækir Kína á níunda áratugnum og reynir að nýta þá auðlegð sem hann erfði frá föður sínum (olíubarón með umhverfisslys á samviskunni) til að bjarga skógum í austurhluta Kína og um leið einstakri svölutegund.

Þegar Ye og Mike hittast mynda þau ólíklegt bandalag sem reynist hafa djúpstæð áhrif á sögu mannkynsins, en til að segja ekki meira um plott bókarinnar, sem er hálfgjör sakamálatryllir með eðlisfræðilegum og stærðfræðilegum tilvísunum verð ég að þegja um nákvæmlega hvað fer þeim á milli.

Áratugum síðar fær lögreglan í Beijing nanótækni-fræðinginn Wang Miao til að reyna að komast að hvað valdi skyndilegri sjálfsmorðshrinu á meðal helstu vísindamanna í Kína og á heimsvísu. Hvers vegna fólk fyllist óbærilegu vonleysi um að skilja nokkurn tímann stærstu ráðgátur heimsins. (Að því leytinu til er bókin ekki bara sakamálasaga heldur líka nokkurs konar kosmískur hryllingur, ekki í anda Lovecraft eða innan þeirrar hefðar á nokkurn máta, nálgun Cixin Liu er allt önnur, en manni er óhjákvæmilega hugsað til smæðar mannsins og hversu langt hann eigi í að skilja eðli heimsins).

Mér var einnig óhjákvæmilega hugsað til Öreiganna eftir Ursulu Le Guin í fyrstu köflum bókarinnar, enda er aðalsöguhetjan Shevek í þeirri stöðu að aðrir meðlimir samfélagsins sjá engan tilgang í vangaveltum hans um tíma og rúm. Byltingin þarf verkamenn en ekki hugsuði, og er sérlega fjandsamleg kenningum án praktísks notagildis, en heimur Ye Wenjie er þó öllu fjandsamlegri. (Svo eru líka mun myrkari ályktanir dregnar af hugsanlegu sambandi við framandi heima).

Þríagnavandinn fellur í þann flokk vísindasagna sem núna birtast úti um allan heim og sjá fyrir sér sjálfsköpuð endalok mannkynsins. Enda er rétt sem Chris Evans bendir á, síðan undir lok Krítartímans hafa ekki jafnmargar tegundir dáið út á jafnstuttum tíma. Það er ekki skrítið að það sem kínverskir vísindaskáldsagnahöfundar skrifa sé álíka svartsýnt og það sem bandarískir höfundar líkt og Paolo Bacigalupi eða finnskir höfundar eins og Johanna Sinisalo. Er einhver bókmenntagrein að fást við stærstu ógnina sem blasir við mannkyninu önnur en vísindaskáldsagan? 

Eitt af því sem lestur bókarinnar minnti mig á var að ég er ekki nærri því nógu vel að mér í sögu Kína, né kínverskrar heimspeki eða stjórnmála, en það verður vafalaust mikilvægt að setja sig nánar í þau mál til að skilja umheiminn á þessari öld. Vísindaskáldskapur í Kína er víst blómstrandi um þessar mundir þrátt fyrir að hafa mætt andstöðu á vissum tímabilum í sögu landsins. Í byrjun 20. aldar var Jules Verne þýddur ásamt fleiri tækniheilluðum höfundum og fyrir menningarbyltinguna voru vísindasögur með pólitískri slagsíðu og líka spennusögur með vísindalegum undirtón gefnar út. Eftir menningarbyltinguna var reynt að vekja upp útgáfu á vísindaskáldskap (sem naut velvilja frá kommúnistaflokkinum að undanskildu stuttu bakslagi 1983 þegar íhaldsöfl börðust í örfáa mánuði gegn vestrænum hugmyndastraumum).

Hver einasta þjóð býr á endanum til sína eigin vísindasagna-hefð, og það var frískandi að sjá Bandaríkjamennina jaðarsetta svona einu sinni og sjá nána framtíð þar sem hetjurnar voru með allt önnur nöfn og skoðanir. Ég er ekki sannfærður um að vísindaskáldskapur sé sérlega ókínverskur, og það er sér í lagi athyglisvert að fyrsta alþjóðlega ráðstefnan sem haldin var í Kína eftir mótmælin við Tianamen torg 1989 var ráðstefna um vísindaskáldskap.

En að því sögðu, þá er Þríagnavandinn sakamálatryllir með eðlisfræðilegum, heimspekilegum og stærðfræðilegum vangaveltum vel þess virði að lesa. Á köflum lofgjörð til vísinda og gagnrýninnar hugsunar, og áfellisdómur yfir mannkyninu og sér í lagi trú, pólitík og eigingirni. Bókin er hluti af þríleik (og síðasta bókin verður þýdd í haust) en stendur sterk eins og sér með vangaveltum sínum um sýndarveruleika og eina af stóru ráðgátum þyngdaraflsins.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni