Ég verð næstu vikurnar í Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Ég sótti um vist hér með því að skila heillangri umsókn þar sem ég sagðist ætla að leita að, rannsaka og þýða sjálfsævisögu séra Ólafs Gíslasonar prests á 18du öld.
Hann var að vísu bara neðanmálsgrein í sögu 18du aldarinnar en það má þó tengja hann við margt og mikið, deilur helstu höfðingja, hlutskipti fátækra, Móðuharðindin, hnignun biskupsstólanna, og fleira.
Umfram allt var hann merkileg persóna, mjög deilugjarn og kallaður Mála-Ólafur. Það var eitthvað við hann sem heillaði. Ég hafði lesið um hann þætti eftir bæði Árna Óla og Oscar Clausen og þar kom meðal annars fram að hann hefði farið oftar en einu sinni til Kaupmannahafnar að sækja sín mál.
Svo rakst ég allt í einu á kafla úr sjálfsævisögu hans, sem birtist í Tímariti félags íslenskra fræða í Kaupmannahöfn 1917.
Kaflinn fjallaði að vísu bara um húsakynni að Þingeyrum þar sem Ólafur ólst að hluta upp (hann var dóttursonur Lárusar Gottrúp), en það var sem sagt til meira. Hann hafði skrifað einhverjar 60 síður á dönsku einhvern tíma þegar hann var í Kaupmannahöfn að tala sínu máli. Sigfús Blöndal hafði þýtt kaflann um Þingeyrar á íslensku.
Ég man að ég las þennan kafla um Þingeyrar upp í Frjálsum höndum fyrir 25 árum og lét mig dreyma um að fara til Kaupmannahafnar og gá hvort afgangur handritsins væri ennþá til.
En svo mátti ég aldrei vera að því.
Núna er ég hingað kominn. Og ég fór niður í Konunglega bókasafnið fyrr í dag og spurði eftir handritinu. Ég hafði aðeins í fórum mínum eitt númer sem Sigfús Blöndal hafði nefnt í tímaritsgreininni.
Í „Svarta demaninum“, húsi bókasafnsins, var mér tekið með kostum og kynjum.
Það var eins og þau hefðu einmitt verið að bíða eftir mér öll þessi ár.
En svo kom babb í bátinn.
Þegar númerið var slegið inn birtist í tölvunni sex binda safn með líkræðum sænskra presta á 16du öld.
Ungi bókasafnsfræðingurinn sem var að hjálpa mér hagræddi aðeins númerinu en þá birtust bara upplýsingar um eitthvað sem virtist vera eintómt merkingarlaust bréfarusl.
Mér var svo sannarlega hætt að lítast á blikuna. Yrði þetta algjör fýluferð? Hafði ég haft Jónshússvist af einhverjum góðum fræðimanni sem hefði getað unnið eitthvert alvöru verkefni hér?
Já, var ekki sjálfsævisögubrot Ólafs bara löngu týnt og tröllum gefin, molnað í rusl, hent, sópað burt með öðru ryki?
Bókasafnsfræðingurinn velti vöngum andartak. Hún botnaði ekki alveg í þessu. Ég var farinn að svitna.
„Heyrðu,“ sagði hún loks, „prófaðu að skrifa inn nafnið á prestinum þínum ásamt númerinu.“
Ansi óstyrkur pikkaði ég inn Ó-l-a-f-u-r-G-í-s-l-a-s-o-n“.
Og sjá! Á tölvuskerminum birtust töfraorðin:
„Ólafur Gíslason Autobiografi.“
Ég vildi að ég hefði haft vit á að segja eitthvað rammíslenskt og gáfulegt.
„Fögur er hlíðin.“
Eða: „Þar lá að.“
Þó ekki væri nema: „Hneit þar!“
En ég skal viðurkenna að ég sagði bara: „Vá.“
Athugasemdir