Það hreyfði við fólki þegar það sá sérsveit lögreglunnar bera skotvopn með sýnilegum hætti við löggæslu í tengslum við Litahlaupið um síðustu helgi. Þetta hafði ekki gerst áður og var óumdeilanlega eðlisbreyting á löggæslu við fjöldasamkomur á Íslandi. Þetta vakti því eðlilega upp spurningar hjá almenningi, fjölmiðlum og stjórnmálamönnum.
Eðlilegar spurningar
Menn veltu fyrir sér hvað það væri sem kallaði á þessa stefnubreytingu. Hafði lögreglan upplýsingar um að hryðjuverkaárás væri yfirvofandi, hafði viðbúnaðarstig verið hækkað vegna þessa? Nei, samkvæmt Ríkislögreglustjóra var ekkert slíkt til staðar. Uppgefin ástæða voru nýleg hryðjuverk í Bretlandi. Hræðilegar árásir sem gerðar hafa verið á almenning í Evrópu á undanförnum árum, svo sem í Frakklandi, Svíþjóð, Noregi og Belgíu, höfðu þó ekki kallað á sambærilegar ráðstafanir.
Skýringarnar sem komu frá Ríkislögreglustjóra voru því ekki fullnægjandi. Flestir hefðu sýnt skotvopnaburði sérsveitarmanna í Litahlaupinu meiri skilning ef hann hefði verið tilkominn vegna hækkaðs viðbúnaðarstigs og ef lögreglan hefði svarað því til að upplýsingar bentu til þess að um yfirvofandi ógn væri að ræða. Þar sem hún gerði það ekki er óumdeilt að um skýra eðlisbreytingu á löggæslu var að ræða miðað við hvernig áður hefur verið brugðist við í sams konar aðstæðum, það er að segja í kjölfar hryðjuverka í Evrópu undanfarin ár.
Skotvopnalaus lögregla eru forréttindi
Ég hef sjálf látið mig málið varða enda finnst mér þessi breyting óheillaskref. Tvær lykilspurningar finnast mér vera í málinu. Sú fyrsta er hvort það sé eðlilegt að löggæslufólkið okkar beri skotvopn í auknum mæli við almenn störf og hin er sú hvort rétt sé að vopnuð sérsveit skuli sinna almennri löggæslu á fjöldasamkomum.
Sem betur fer búum við í landi þar sem almenn sátt hefur að mestu ríkt um störf lögreglunnar og hún nýtur virðingar sem gerir starf hennar auðveldara. Þetta hefur gert það að verkum að hún hefur ekki þurft á skotvopnum að halda í sínum störfum. Það eru því miður forréttindi sem alltof fáir íbúar þessa heims búa við. Mér finnst mikilvægt að svo verði áfram. Í því felst ekki vantraust á lögregluna heldur þvert á móti traust til lögreglunnar um hæfni hennar til þess að leysa vandamál án þess að nota banvæn vopn.
„Enn hef ég ekki heyrt fullnægjandi rök fyrir því að íslensk lögregla beri skotvopn.“
Enn hef ég ekki heyrt fullnægjandi rök fyrir því að íslensk lögregla beri skotvopn og stækki vopnasafn sitt í auknu mæli. Þvert á móti finnst mér skynsamlegra að aðbúnaður lögreglunnar sé almennt góður þannig að nægur mannafli sé fyrir hendi og nauðsynlegur tækjabúnaður til rannsókna og almennrar löggæslu – að skotvopnum undanskyldum. Til þess að bregðast við breyttum heimi kann að vera þörf á víðtækari menntun og þjálfun lögreglumanna eða auknu samstarfi við fagaðila á sviði félagsþjónustu svo bregðast megi við öllum aðstæðum sem upp geta komið. Málið blasir nefnilega þannig við að flestar aðstæður má leysa án þess að beita valdi og ef þörf er á valdbeitingu þá er farsælast að forðast notkun skotvopna í lengstu lög.
Varðandi löggæslu vopnaðra lögreglumanna á fjöldasamkomum finnst mér ekki forsvaranlegt að þar verði um meginreglu að ræða. Hér á landi höfum við komist af án vopnaðrar löggæslu á fjöldaskemmtunum um langan aldur. Ekki hafa verið sett fram nein knýjandi rök sem hníga að annarri niðurstöðu. Almenn glæpatíðni á Íslandi er lág og enn sem komið er hefur enginn fært rök fyrir því að líklegt sé að upp komi aðstæður þar sem þörf er á beita skotvopnum eins og rakið var hér að framan.
Tökum mikilvæga umræðu
Síðustu daga hefur farið fram umræða í samfélaginu um sýnilega vopnaða löggæslu á fjölmennum viðburðum. Ýmsir hafa látið í ljós skoðanir sínar á þessari eðlisbreytingu löggæslunnar og eru orðaskiptin oft á tíðum heitfeng en líka skynsamleg – hvort sem menn eru fylgjandi vopnaðri löggæslu eða andsnúnir.
Þessi umræða er mikilvægur þáttur í virku lýðræðissamfélagi því málið á ekki að vera einkamál Ríkislögreglustjóra. Forsenda þess að lögreglan búi við góðar starfsaðstæður er að sæmileg sátt ríki í samfélaginu um hennar störf. Opin umræða um störf hennar er leiðin að slíkri sátt. Það er því miður að stöku talsmenn aukinnar vopnavæðingar lögreglunnar hafi reynt að spilla fyrir þessari mikilvægu umræðu með því að reyna að afvegaleiða og snúa út úr málflutningi þeirra sem eru þeim ósammála. Meðal annars hafa þessir aðilar reynt að stilla gagnrýni vopnavæðingar upp sem einhvers konar árás eða atlögu að lögreglunni. Ekkert er auðvitað fjær sanni. Það getur allt skynsamt fólk séð.
Athugasemdir