Þeir segja atómstríð í vændum.
Væri þá ekki ráð að byrja að lifa,
Svo þeir hafi eitthvað að drepa?
-Ísak Harðarson
Það er enginn skortur á stórkostlegum yfirlýsingum um það hverskonar hamfarir kosningarnar í nótt tákni. Hvernig framtíðin muni verða, hverjir græði og tapi, efnahagsleg óvissa, kjarnorkuvopn í höndum brjálæðings sem ofsækir og hatar minnihlutahópa, konur og múslima. Einnig eru ófáir sem leyfa sér að segja öðrum að hætta að segja öðrum hvað þetta þýðir. „Hættu að segja að þetta verði allt í lagi!“ „Hættið þessu dómsdagsröfli!“ „Andið með nefinu!“ Sem er reyndar alltaf gott ráð og á að vera mun hollara en þessi þumbalega munnöndun sem margir hafa vanið sig á.
Síðan ég fæddist hafa verið fimm forsetar Bandaríkjanna og þeir hafa allir verið lygarar og skíthælar. Reagan var eitt foreldra nýfrjálshyggjunnar og skóp ástandið í miðausturlöndum með því að dæla vopnum á svæðið og stuðla að valdaránum hist og her. Bush eldri hélt svo áfram að fokka miðausturlöndum upp til þess að nálgast olíuna þeirra og hóf fyrsta Íraksstríðið við sinn fyrrum bandamann Saddam Hussein. Bill Clinton virðist vera kynferðislegt rándýr og raðkáfari. Meira að segja Obama, sem við kveðjum í febrúar, hefur aðeins staðið við 45% þeirra loforða sem hann gaf í sínum kosningabaráttum, ekki lokað fangabúðunum í Guantanamo, ekki stöðvað hernaðarítök í miðausturlöndum og enginn forseti hefur verið eins duglegur við að senda flotta sprengudróna á saklausa borgara og hann.
Sumir af þessum mönnum áttu að vera frjálslyndir og flottir. Einn og einn meira að segja lofaði betri tíð með blóm í haga. Aldrei hafa þeir þó verið meira en talsmenn heimsvaldastefnu auðvaldssinna sem gerir út á stöðuga framleiðni og neyslu varnings sem engin þörf er á, stríð sem aldrei tekur enda vegna þess að sala á vopnum er gríðarlega arðbær bransi og aukinn ójöfnuð því kenningin er að allir græði ef hinir ríku verði ríkari. Sem er svipað gáfulegt og að halda því fram að tennurnar í mér hafi gott af því að nota hamar í staðinn fyrir tannbursta og setja á hann glassúr í staðinn fyrir tannkrem.
Trump hefur verið með gassalegar yfirlýsingar í sinni kosningabaráttu. Rasismi, kvenhatur, heimska og ótti hafa verið hans landvættir og kosningabaráttan vestra hefur aldrei verið meiri leðjuslagur. Fordómar gagnvart minnihlutahópum, misrétti kynjanna og hræðsla og greindarskortur eru samt og hafa verið fléttuð saman við bandarískt samfélag frá stofnun þess. Frá stofnun ríkissins, árið 1776, hefur það verið í stríði 222 ár af 239. 93% af öllum þeim tíma sem ríkið hefur verið til. Enda hefur uppgangur þess, líkt og annarra stórvelda í mannkynssögunni, verið byggður á hernaði.
Semsagt: Gefðu fólkinu óvin og segðu þeim að því sé ógnað. Nasistarnir voru með þetta. Trump er vissulega mikill skíthæll. En dagana fyrir kosningar dró hann úr brjálæðinu og í sigurræðu sinni í nótt var hann bara ansi almennilegur og auðmjúkur. Engar brjálæðislegar yfirlýsingar. Ekkert minnst á vegginn eða að fangelsa andstæðinginn. Nú er hann búinn að sigra og þá þarf ekki eins mikla klikkun. Hann segist ætla að vera forseti allra landsmanna. Vill græða sárin og grafa stríðsaxir. Gott og vel.
(Ég veit ekki hvort þú nennir að horfa á þetta, hræðilega langt og leiðinlegt.)
Markaðir heims tóku dýfu í nótt þegar ljóst var að Trump myndi sigra. Þegar hann hins vegar flutti þessa hófstilltu ræðu réttu þeir úr kútnum og þegar þetta er skrifað eru það helst kvíðasjúklingarnir í Japan sem eiga eftir að jafna sig á tíðindunum. Andstæðingar Trumps hafa nefnilega líka alið á ótta; að hann viti ekkert hvað hann sé að gera, (sem vissulega virðist vera satt), utanríkisstefna hans sé veikbyggð (eða ekki til staðar), hann sé einangrunarsinni sem muni rifta öllum samningum og rústa hagkerfi heimsins. Eitthvað segir mér samt að svona fari þetta ekki. Bandaríkin munu áfram vera hálf-fasískt tveggja flokka skrímsli sem starfar fyrst og fremst fyrir forríka hvíta karlmenn. Hillary hefði engu breytt þar um. Bandaríkin munu áfram færa löndum frelsi í formi dráps á saklausu fólki og rányrkju. Það hafa Hillary og eiginmaður hennar stundað og stutt árum saman. Hvað er þá að fara að breytast?
