Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Heimsókn í KUMU

Heimsókn í KUMU

Þetta er býsna skemmtileg mynd eftir eistneska málarann Johann Köler frá lokum nítjándu aldar sem sýnir hvernig munkar eru að hrekja burtu vatna-andann Lorelei. Myndefnið er sótt í þjóðsögu sem lýsir því hvernig hin gömlu goð voru hrakin brott af trúboðum sem með kirkjulegri blessun hreinsuðu landið. Eistar sýndu reyndar kristninni býsna lengi viðnám, alveg fram á síðmiðaldir og það eimir enn af hinni gömlu trú í þjóðsögunum sem safnaðar voru á nítjándu öld. Köler er bersýnilega ekki með samúðina hjá trúboðunum, eldurinn logandi í reykelsislömpum þeirra kallast á við hefðbundna litanotkun þegar eldri málarar reyndu að sýna helvíti. Trúboðarnir færa vítisvist, en gamla vatnagyðjan er nánast eins og engill.

Myndin er býsna stór. 

Hér má sjá mig í samanburði en ég skoðaði verkið í KUMU, listasafni Eistlands í Tallinn.

Á annarri hæð voru býsna mörg skemmtileg verk frá sautjándu fram á nítjándu öld. Þegar við komum þangað var að vísu einhver undarleg blanda af maraþoni og ratleik í gangi. Fullorðið fólk í íþróttabúning hljóp með kort í fanginu og reyndi að fylgja leiðbeiningum eftir megni, og lesa á harðaspretti. Þetta reyndist vera heimsmeistaramótið í „Orienteering“ sagði einn starfsmaður listasafnsins, en ratleikurinn náði alla leið þangað inn með hlaupabraut í gegnum jarðhæðina.

Á efri hæðunum voru þó það sem við komum til að sjá. Eistnesk list á Sovéttímanum, snemm-internetlist (mjög flott yfirlitssýning á rafrænni 90s list) og nýkeypt safneign. Það var magnað að kynnast eistnesku hippahreyfingunni, og þeirri staðreynd að „happenings“ (gjörningar en þó ekki) áttu sér líka stað hér líkt og í Bandaríkjunum nokkrum árum áður. Fólk safnaði síðu hári, hlustaði á ólöglegar útvarpsbylgjur frá Finnlandi og einhvern veginn komust listamenn á snoðir um það nýjasta sem var að gerast í samtímalist.

Við lok Stalín-tímans voru ýmsir sendir í fangabúðir fyrir óhlutbundna list og abstraktverk, en upp úr sjötta áratugnum leiddu auknar vísindaframfarir til þess að hægt var að sýna abstraktverk (svo lengi sem þau voru dulbúin með vísindalegum nöfnum.

Fyrir verk í þessum anda fór Ulo Sooster í fangabúðir. Hann hélt þó áfram að mála leynilega og stofnaði til neðanjarðar-listamannahreyfinga.

Ilmar Malin gerði þetta verk rúmum áratug eftir að Ulo fór í fangabúðir. Hún er gerð í Úsbekistan en sovéskir listamenn voru oft sendir í vináttuferðir til annarra sovétlýðvelda til að styrkja tengsl þeirra. Myndin er af sólsetri, en nýlegar uppgötvanir á sviði stjarneðlisfræði ásamt geimferðalögum Sovétmanna gerðu slíkt myndefni ásættanlegt þrátt fyrir að Malin væri mikill súrrealisti.

Það eru mávar víða.

Og svona lítur safnið út.

Einn af keppendunum í Orienteering í Kadriorg garði (garðinum sem umlykur KUMU)

Alltaf fyndið þegar leikjatölvur eru notaðar til að skapa list sem er ekki interactive. (Frekar leim).

Mynd af mynd af mynd af mynd. Mynd af mynd eftir Kristina Hansen og Johannes Sari.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni