Áðan var ég að sveima um í námunda við Kolatorgið í Kaupmannahöfn og tók þá eftir tríói ungra tónlistarmanna sem voru að spila fallegt lag sem líklega var eftir Vivaldi, þó það gæti hafa verið Bach.
Á myndinni hér að ofan má sjá tríóið milli tveggja kvenna sem námu um stund staðar líkt og ég og hlustuðu á. Önnur þeirra er reyndar lögð af stað burt, þurfti eflaust eitthvað að útrétta.
Myndin er samt ekki af músíköntunum. Myndin er af stóra hvíta steypuhlunknum vinstra megin.
Við fyrstu sýn er kannski ekki gott að átta sig á hvað þetta er, en slíkir steypuhlunkar eru um allt á göngugötunum og hvar sem búast má við fólksfjölda. Víða eru þeir margir í röð, festir saman með þykku steypustyrktarjárni.
Þeir eru til varnar nýjustu „tísku“ þeirra morðvarga sem um þessar mundir virðast geta ráðist til atlögu hvar sem er, og hika ekki við að drepa hvern sem er með því að ræna trukkum og keyra þá á fullri ferð inn í mannfjölda.
Með því virðast ráðþrota samviskulausir menn geta ímyndað sér að þeir séu í stríði og fórni lífi sínu fyrir einhvern málstað eða trúarbrögð.
Kaupmannahafnarbúar kippa sér ekki mikið upp við þennan viðbúnað. Þeir klofa yfir steypuhlunkana og nota járnkrókana á þeim til að læsa við hjólin sín.
Og lífið gengur sinn vanagang.
Því miður mun hættulegt heimskulegt raus eins og það sem Donald Trump Bandaríkjaforseti flutti í Póllandi um daginn bara styrkja vesalingana í þeirri trú að þeir séu í heilögu stríði. Þvaður eins og að „vestræn siðmenning sé í hættu“ og þurfi að verja sig af hörku mun bara ýta undir fleiri árásir.
Það er miklu nær að lifa sínu lífi, hlusta á Vivaldi og láta ekki hræða sig. Rétt eins og fólkið gerir í Kaupmannahöfn og rétt eins og fólkið gerir í Kabúl og Bagdad þar sem hættan af hryðjuverkum er þó margfalt meiri en hér á Vesturlöndum.
Nema þar er Vivaldi kannski ekki spilaður svo mikið á torgum. Og þó, hvað veit ég?
Á myndinni hér að neðan eru börn í hópferð, líka í námunda við Kolatorgið og líka í námunda við steypuhlunk. Sá gegnir þó í bili fyrst og fremst því hlutverki að styðja við óranslitaða hjólið sem mun bera mig um Kaupmannahöfn á næstunni.
Athugasemdir