Vinur minn spurði um daginn hverjir væru raunverulegir kostir þess að búa á Íslandi. Hann vildi fá grínlaust svar, enda að spá í að flytja aftur á djöflaeyjuna eftir nokkurra ára útlegð.
Eins og oftast þegar svona spurningu er varpað inn í Íslendingapartí stóð ekki á svörum. Við útlægir Íslendingar söknum auðvitað alltaf sundlauganna og við þráum heita potta sem mega vera heitari en fjörutíu gráður í fimm stiga frosti í stað þess að malla í hlægilegum miðevrópskum stofuhita, helst innanhúss.
Við söknum lyktarinnar af blóðbergi í fjallshlíðum og bjartra sumarnótta inni í fjörðum. Og við þráum að geta horft út á óendanlegt hafið og sjá öldurnar skella á klettum meðan rokið frussar í hnakkann á okkur.
En af hverju í andskotanum erum við útlægu Íslendingar þá að kúldrast þetta í útlöndum? Það er varla til eitt einhlítt svar við því. Sögulega séð höfum við verið námsmenn eða listamenn sem ætluðum að dvelja tvö eða þrjú ár í erlendri borg og skiluðum okkur alltaf heim fyrir rest. Þessi tilhneiging gæti þó verið að breytast því fjölskyldu, sem flutti frá Íslandi fyrir hálfum áratug og man eftir að hafa borgað um 150 þúsund í leigu fyrir ágætis íbúð í Reykjavík, finnst kannski ekki mjög freistandi að koma aftur með svipuð laun og heita heppin að borga hundrað þúsund krónum meira fyrir lélegra heimili.
Svo við útlægir Íslendingar bíðum á kantinum og fylgjumst með í gegnum kristalskúlurnar okkar. Hvað er að fara að gerast? Munu nokkur þúsund íbúðir sem verða byggðar á næstu árum breyta einhverju?
„Úr fjarlægð virðist ástandið alltaf vera á leiðinni lóðrétt til fjandans, hvort sem um er að ræða menntakerfið eða heilbrigðiskerfið.“
Úr fjarlægð virðist ástandið alltaf vera á leiðinni lóðrétt til fjandans, hvort sem um er að ræða menntakerfið eða heilbrigðiskerfið. Fyrirsagnir miðlanna beinlínis öskra hversu heimskur og spilltur landinn sé orðinn. Svo þegar við loksins lendum á Leifsstöð og röltum í gegnum fríhöfnina þá erum við búin að gleyma þessu því framundan er sumarnótt og heitur pottur.
Flestir í heita pottinum hafa húmor fyrir ástandinu, eins og vinur minn sem sagði að hann vissi ekki hvort honum þætti skondnara; svipurinn á púkunum á Djöflaeyjunni (þeir voru upprunalega álfar en svo var þeim afhent Visa-kort) þegar þeir væru komnir dýpst ofan í hrun og vorkenndu sjálfum sér fyrir að eiga enga peninga eða þegar þeir ættu alltof mikið og væru ringlaðir yfir því hvernig ætti að eyða gróðanum. Íslandssagan væri í stuttu máli einkavæðing, hrun, uppgjör, einkavæðing, hrun, uppgjör, einkavæðing, hrun, uppgjör … Þetta væri nota bene framtíðarsaga.
Í síðustu viku héldum við hjónin tvö afmælisboð í röð fyrir son okkar hérna í Berlín. Annað var fyrir þýska leikskólann, hitt fyrir íslensku krakkana. Þjóðverjarnir voru auðvitað mættir á slaginu með börnin sín meðan Íslendingarnir komu allir klukkutíma of seint nema þessi eina fjölskylda þar sem pabbinn er þýskur.
Fyrir okkur skipti þetta ekki nokkru einasta máli því manneskja er jafn skemmtileg hvort sem hún kemur á réttum tíma eða ekki. Þetta fer aldrei í taugarnar á mér nema þegar landar mínir fara að telja sér þetta sérstaklega til tekna í stað þess að horfast í augu við að við erum með of mikinn athyglisbrest til að geta reiknað út hversu lengi evrópsk járnbrautarlest er að færa sig á milli tveggja lestarstöðva inni í borg.
Við erum ennþá rallhálf á nítjándu öld á hestbaki einhver staðar á milli Reykjavíkur og Þingvalla. Hvert og eitt okkar rokkstjarna sem restin af boðinu bíður í ofvæni eftir að birtist í selskapnum á meðan Þjóðverjar eru áttatíu miljónir og þar af leiðandi hver þegn ekki eins mikils virði sem slíkur. Enginn lítur upp ef Wolfgang Smith kemur hálftíma of seint í barnaafmæli en þegar Þórarinn Leifsson mætir í lopapeysunni og lýsislyktina leggur af honum svo minnstu börnin forða sér grátandi inn í hliðarherbergi þegar hann skellir snarkandi hvalkjöti á grillið, þá horfa jafnvel grænmetisæturnar á hann með velþóknun. Þetta er jú svo eðlilegt allt saman. Eða hvað? Kannski eru Þjóðverjarnir bara kurteisir. Kannski læðast þeir fram í eldhús eða inn á bað til að hlæja að okkur.
Útlendingum, sem reyna að setjast að á Íslandi, gengur misvel að aðlagast samfélaginu. Íslendingar eru mjög opnir á yfirborðinu en ef þú ert ekki tengdur fjölskylduböndum inn í þessa fámennu hvítu yfirstétt, sem í raun og veru ræður öllu, þá muntu eiga erfitt uppdráttar til lengri tíma litið.
Hvíta yfirstéttin á Íslandi eru örfáar hræður, á landinu búa kannski þrjú hundruð þúsund auk vinnuþræla sem hafa verið fluttir inn frá Austur-Evrópu og sjá um láglaunuð skítverkin. Þessi hvíta yfirstétt er mjög rík en samt tekst henni ekki að viðhalda þjóðfélagsgerð þar sem allir geta menntað sig, komið sér upp heimili og farið til læknis án þess að eiga á hættu að fara á hausinn ef eitthvað bjátar raunverulega á.
Það er nánast súrrealískt að hugsa um þetta því við erum svo ofboðslega fá að stundum er eins og hægt væri að laga allt sem er að í þessu litla samfélagi með einu pennastriki – og einmitt þess vegna er ég nógu trúgjarn til að kjósa aftur og aftur á þing fólk sem lofar bjartri framtíð og skilar litlu.
Heima er best.
Athugasemdir