Ekki óhlýðnast kapítalinu
Ameríski uppistandarinn Bill Hicks lést árið 1994. Efnisval Hicks snérist oftar en ekki um stjórnmál. Hann hafði mikinn áhuga á morðinu á John F. Kennedy, var andvígur stríðsrekstri Bush eldri og var óhræddur við að láta skoðanir sínar á málefnum líðandi stundar í ljós. Um val á forseta landsins hafði hann þetta að segja.
„Ég hef það á tilfinningunni, af því þú veist, það eru bara nokkrar manneskjur sem stjórna öllu. Þetta er satt og hefur verið sannað. Ég er ekki einhver helvítis brjálæðingur með samsæriskenningar. Nokkrar manneskjur, örfáir valdhafar, stjórna þessum fyrirtækjum og eiga þau, en það á einnig við um alla helstu fjölmiðla. Ég hef það á tilfinningunni að þegar einhver er kosin forseti, eins og Clinton var, þá skiptir engu máli hverju þú lofar í kosningabaráttunni - blablabla - Þegar þú sigrar þá ferðu inn í reykfyllt herbergi með tólf iðnaðarsinnuðum kapítalista skíthælum sem komu þér í embætti. Og þú ert í þessu reykfyllta herbergi og lítið kvikmyndatjald kemur úr loftinu og stór gaur með vindil segir „Rúllið filmunni.“ Og það er skot af aftökunni á Kennedy frá sjónarhorni sem þú hefur aldrei séð áður, sem lítur grunsamlega mikið út eins og upptakan sé frá grösuga hólnum. Og þegar tjaldið lyftist upp og ljósin kveikna spyrja þeir nýja forsetan, -„Einhverjar spurningar?“ -„Eh, bara hver stefnan mín sé.“ -„Fyrst sprengjum við Bagdad.“ -„Allt í lagi. Reddum því…“
„Þrátt fyrir allt.“
Heilagur Bede lét hafa eftirfarandi dellu eftir sér: „Á meðan Hringleikahúsið stendur, mun Róm standa, en þegar Hringleikahúsið fellur, mun Róm falla. Þegar Róm fellur, þá mun heimurinn falla.“ En þetta Hringleikahús er nú hálf-hrunið og hér erum við. Róm hefur nokkrum sinnum fallið og hér erum við.
Heimurinn er alltaf að farast. Við erum alltaf sekúndu nær dauðanum. Í dag eða á morgun getur allt verið búið. Þó Trump hafi sigrað á ótta þá megum við ekki gefa okkur óttanum á vald. Það er mjög auðvelt að vera hræddur, náttúrulegt ástand, adrenalín og einhver önnur hormón sem ég nenni ekki að gúgla flæða um æðarnar, sjáöldrin víkka út og mann langar að hlaupa. En frá hverju? Við getum ekkert gert í þessum náunga. Heimsveldið í vestri verður áfram til á morgun þó þessi appelsínuguli afglapi fái að stjórna því.
„Samt erum við hér ennþá og veröldin er ennþá fögur.“
Í gær lést Ingibjörg Haraldsdóttir, ljóðskáld og þýðandi, sama dag og Bandaríkjamenn kusu sér nýjan forseta. Þeir sem lengst hafa gengið lýsa því yfir að niðurstöðurnar gætu jafnvel verið upphafið að endalokum hins siðmenntaða heims. Um þá þörf mannsins að finna sér stöðugt nýjar dómsdagsspár til þess að fárast yfir sagði Ingibjörg:
„Síðan ég man eftir mér hefur heimurinn verið að farast. Ef það var ekki atómbomban var það heimsvaldastefnan, kommúnisminn, alnæmið, ofbeldið, kapítalisminn, klámið, mansalið, eiturlyfin, gróðurhúsaáhrifin, trúarbragðaofstækið, hernaðarhyggjan, náttúruhamfarirnar, hryðjuverka-ógnin, offitan, hungrið, vatnsleysið, fuglaflensan, endalok tungunnar, dauði ljóðsins - svo ekki sé minnst á þá framtíðarsýn sem við blasir ef hvert kínverskt heimili eignast einhverntíma bíl, ísskáp og þvottavél.... alltaf vofði eitthvað yfir okkur, og vofir enn. Samt erum við hér ennþá og veröldin er ennþá fögur, farfuglarnir enn á sínu undarlega flugi og enn eru skáldin að yrkja og finna fyrir þeim „djúpa fögnuði“ sem sköpunartilfinningin vekur. Þrátt fyrir hatrið og stríðin, þrátt fyrir allt.
Sumir hlutir eru bara ekki í okkar valdi og forsetaembætti Bandaríkjanna er einn af þeim hlutum. Ég segi allavegana að við bíðum og sjáum hvað gerist áður en við töpum okkur í trylling og ótta. Knúsum fólkið sem okkur þykir vænt um. Verum góð við hvort annað og gerum hluti sem okkur finnst skemmtilegir. Mætum óvissunni með samkennd, því á endanum mun kærleikurinn sigra.
Athugasemdir