Vofa gengur lausum logum um Evrópu. Bíddu ... vorum við ekki löngu búin að kveða þessa vofu niður?
Neibb.
1. maí var Sósíalistaflokkur Íslands stofnaður og Tjarnarbíó varð að einu stóru faðmlagi. Fólk sem hafði pottþétt haldið að enginn annar fengi gæsahúð við að lesa Kommúnistaávarpið leit í kringum sig og andaði út í fyrsta sinn í áratugi. En andvarpið dró auðvitað líka hina að glugganum. Hina sem höfðu alltaf hatað rauða fánann og höfðu haldið að fólk væri nú löngu hætt þessu helvítis blaðri um „stéttabaráttu“ og „arðrán“ og „jöfnuð“. Í kjölfar stofnfundarins reyndu þessir boðberar skynseminnar það sem hefur gengið svo vel hingað til: að gera lítið úr kommunum.
Inn í umræðuna stígur Kolbrún Bergþórs og þurrkar leðjuna af stígvélunum. Fyrirsjáanlega talar hún um að „hugmyndafræðin“ sé úrelt og ekki heldur „geðsleg“ á sama tíma og hún segir að flokkurinn sé ekkert róttækari en Samfylkingin eða Vinstri-Grænir. Hún virðist ekki geta gert upp við sig hvort hún sé að slást við Stalín eða Steingrím Joð. Fleira í þessum dúr; hráar upphátthugsanir manneskju sem hefur alla sína þekkingu af sósíalisma úr "The Hunt for Red October." En hið próblematískasta í innleggi hennar er þó ekki greinin sjálf heldur titill hennar:
Er einhverjum öðrum en mér orðið flökurt á þessari markaðsorðræðu? Höfum við virkilega marinerast svo lengi í uppstúfi auðhyggjunnar að við kunnum ekki að ræða pólitík án þess að hljóma eins og staffafundur hjá auglýsingastofu? Kolbrún hefði allt eins geta sagt að hún væri ekki að „kaupa“ þennan nýja flokk. Pólitíska nauðsyn nýs stjórnmálaafls vegur hún og metur hún eins og lífvænleika nýs vörumerkis. Af hverju ætti þjóðin að vilja Sósíalista-tannkrem þegar það getur nú þegar keypt VG-sortina eða xS-tegundina?
Höfum við ekki lengur ímyndunarafl til að sjá fyrir okkur neitt verðugra pólitískt markmið en einhverjar prósentur í þingkosningum? Kosningamarkaðshlutdeild? Höfum við gleymt því hvað orðið „róttækur“ þýðir? Grundvallarforsendur þess kerfis sem við búum við eru svo rotnar að við verðum að „taka“ þær upp með „rótum.“ Nýr flokkur er ekki endanleg lausn á þeim vanda heldur fyrsta setningin í löngu samtali. Fyrsta skrefið í átt að umbyltingu.
Hver sá sem heldur að pólitík byrji og endi með flokkakerfi hefur gleypt þá meginblekkingu auðvaldsins að ekkert sé pólitískt nema það hver sé kosinn á þing. Að samþjöppun eignarhalds sé stjórnmálalega hlutlaus. Þessi blekking afvopnar alla andspyrnu. Að segja að það megi gagnrýna þjóðfélagsskipanina en bara ekki lýsa yfir vantrausti á kapítalismann er álíka gáfulegt og að segja: „Jájá, þú mátt fara út á fótboltavöll en skildu boltann eftir heima.“
Við þurfum að farga myndhverfingunni „markaðstorg hugmyndanna“. Orðalagið gengst við vélrænni einstaklingshyggju; þeirri nítjándu aldar bábilju að í samfélagi búi aðskildar hugverur sem, hver um sig, leitist við að hámarka eigin ánægju fyrir sem minnstan tilkostnað. Það er þessi hugmyndafræði sem er úrelt. Við erum nefnilega manneskjur, ekki heilabú í kjöthylkjum.
„Við kaupum ekki hugmyndir eða seljum þær. Við treystum hvort öðru eða ekki.“
Mannkynið er lífræn og andleg heild. Ástæðan fyrir því að við látum stundum eigingirnina stjórna okkur er ótti við að aðrir geri slíkt hið sama. Við erum fólk. Við kaupum ekki hugmyndir eða seljum þær. Við treystum hvort öðru eða ekki. Að stofna Sósíalistaflokk er að ákveða að byrja að treysta fólki. Hugmyndirnar munu svo spretta upp úr því trausti eins og fíflar upp úr mold.
En kannski hefur Kolbrún rétt fyrir sér.
Kannski eru allir bara feitt sáttir við kerfið eins og það er.
Athugasemdir