Ég hef ætlað að skrifa þennan pistil nokkuð lengi en það er eins og ég hafi verið að bíða eftir einhverju - og tilfinning mín er sú að nú sé stundin upp runnin.
Mig langar að biðja alla sem taka undir það sem ég hef að segja að deila innlegginu og dreifa því um víðan völl. Því nú ríður á að standa saman og mátt fjöldans fær enginn staðist, ekki satt?
Það eru blikur á lofti í fjölmiðlabransanum, alvarlegar blikur. Við þörfnumst heiðarlegra miðla sem láta ekki stjórnast af sérhagsmunum og valdakerfinu. Fjölmiðlar eru oft kallaðir 'fjórða valdið', hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Í 8. bindi skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis segir meðal annars í fjölmiðlakaflanum:
„Þótt fjölmiðlar búi ekki yfir formlega skilgreindu valdi í þjóðfélaginu er eigi að síður rökrétt að álykta að þeir búi yfir raunverulegu valdi í klassískum félagsfræðilegum skilningi og að í ljósi þess beri að meta stöðu þeirra.
Þeir, sem nú tala um fjórðu grein valdsins, líta á fjölmiðana sem viðbótarþátt í valdavef samfélagsins; hlutverk þeirra samkvæmt þessum skilningi er að hafa gætur á hinum greinum valdsins og vara almenning við hugsanlegu ráðabruggi þeirra. Stundum er gripið til líkingamáls og fjölmiðlarnir kallaðir varðhundar almennings. Rannsakendur hafa bent á að áhrif fjölmiðla séu einatt háð félagslegu umhverfi þeirra og notendanna og því sé ekki síður mikilvægt að huga að óbeinum áhrifum en beinum. M.a. er lögð áhersla á hugtök sem nefnd eru 'innrömmunaráhrif' og 'dagskráráhrif'. Hið fyrra vísar til þess að jafnvel þótt fjölmiðlarnir stjórni ekki skoðunum okkar á tilverunni þá leiði þeir okkur til að skoða hana á tilteknum forsendum - innan ákveðins ramma. Síðara hugtakið táknar í allra stystu máli að fjölmiðlarnir segi okkur að vísu ekki hvað við eigum að hugsa, en hins vegar segi þeir okkur hvað við eigum að hugsa um.“ [8. bindi bls. 248]
„... fjölmiðlarnir segi okkur að vísu ekki hvað við eigum að hugsa, en hins vegar segi þeir okkur hvað við eigum að hugsa um.“
Það er engin tilviljun að auðmenn á ýmsum sviðum hafi lagt áherslu á að eignast fjölmiðla. Í gegnum þá geta þeir stjórnað umræðu um hagsmuni sína, ímynd og haft áhrif á almenningsálitið - sem er gríðarlega mikið og mikilvægt valdatæki sem stjórnmálaflokkar vita mætavel. Almenningur á Íslandi varaði sig ekki á þessu fyrir hrun og því fór sem fór. Gerum ekki aftur sömu mistökin, gott fólk.
Eins og ég nefndi í innlegginu hér á undan er orðið fátt um fína drætti í fjölmiðlaflórunni og vafasamir menn með enn vafasamara auðmagn á bak við sig að leggja undir sig æ fleiri miðla. Eftir eru einkum tveir frjálsir og óháðir: Kjarninn og Stundin. Þá þurfum við að styrkja af öllum mætti og til þess þarf peninga.
Báðir þessir miðlar bjóða upp á að við styrkjum þá með áskrift. Hjá Kjarnanum er boðið upp á frjálst val um þrjár upphæðir, en Stundin er með fast áskriftarverð. Ég lagðist í svolitla útreikninga.
Kjarninn býður okkur að styrkja sig með 490 kr., 990 kr. eða 1.990 kr. á mánuði. Ég skráði mig fyrir 990 krónum fyrir nokkrum mánuðum. Ef við segjum að bara þeir sem hafa lækað Facebook-síðu Kjarnans, 23.000 manns - sem eru örugglega langt í frá allir sem lesa miðilinn - borgi milliupphæðina, 990 krónur á mánuði, þá fengi Kjarninn 22.770.000 krónur frá okkur á mánuði fyrir utan auglýsingatekjur. Það er slatti sem hægt væri að nota vel í þá rannsóknarblaðamennsku sem svo sárlega vantar í íslenska fjölmiðla. Lítil upphæð fyrir hvert okkar, stór upphæð fyrir rekstur þessa stórfína miðils. Eruð þið með? Skoðið þetta og hugsið málið:
Þá er það Stundin. Hún býður upp á tvenns konar áskrift: Annars vegar netáskrift með mánaðarlegu prentblaði og .pdf útgáfu á netinu fyrir 950 krónur á mánuði - hins vegar áskrift eingöngu á vefnum plús .pdf útgáfu fyrir 750 krónur á mánuði. Ef við tökum hærri upphæðina, 950 krónur, og margföldum með þeim sem hafa lækað Facebook-síðu Stundarinnar sem eru 14.000 manns - þá fengi Stundin mánaðarlega 13.300.000 krónur frá okkur í kassann. Eins og með Kjarnann má gera ýmislegt fyrir þá fjárhæð. Skoðið áskriftarsíðu Stundarinnar og hugsið málið:
Við þurfum nauðsynlega á þessum miðlum að halda. Við erum komin með reynslu af þeim. Mjög góða reynslu. Það er vonlaust að halda úti fjölmiðlum nema með góðum tekjum og fólkið sem fór af stað með þessa miðla hefur tekið mikla áhættu - í okkar þágu. Það er þakkarvert.
Í Skýrslunni segir jafnframt þetta: „Í nýlegu riti Paschals Preston er að finna skarplega ábendingu þess efnis að ekki sé lengur réttlætanlegt að líta á fjölmiðlana sem andófsafl í þjóðfélaginu líkt og gert var á fyrri stigum iðnvæðingar, heldur beri einmitt að umgangast þá sem valdhafa. [...] James Carey bendir einnig á að samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum geti leitt til ritskoðunar í nýrri mynd. Í áðurnefndri 'Skýrslu nefndar menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla' er einnig vakin athygli á háskanum af samþjöppun eignarhalds. Nýlegar rannsóknir benda til þess að íslenskir fjölmiðlamenn séu vel meðvitaðir um þennan vanda. Þeir finna einnig sárt fyrir þeim hömlum sem takmörkuð fjárráð og mannafli leggja á faglegan metnað íslenskra blaða- og fréttamanna.
Eins og ráða má af ofangreindu eru fjölmiðlafræðingar margir hverjir þeirrar skoðunar að fréttamennska sem byggist á sanngirni og sjálfstæði sé í útrýmingarhættu um þessar mundir.“
„Ég vona innilega að sem allraflestir ... sjái þörfina á því að við styðjum og styrkjum frjálsa fjölmiðlun á Íslandi“
Ég vona innilega að sem allraflestir, vinir þeirra, ættingjar, vinnufélagar og aðrir sjálfstætt hugsandi og gagnrýnir Íslendingar sjái þörfina á því að við styðjum og styrkjum frjálsa fjölmiðlun á Íslandi og skilji nauðsyn þess að sjálfstæð og gagnrýnin fréttamennska fái notið sín - okkur öllum til góðs.
Svo ítreka ég beiðni mína um að þið deilið öll þessu innleggi og biðjið aðra að deila því líka. Fjöldinn skiptir öllu máli og gott fólk: Nú er fjölmiðlun á Íslandi undir okkar stuðningi komin. Svo einfalt er það.
Athugasemdir