Forseti Rússlands, Vladimír Pútín sagði eitt sinn að fall Sovétríkjanna væri einn mesti harmleikur síðustu aldar í alþjóðastjórnmálum og hefði fætt af sér allskyns óæskilega aðskilnaðarkrafta innan Rússlands. Þar með talið er Úkraína.
Þegar þetta mikla veldi var að falla reyndi þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna, Mikail Gorbatsjov, allt hvað hann gat til þess að halda því saman, en án árangurs. Leiðtogar lýðveldanna voru búnir að sjá ljósið, og í þessu ljósi fólst frelsið og sá möguleiki að stjórna sér sjálfir. Í nýlegri bók, The Last Empire, er mjög fróðleg lýsing á þessari atburðarás.
Úkraína var ekki undanskilin og þetta stærsta lýðveldi Sovétsins lýsti yfir sjálfstæði í lok ágúst 1991, eftir misheppnað valdarán harðlínumanna í Moskvu. Landið er um sex sinnum stærra en Ísland, þar búa um 44 milljónir manna og af þeim eru um 80% Úkraínumenn, en um 17% Rússar.
Stjórnmál landsins undanfarin ár hafa einkennst af miklum átökum og spillingu. Engu að síður hafa þeir kraftar sem vilja nánara samband við Vesturveldin, bæði Bandaríkin og Evrópu (ESB), nú náð yfirhöndinni. Í augum Pútíns er það ekki gott og hefur hann brugðist við með því að innlima Krímskaga, sem hefur tilheyrt Úkraínu frá miðri síðustu öld. Þar með skipaði hann sér í hóp Jósefs Stalíns (innlimaði Eystrasaltsríkin í seinni heimsstyrjöld) og Adolfs Hitlers, sem innlimaði Austurríki ári 1938, ári áður en hann ruddist inn í Pólland og hóf þar með mesta hildarleik sem mannkynið hefur upplifað. Innlimanir sem þessar eru gróf brot á alþjóðalögum.
Þúsundir fallnir
Í Úkraínu geisar stríð milli Úkraínu og Rússa innan Úkraínu, sem njóta stuðnings Kreml. Á því leikur enginn vafi. Rússneskir hermenn hafa fallið í Úkraínu og í grein í Newsweek í júní kemur fram að menn áætla að um 12.000 hermenn, ráðgjafar og vopnasérfræðingar frá Rússlandi, séu í Úkraínu. Allt að 7000 manns hafa fallið í þessum átökum, mest almennir borgarar.
Vegna stuðnings Íslands við sjálfstæðisbaráttu Úkraínu, hafa Rússar sett okkur á bannlista í því taugastríði sem geisar á milli Vesturveldanna og Rússlands. Fiskútflytjendur eru fúlir mjög og sjá milljarðana hverfa sjónum.
En málið snýst kannski um þetta: Ætlar Ísland frekar að styðja siðferðilega við bakið á þjóð sem er glíma við nýfengið sjálfstæði (rúm 20 ár eru mjög lítið í sögulegu samhengi) eða láta peningalega hagsmuni snúa við þeirri afstöðu og þar með sýna einvaldinum í Kreml siðferðilegan stuðning? Skipta peningarnir hér meira máli en frelsi og fullveldi heillar þjóðar? Því má ekki gleyma að nái Úkraínu sér á strik, þá eru að sjálfsögðu markaðstækifæri þar, rétt eins og í Rússlandi.
Í bók sinni Ukraine Diaries lýsir úkraínski rithöfundurinn Andrey Kurkov þeirri þróun sem kölluð hefur verið Maidan-byltingin, sem lauk með því að forseti landsins og skjólstæðingur Vladimírs Pútins, Viktor Janúkóvits, flúði land. Núverandi valdhafar horfa til vesturs, en ekki austurs. Það vill Pútín ekki og um það snýst málið.
Milli steins og sleggju
Saga Úkraínu er flókin og segja má að á margan hátt sé landið á milli steins og sleggju, austurs og vesturs og varð landið til dæmis mjög illa úti í seinni heimsstyrjöld, bæði í samskiptum við hermenn þriðja ríkis Hitlers, sem og hermanna Stalíns. Sterka þjóðernishyggju er að finna í Úkraínu, sem og í Rússlandi. Og þjóðernishyggja sem fer úr böndunum, er eitt það hættulegasta sem fyrirfinnst. Það sáu menn til dæmis þegar Júgóslavía sundraðist í blóðugu borgarastríði á árunum 1991-1995. Enginn vill sjá það endurtekið, en því miður virðist það vera raunin í Úkraínu. Þess vegna þarf alvöru átak til þess að reyna að koma á friði í Úkraínu og leysa málið með friðsamlegum hætti, en ekki vopnaskaki og blóði.
Höfundur er M.A. í A-Evrópufræðum frá Uppsalaháskóla.
Athugasemdir