Íslenskur kapítalismi er mjög íslenskur. Við eigum ekki marga meistara á því sviði, ekki marga menn eða konur sem hafa byggt upp sitt eigið frá núlli, á sinni eigin hugmynd, útfærslu og „visjón“. Við höfum ekki átt marga sjáendur og leiðendur í viðskiptum, fólk sem kalla má kapítalista með dálitlum bravúr.
Yfir æsku minni ríktu heildsalarnir. Einhvern veginn höfðu þeir nælt sér í umboð, leyfi til að flytja inn ákveðnar vörur, og urðu vellríkir á því, alla þyrsti í Viceroy, Smirnoff og Bridgestone og því mátti smyrja vel á varninginn. Þessir karlar voru eins konar aðstöðumælar, það var nánast ekki hægt að tapa á viðskiptunum, þeir stóðu bara þarna og kyngdu peningum. Einstaka menn voru þó að reyna að byggja upp veldi á öðrum forsendum, út frá eigin hugviti; Pálmi í Hagkaup, Guðni í Sunnu, Ingólfur í Útsýn o.fl. … En einhvern veginn nutu þeir ekki virðingar, það var talað um þá sem vafasama pappíra, nánast í þessum tóni: Æ, já, hann er alltaf að reyna. Í áratugi var Hagkaup talað niður. „Hagkaups-slopparnir“ voru síðasta sort. Það var eins og Pálmi þyrfti að byggja heila Kringlu til að fá loks þá virðingu sem hann átti skilið.
„Nú hættið þið þessu og seljið, eða þið fáið engin frekari lán.“
Seinna komu Arnarflugsmenn, Hafskipsmenn, Iceland Express, DV-feðgar, Jón Ólafsson og fleiri, menn sem reyndu að byggja upp fyrirtæki í samkeppni við aðalinn, við hliðina á íslensku náðarfyrirtækjunum, og fóru nánast allir flatt á því, voru barðir niður hægt en örugglega, af flokknum eina eða flokknum hinum, eða drukku sig út úr því sjálfir. Einn þeirra lýsti því fyrir mér útundir ættarmótsvegg hvernig banki Sjálfstæðisflokksins hefði hringt á krítísku mómenti og sagt: „Nú hættið þið þessu og seljið, eða þið fáið engin frekari lán.“ Í veislu hitti ég annan sem lýsti því hvernig sjálfur seðlabankastjóri þáverandi gat ráðið því hver fékk að lenda og taka á loft í Keflavík.
En svo komu Baugs-feðgar og urðu alþýðuhetjur um skeið, þeim tókst loksins það sem fáum hafði áður tekist, að ganga á hólm við gamla kerfið og hafa sigur, verða stærri en þeir sem fyrir lágu á fleti. En sigurinn leiddi til ofmats og grægði, innrás varð útrás varð hrun.
Í dag er líklega fleira nýsköpunarfólk í viðskiptum en nokkru sinni áður og af og til tekur íslenskt viðskiptahugvit stóra stökkið. Björk, Latibær, Marel, Össur, Baltasar Kormákur, Wow Air, Plain Vanilla (reyndar nýlent), Kaffitár, Kaldi, Reykjavik Letterpress og fleiri ævintýri hafa gerst, ég kann ekki að nefna þau öll. En samt sem áður er staðan í dag ennþá sú að obbinn af íslenskum kapítalistum er mjög íslenskur. Þeir eiga erfitt með að standa á eigin fótum og myndu aldrei pluma sig í alþjóðlegri samkeppni. Af því sprettur andstaða þeirra við allar breytingar, inngöngu í ESB og fleira. Og þess vegna hafa svo mörg af ofantöldum fyrirtækjum flúið land eða fundið sér markaði erlendis.
Hér heima er hins vegar allt við sama heygarðshornið.
Mógúlin öll í sjávarútvegi hafa öll fengið að baða sig í ókeypis auðlind, eins og dugleg en frek börn. Mógúlin öll í ferðabransanum eru flest einhvers konar landnámshanar og -hænur með kúrekahatta sem gogga sig áfram um regluleysið í þessu villta hraunfláka-vestri samkvæmt reglunni: Hinir frekustu verða fyrstir og hinir fyrstu ríkastir. (Og þess vegna auðvitað á móti öllum breytingum, öllum frekari gjöldum, frekari reglum). Mógúlin öll í stóriðjugeiranum eru á launum alþjóðlegra og viðurkenndra glæpafyrirtækja. (Eitt þeirra stelur daglega einni og hálfri milljón króna undan íslenskum skatti.) Mógúlin öll í olíubransanum eru ódæmdir samkeppnisníðingar. (Enn hefur enginn þar á bæ fengið þá ótrúlega brilljant hugmynd að bjóða upp á ódýrara bensín en hinir.) Mógúlin öll í bankabransanum vinna enn samkvæmt reglunni að fólk borgi bönkunum fyrir að geyma peningana sína og eru því eins konar aðstöðumælar líka, eins og heildsalarnir sálugu. Mógúlin öll í hrunuppgjörinu eru bara ólæknandi bónusfíklar sem japla á tyggjóplötum úr silfri framan við Bloomberg-skjáinn. Mógúlin öll í fjarskiptabransanum eru kannski eitthvað að reyna. Mógúlin öll í matvörunni eru farin, af ótta við Costco. Mógúlin öll í matvælaiðnaði sitja í hundrað ára gömlum stólum og stýra bransa sem reynir allt hvað hann getur til að koma í veg fyrir þróun, og allt hvað hann getur til að halda öllu eins og það hefur verið í hundrað ár, býður fram gúmmí í osts stað og vatnssprautar sína skinku (!), en trítar bændur eins og væru þeir leiguliðar frá miðöldum.
„Íslenska mógúlið er latt, feitt og hrætt. Og það er nánast alltaf af pólitískum ættum.“
Íslenska mógúlið er latt, feitt og hrætt. Og það er nánast alltaf af pólitískum ættum. Og kemur þar erindi þessarar greinar. Okkur ætlar seint að takast að slíta slefið sem liggur hér á milli valds og peninga. Á Íslandi ríkir ekki frjáls samkeppni, þar ræður ekki snilld þinnar hugmyndar eða úthald þíns loga, útsjónarsemi og ástríða, heldur hvern þú þekkir og hvern þú blekkir. Hér borgar sig ekki að taka áhættu heldur taka alls enga, ekki vinna lönd og horfa fram á veginn, heldur finna sér pláss og koma sér fyrir.
Íslenskir kapítalistar eru nánast allir af íslenska skólanum:
Fyrst er að fæðast inn í rétta fjölskyldu, þá að fara í réttan menntaskóla, ganga þar í réttu strákaklíkuna og taka síðan á sig smá krókaleið upp í Háskóla, afplána þar nokkur leiðindaár í lög- eða viðskiptafræði, en muna svo að svara í símann þegar ráðherrann hringir, og mæta í ráðuneytið daginn eftir sem aðstoðarmaður ráðherra, með prófið annaðhvort hráeldað í vasanum eða gleymt fyrir lífstíð. Við taka náðugir en forvitnilegir dagar í aftursæti valdsins, ótal fundir og dinnerar, sambönd mynduð, númer skráð og andlit nóteruð, með tímanum jafnvel örlítið vald komið í þitt fas, jafnvel einstaka ákvörðun sem þú tekur sjálf eða sjálfur. En svo koma kosningar og þín kona eða þinn maður hverfur á braut, þarf að segja af sér eða hættir, eða hrynur jafnvel alla leið niður í stjórnarandstöðu, og þá kemur fyrsta valið þitt á lífsleiðinni: Á ég að fara í prófkjör eða á ég að hringja í þetta númer? Óvissufíklar taka fyrri kostinn en hinir vitru þann seinni. Og veljir þú þann ertu óðar orðinn forstjóri einhvers semi-ríkis-ohf-fyrirtækis sem verið var að stofna eða einhvers óljóss orkufyrirtækis eða í vinnu hjá Borgun eða þér var kerlingafleytt inn á einhverja skiladeildina þar sem þú þarft ekki beint að vinna, heldur vinnur bara í lotteríi þrisvar á ári (lotterí reyndar rangnefni því þú getur ekki tapað í því) og umslagið inniheldur aldrei minna en 50 milljónir. Nú eða þá að þú færð upp í hendurnar eigið tollheimtufyrirtæki, sem einhverjir aðrir og eldri aðstöðumælar byggðu upp og ekki er heldur hægt að tapa á, nú eða þú vilt út í fjölmiðlun og aðstöðugróðinn og samböndin frá aðstoðarmannsárunum gefa þér nægilegt hlutafé til að kaupa nokkra fjölmiðla til að þægja.
