Ég gleymdi símanum mínum heima um daginn þegar ég fór í vinnuna. Aldrei gerst áður. Margir hefðu eflaust fengið áfall, logið að yfirmanninum um nýskeðan fjölskylduharmleik og farið heim frekar en að þrauka heilan dag símalaus. „Vá, þú ert hetja, frekar myndi ég vilja missa útlim en símann minn.“ Ókei.
Ég tók þessari áskorun af æðruleysi. Það voru jú bjartar hliðar á þessu. Meira pláss í vasanum, þurfti ekki að velkjast í vafa ef ég fann titring, hvort síminn væri að hringja eða ég með ristilkrampa. Vissulega gat ég ekki skoðað Facebook og njósnað um hvað aðrir voru að gera merkilegt við líf sitt á þessum blíðu sumardögum, hvort sem þeir voru að selja harðskeljadekk á Brask og brall eða útdeila velvild og knúsum á Góða systir <3
Þegar vaktin mín var hálfnuð komst ég að niðurstöðu. Að síðustu fjórir klukkutímar væru þeir bestu sem ég hafði upplifað. Að meðtöldum barneignum og Þjóðhátíð 2008.
Snjallsímarnir okkar, sem eru grónir fastir við okkur allan daginn, eru viðbjóðsleg fyrirbæri sem taka svo mikið frá okkur. Ég fór á klósettið og naut þess. Ég borðaði hádegismat og naut þess. Var á staðnum. Ekki með hálshrygginn í 90 gráðum að skoða hluti sem skipta engu máli.
Það besta við að vera símalaus er að enginn getur hringt í þig. Þú hefur frið. Það er ekkert eins yndislegt.
Símarnir eru ekkert annað en andlegt fangelsi. Um leið og hann er víðs fjarri eða batteríslaus færist yfir þvílík værð. Líkt og þegar ungbörn sofna loksins eftir margra klukkustunda ærandi grát.
Ég hugsa að ég taki nokkra símalausa daga í viku. Til að öðlast meiri hamingju og lífsfyllingu. Ég geng út frá því að yfirleitt sé öllum sama um hvað ég er að gera og að fólk þurfi almennt ekki að ná í mig. Ef mín bíða áríðandi skilaboð er líka alltaf hægt að fara aðrar leiðir. Eins og gert var á síðustu öld, þegar fólk var enn frjálst.
Athugasemdir