Guðbergur Egill Eyjólfsson leggur út frá umræðunni um „góða fólkið“ og „vonda fólkið“ og ber hana saman við atburði liðinna ára.
Góða fólkið
„Góða fólkið“ er hugtak sem undanfarið hefur verið notað af fólki sem hallast undir þá stefnu sem ríkisstjórnarflokkarnir fara fyrir. Er þetta hugtak „góða fólkið“ notað í háði um þá sem hafa maldað í móinn og reynt standa upp í hárinu á ríkisstjórninni í þeirri markvissu stefnu þeirra að brjóta niður sameignir landsmanna, hygla vildarvinum og níðast á þeim sem minna mega sín.
Það er soltið kómískt að varðhundar ríkisstjórnarinnar sem notað hafa hugtakið um góða fólkið staðsetur sjálft sig um leið utan þess hóps. Þótt þetta hugtak sé sett fram með háði þá felst nokkur sannleikur í þessu öllu saman því oft fylgir með að „góða fólkið“ vilji hjálpa öllum óháð kostnaði, praktískum aðstæðum, lögum og venjum.
Fyrir góða fólkið felst ákveðið hrós í þessu því sá sem gerir sitt besta til þess að vera góður gerir það einmitt óháð praktík, kostnaði, lögum og venjum. Mestu framförum allrar mannréttindabaráttu hefur verið áorkað einmitt þegar gott fólk horfir fram hjá öllum slíkum þáttum til þess að láta gott af sér leiða sama hvað.
Vonda fólkið
Valdhafar þessa lands eru komnir það langt með það áætlunarverk sitt að sölsa öllum sameignum undir sig en eyðileggja annað og misskipting orðin það mikil að tími er kominn til að taka þátt í þeim flokkadráttum sem notkun hugtaksins um góða fólkið býður upp á og andstæðan við góða fólkið er vonda fólkið.
Ætlunarverk ríkisstjórnarinnar ætti hverjum að vera orðin ljós. Það á að einkavæða allt sem hægt er að einkavæða með góðu eða illu, sama hverjar afleiðingarnar verða fyrir þorra landsmanna. Ríkisstjórnarflokkarnir ganga erinda fámenns hagsmunahóps sem skeytir engu nema um sjálfan sig. Með athöfnum sínum fara þau illa með sjúklinga, það gerir bara vont fólk. Þau fara illa með öryrkja, það gerir bara vont fólk. Þau fara illa með gamalmenni, það gerir bara vont fólk. Fólki er mismunaður aðgangur að námi, það gerir bara vont fólk. Lækkaðir eru skattar á hátekjufólk meðan grunnstoðir samfélagsins svelta, það gerir bara vont fólk. Þau lækka auðlindagjöld á risafyrirtæki sem greiða sér himinháann arð og gefa starfsmönnum íspinna, það gerir bara vont fólk. Þau rændu bönkunum okkar, Póstinum og Símanum, svona gerir bara vont fólk. Þau reka langveik börn úr landi til að veslast upp og deyja og það gerir bara virkilega vont fólk.
Þetta eru ill verk og þau verður að stöðva. Kjósendur þessara flokka verða að fara að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni. Viljið þið samfélag sem byggist á sanngjörnum gildum eða viljið þið samfélag sem byggist á græðgi, mismunun og kúgun?
Það er allt í lagi að kalla hlutina réttum nöfnum og þeir sem vilja láta gott af sér leiða, búa í samfélagi þar sem fólk stendur saman og hjálpar hvert öðru, það er gott fólk. En þeir sem vilja búa til samfélag græðgi, einstaklingshyggju og mismununar, þar sem fámennur hópur hefur ofgnótt á kostnað allra hinna. Það er vonda fólkið.
Athugasemdir