Gunnlaugur í Kögun og Finnur gamli Ingólfsson eru auðvitað frægustu aðstöðumælar Íslands en sagan geymir fleiri og munstrið er því miður enn í fullum gangi. Meira að segja hinn mikli Kári Stefánsson komst ekki inn í landið með sína snjöllu viðskiptahugmynd án þess að taka Davíð Oddsson í sitt fang og kjassa duglega. Og eftir að fyrirstríðs-ofurhuginn Thor Jensen stærði sig gegn íslenska hagsmunavaldinu og fór flatt, var það einföld og praktísk niðurstaða fjölskyldunnar að næsta kynslóð myndi ekki gera sömu mistök: Ólafur sonur hans fórnaði sér, skráði sig í flokkinn og fór þar alla leið í stóla formanns og forsætisráðherra. Bingó! — og Thorsarar voru komnir í náðina.
Það borgar sig nefnilega ekki að láta reyna á sjálfan sig í viðskiptum hérlendis, betra er að koma sér fyrir undir verndarvængjum valdsins og stökkva síðan þaðan á bitana sem gefast. Þá er alltaf hægt að hoppa beint í forstjórastólinn og jafnvel eignast allan hlutinn. Allt þetta rifjaðist upp fyrir nokkru þegar gamall aðstoðarmaður ráðherra dúkkaði allt í einu upp sem forstjóri Mjólkursamsölunnar, maður sem aldrei hafði starfað í matvælaiðnaði og ekkert þekkti til landbúnaðar. (Kannski þess vegna sem Smjörvinn hefur nú breyst í næpuhvítan Sólblóma og Smjörið í linan Smjörva…?) En hann þekkti rétta liðið.
Og allt eru þetta strákar, tittlingar sem nærast á bitlingum.
„Reksturinn snýst heldur ekki um rekstur eða amerísku ástina á neytendum (Love All, Serve All) heldur aðstöðuna og það að maka krókinn. “
Á Íslandi er því miður enn of mikið af svona tittlingafyrirtækjum, það er fyrirtækjum sem veita jú einhverja þjónustu, framleiða einhverja vöru, en eru fyrst og fremst bitlingavettvangur fyrir duglega drengi í forstjóraleik. Reksturinn snýst heldur ekki um rekstur eða amerísku ástina á neytendum (Love All, Serve All) heldur aðstöðuna og það að maka krókinn. MS er eitt, en hið illfræga fyrirtæki Borgun er líklega besta dæmið um íslenskt tittlingafyrirtæki. Það er í eigu andlitslausra frænda, hæfileikalausra aðstöðumæla, sem hafa komið sér í þá góðu stöðu að græða pening í hvert skipti sem einhver notar kreditkort! — Talandi um tilgang lífsins …
Annað dæmi um íslenska tittlingamenningu í viðskiptum sást svo nýverið í Leifsstöð, þar sem tittlingunum í Isavia tókst að bola burt einni af þessum örfáu konum sem reka fyrirtæki á Íslandi á eigin forsendum og hafa byggt það upp frá sinni eigin fyrstu hugmynd, tókst að bumba henni út úr þessari bestu aðstöðu á Íslandi til að græða á stigvaxandi ferðamannastreymi. Aðalheiði í Kaffitári var ýtt út til að rýma fyrir framsóknarmanni að norðan sem aldrei áður hafði komið nálægt kaffihúsarekstri, hvað þá veitingarekstri, en langaði til að koma sér vel fyrir við þetta Gullna hlið viðskiptalífsins, þennan blauta draum íslenska tollheimtumannsins. Þarna nægði að vera aðstoðarmaður Kaupfélagsstjórans á Sauðárkróki, sem virðist vera ígildi ráðherratignar á voru skrýtna landi.
Spillingin verður sjálfsagt aldrei upprætt hérlendis, tittlingar munu áfram finna sér bitlinga. Það eina sem hægt er að gera er að reyna að finna í henni einhverja skemmtun. Þegar forstjóri Mjólkursamsölunnar var kominn út í horn með sín samkeppnisbrot varð honum að ráði að veifa syndaaflausn frá gömlum komma af vinstrivæng. Og náðist þar viss fullkomnun í gargi: Íslenski kapítalistinn, uppalinn í Sjálfstæðisflokknum, fyrrverandi aðstoðarmaður ráðherra, varði brot sín gegn frjálsri samkeppni með kommúnískri syndakvittun til einokunarfyrirtækisins sem hann stýrir. Hvaða flokkur var það aftur sem kennir sig við frelsi einstaklingsins?
Nei, íslenski aðstöðumælirinn verður víst aldrei fullur. Hann tekur endalaust við. Og í komandi kosningum höfum við tækifæri til þess að viðhalda honum enn frekar, með því að kjósa enn fleiri tittlilinga sem geta náð sér í enn fleiri bitlinga.
Athugasemdir