Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Að raska óbyggðu víðerni

Að raska óbyggðu víðerni

Sumarið 2018 birti ég greinina Að raska ósnertum verðmætum. Núna sumarið 2021 kemur næsti kafli í sama anda sem nefnist Að raska óbyggðu víðerni. Tilefnið er meðal annars Óbyggðaskráning á vegum innlendra náttúruverndarsamtaka í samstarfi við breska vísindamenn sem beita alþjóðlegri aðferð við kortlagningu víðerna. Spurt er um þátt kærleikans við að eignast trúnað og vináttu lands.

Víðerni

VÍÐERNI Hk, mikil víðátta, rýmd, vídd. „Óbyggt víðerni:Svæði í óbyggðum, að jafnaði a.m.k. 25 km² að stærð og í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og uppbyggðum vegum“(Lög um náttúruvernd).

Víðerni er opinn breiður faðmur lands og himins. Víðerni er svæði þar sem við getum upplifað fegurð sem er engri annarri lík. Upplifun sem hjálpar til við að skilja okkur sjálf.

Eftir að hafa orðið uppnuminn sökum mikilfengleika í víðerni langar okkur til að deila reynslunni með öðrum og til að vernda svæðið. Víðerni er ekki aðeins landslag, ekki aðeins staður heldur svæði sem býr yfir tilteknum eiginleikum sem hafa gildi á eigin forsendum og einnig út frá ýmsum sjónarhornum.

Reynsla sem á sér stað í víðerni styrkir óbeint viljann til að skapa samfélag fólks sem ber virðingu fyrir náttúrunni. Við rennum saman við víðáttuna og verðum eitt með henni, hugur og líkami verða einasta eitt og fyllast aðdáun og væntumþykju. Í uppljómun í viðerni finnum við fyrir hinu óræða og ósegjanlega.

Eitt sinn voru óbyggð víðerni svo sjálfsögð að þau voru ekki nefnd á nafn. Núna eru þau svo fágæt að Ísland hefur öðlast mikilvægt hlutverk gagnvart þeim og ábyrgð til að vernda þau. Við höfum fengið þessa gjöf og eigum að gæta hennar og standa vörð um óbyggð víðerni landsins. Íslendingar eru m.ö.o. vörslumenn um 42% af allra villtustu víðernum Evrópu.

Form, útlit og stærð víðerna skiptir máli en lifandi tengsl okkar við þau, upplifun og reynsla breytir okkur. Tengslin mynda umhyggju og löngun til að vernda. Ekki til að stjórna eða breyta þeim. Verkefnið er að opna sig gagnvart þeim og þá opinberast kærleikurinn.

Færum næstu kynslóð þetta víðerni óskert,
það er falleg gjöf.

Komandi kynslóð getur ekki öðlast þá friðsemd sem til þarf nema hafa tækifæri til að dvelja í óbyggðu víðerni og öðlast ótruflaða reynslu. Rask yrði aftur á móti brot á trúnaði við svæðið og skemmd á óumræðanlegum verðmætum.

Lífríkið og vistkerfið á skilið ótakmarkaða lotningu mannverunnar sem hefur því miður ekki enn áttað sig á því til fulls.

Opnið hugann! Lokið augum og eyrum og nemið óminn.

Kærleikur

KÆRLEIKUR Kk, ást, heit vinátta, vera í kærleikum við e-n. Einn góðan veðurdag í forsögu manneskjunnar birtist kærleikurinn og breytti hjartalagi fólks. Hann er m.a. löngun til að vernda og rétta hjálparhönd.

„Allt fólk er systkin mín og allar verur förunautar. Sýnið þeim samlíðun,“ er haft eftir Laozi (Ferlið og dygðin). Samlíðun vex þegar við skiljum tengslin á milli alls sem er; lífverur, land, víðerni. Kærleikurinn er andinn í verkinu.

Tengslin sem myndast við víðerni opnar okkur og við sjáum náttúruna eins og hún er: ómenguð og fögur. Tengslin ölva manneskjuna og vekja henni þrá til að njóta, fá að dást að og vernda. Við nemum friðhelgina, ósnortinn griðarstað, friðsemd sem ekki skal raska.

Ég veit ekki hvaðan kærleikurinn kemur og hvort það er eitthvað sem opnar okkur gagnvart náttúrunni eða leyndardómnum eða á einhvern annan veg. Eitthvað óumræðanlegt er þó að verki á milli þeirra og þegar við upplifum þetta þá finnum við samlíðun og vilja til að skynja hlutina eins og þeir eru. Öðlast trúnað og vináttu við landið.

Ef við ræktum kærleikann þá vex viljinn til að vernda – það er leyndardómurinn.

Rask

RASK – s HK 1. umrót, það að e-ð er úr lagi fært > jarðrask/verða fyrir raski, 2. truflun, ónæði.

Rask er ekki aðeins rask [umrót] á jarðvegi, dal, á, landslagi. Rask er skemmd, truflun á fegurð og jafnvægi, eyðilegging á griðlandi jurta, fiska, dýra, samveru, gleðistundum, virðingu og aðdáun. Á Íslandi eru jafnvel ennþá til ónefnd og óvirkjuð svæði og fossar. Það eru verðmæti ofar öllum böndum og útreikningum. Gætum þeirra.

Friðlýsing

FRIÐLÝSA s, 2 banna að hreyfa við e-u / friðlýsa land, gera land að friðlandi eða náttúruvætti.

Allt rask er alvarlegt, því það skapar ójafnvægi, færir eitthvað úr lagi, eitthvað fer úrskeiðis. Friðlýsa má sem óbyggð víðerni: stór landsvæði þar sem ummerkja mannsins gætir lítið sem ekkert og náttúran fær að þróast án álags af mannlegum umsvifum.

Niðurstaða

Ræktum kærleikann, kortleggjum óbyggð víðerni og friðlýsum þau.

Tenglar

Óbyggðakortlagning

Að raska ósnertum verðmætum (2018)

Ljósmyndir/Gunnar Hersveinn

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni