Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Viljum við skaða flóttabörn?

Viljum við skaða flóttabörn?

Góðvild er þjóðgildi Nýsjálendinga sagði Jacinda Arden forsætisráðherra. Einfalt og hnitmiðað þótt íhaldssamir bölsýnismenn kalli það óraunsæja draumóra. 

Oft er spurt: Hvernig verðum við hamingjusöm? Svarið er viðamikið en þó er vitað að: Enginn verður hamingjusamur með því að hugsa einungis um sjálfan sig – heldur með því að gefa af sjálfum sér, gefa öðrum og sýna þeim góðvild.

Það er alls ekki sjálfselskan sem gerir fólk hamingjusamt heldur góðvildin.

Góðvild þarf á hjörtum að halda sem eru opin. Lokað hjarta tekur ekki við og er oft steinrunnið. Slík hjörtu hafna nýjum upplýsingum og vilja helst engu breyta. Þau vilja bíða og fresta og vona að allt lagist af sjálfu sér. 

Hjörtu þeirra sem óttast að brjóta reglu til að leyfa réttlætinu fram að ganga, eru harðlokuð. Lokuð hjörtu eru hálfvolg í afstöðu. Andspænis réttlæti brjóta hin hálfvolgu ekki regluna, sem þau settu sjálf, heldur finnst þeim betra að skýla sér á bak við hana, jafnvel þótt afleiðingin valdi óréttlæti og þjáningu, eins og til dæmis þegar börn flóttafólks fá ekki að njóta vafans – vegna reglunnar.  

Við getum auðveldlega bjargað saklausum börnum úr hættu, við þurfum ekki einu sinn að brjóta eða breyta reglum heldur aðeins að breyta sjónarhorni: „Rauði krossinn hefur ítrekað bent á að eðlilegast sé að líta til heildardvalartíma umsækjenda þegar tímafrestir málsmeðferðar eru skoðaðir.“ 

Egypsk fjölskylda sem hefur dvalið hér í tvö ár fékk neitun frá Útlendingastofnun um alþjóðlega vernd  og verður bráðlega send úr landi. Börnin Abdalla, Rewida, Hamza og Mustafa komu til Íslands þann 7. ágúst 2018 ásamt foreldrum sínum Doaa og Ibrahim. Yngsta barnið var hálfs árs þegar það kom hingað. Fjölskyldufaðirinn óttast um líf sitt verði hann sendur til baka en hann hefur lýst ofsóknum á hendur sér vegna stjórnmálaskoðanna sinna.

Er ætlunin að efla umhyggju í landinu?

Viljum við valda þessari fjölskyldu skaða eða viljum við leggjast á sveif með hamingju hennar? Viljum við sýna mildi eða bæta í hörkuna? Viljum við efla umburðarlyndi eða skeytingarleysi? Ætlum við að styrkja umhyggju í samfélaginu eða sjálfselsku? 

„Láttu núna reyna á mátt mildinnar,“ ráðlagi Livia Drusilla á sínum tíma þegar Ágústus (f. 63 f.Kr) keisari og maðurinn hennar, ætlaði að beita hörkunni enn á ný. Það reyndist mjög vel og bætti líðan allra.

Ég er sannfærður um að harka og miskunnarleysi í þessum málaflokki, skaði ekki aðeins þessar barnafjölskyldur sem bíða milli vonar og ótta heldur einnig þjóðina alla sem vísar þeim að ósekju og saklausum frá sér. Það er ekki góð aðferð til að efla hamingjuna. 

Góðvild gagnvart þessari fjölskyldu er ekki flókin aðgerð. Við þurfum aðeins að gera það sem okkur er innrætt og við viljum kenna börnum: að rétta öðrum hjálparhönd. 

Tengill

Skrifa undir áskorun um að heimila fjölskyldinni að vera hér áfram

Mannúð - Kolbrún Bergþórsdóttir

Hver er afstaða barnamálaráðherra - Þorbjörg Sigríður

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni