Það er ekki oft sem út koma bækur sem eiga sér ævisögu að baki, ástríðu heillar ævi, en „Leitin að svarta víkingnum“ er slík bók, sjálfsagt eitt mesta verk 2016 vertíðarinnar. Það leynir sér ekki að Bergsveinn Birgisson hefur lagt góðan hluta starfsævi sinnar í þá rannsókn sem hér liggur að baki því hún er bæði djúp og víð og hefur tekið sinn tíma. Og tekur enn, því hér birtist íslensk og aukin útgáfa (allar nýjustu sannanir erfðafræðinnar eru með) þessa verks sem kom út í Noregi fyrir nokkrum árum og hlaut þar afbragðs viðtökur og bókmenntatilnefningar. Bókin var kölluð „meistaraverk“ í Aftenposten og Klassekampen sagði hana „meira spennandi en sjö norskar glæpasögur til samans.“
Þetta síðarnefnda fer nærri sanni, því „Leitin“ er spennandi og jafnvel æsileg á köflum. Höfundurinn setur sig í hlutverk rannsóknarlögreglumanns sem reynir að skýra „hvarf“ Geirmundar úr sagnaheimi okkar, hvernig standi á því að „göfgastur allra landnámsmanna“ hafi ekki fengið um sig meira ritmál, ekki sína eigin Íslendingasögu. Bergsveinn bætti reyndar úr því síðastnefnda fyrir nokkru með Geirmundar sögu heljarskinns, bók sem Íslendingar áttu erfitt með að kyngja en kemur nú út í „Norðvegi“ undir fyrirsögnunum „fyrsta Íslendingasagan í 700 ár!“ og hlýtur að teljast með merkustu ritaferkum okkar á seinni tímum. Ég á hana inni, en hef nú dvalið með Svarta víkingnum í tvær vikur, því þetta er ekki fljótlesin bók, stútfull af neðanmálsskýringum sem ekki eru minna djúsí en textinn sjálfur. Hver vill missa af gullmolum eins og þessum: „Orðið frjáls er mögulega runnið af fri-hals, þ.e.a.s. með „óhlekkjaðan háls“.“
Fyrst verður að telja fram þann unað sem lesandi finnur til við að fylgja höfundi sem þekkir efni sitt svo vel og hefur á hraðbergi allan sagnasjóð sögualdar, nánast alla texta forna jafnt sem fræði okkar tíma. Bergsveinn vitnar jöfnum höndum í Heimskringlu, hinar ýmsu Íslendingasögur, norska prófessora, rússneska mannfræðinga, Árna Óla og arabísk miðaldarit, en líka í bændur á Ströndum og smiði á Skarðsströnd. Og sjálfur stígur hann fram annað slagið, minnist t.d. trillukarlatíðar sinnar á Ströndum, til að hnykkja á strandískum hafstraumafræðum, og lýsir einmanaleika hins sérviskulega sérfræðings sem fær hugljómun í mannlausri kaffistofu á einhverju örreytis byggðasafni í Noregi. Ekki einu sinni starfsfólk safnsins getur hugsanlega skilið hvernig honum líður. Höfundurinn er alltaf einn.
Hér er rakin ævi Geirmundar heljarskinns, hins svarta víkings, sem var norskur konungssonur en rakti móðurætt til Síberíustrandar. Hann var „átkast“ í æsku en varð um tvítugt óvænt réttur maður á réttum stað, þegar norr-írskir kóngar ásældust góss og gaman frá Íslandi. Á heimsins ystu Hornströndum var enginn betri en Síberíuverseraður maður sem kunni að húðflétta reipi úr rostungum og svæla lýsi úr sel. Á nokkrum árum verður „Geirmundarveldið“ (já, einhvernveginn, á lúmskan hátt, tekst BB að fá mann til að trúa á þetta orð) til á Vestfjörðum og við Breiðafjörð. Sjálfur situr Svarti Don á sínum Geirmundarstöðum á Skarðsströnd (nú Skarð) með hundruða manna hirð og tekur á móti rostungstönnum, rostungsreipum, sellýsi og kjöti og hvaðeina sem flutt er til hans um Djúp og heiðar, og frá honum áfram út til Dýflinnar og Damaskus. Og hefur lesandinn á tilfinningunni að Bergsveinn hafi gengið allar þær flutningsgötur sjálfur (jafnvel uppgötvað 1000 ára gamla hestvegi í Jökulfjörðum sem eru nánast forn-rómverskir að sjá!) og einnig tekið hellugrafir hér og þar til að bræða sjálfrunnið sellýsið, allt í því skyni að sanna kenningu sína um að Geirmundur hafi verið Vestfjarðakóngur laust um Landnám.
Þetta síðasta atriði get ég reyndar sannað, því á ferð okkar hunds og hjúa um Strandir í fyrrasumar rákumst við óvænt á Bergsvein á hlaðinu við sundlaugina á Laugahóli og endaði sá hittingur í heimabústað hans við sjóinn þar sem skáldið dró fram heimagert sellýsi á Kristals-plastflösku og hellti í skeiðar. Var þetta hinn mesti unaðsdrykkur enda 2010 árgangurinn góður með selum og forvitnilegt að fá að súpa þannig á samfélagi sögualdar sem og nýstárlegri kenningu um landnám Íslands.
Bergsveinn beitir hér frumlegum rannsóknaraðferðum sem sumar eru eitursnjallar og gætu sómt sér í bestu krimmum. Hann þarf sífellt að geta í eyðurnar þar sem frumheimildir eru af skornum skammti og sumar kolrangar að mati BB, jafnvel hjá höfundi Sturlungu(!) Höfundi tekst einna best upp þegar hann rýnir og les í örnefni og lætur þau segja þá sögu sem í þeim leynist og blasir þó við hverjum manni. Hvaðan úr Norðvegi var Geirmundur? Jú, með samanburði á örnefnum í kringum nokkur höfðingjasetur á Rogalandi annarsvegar og í kringum Geirmundarstaði (Skarð) á Skarðsströnd hinsvegar, blasir niðurstaðan við. Þeir höfðu þau með sér að heiman. Örnefnin eru sem fingraför landnámsmanna!
Og já, hér opnast leikmanni ný sýn á þessa sögu alla. Hér ljómast allt upp. Við fáum innsýn í smákóngaveröld Norðurvegs fyrir landnám, fyrir og undir Haraldi hárfagra, og þá opnast manni einnig hið mystíska Bjarmaland (sem þessi lesandi vissi aldrei alveg hvar lá) sem og sú margslungna smákóngakös sem Írland var á þessum árum. Það er reyndar helst þar sem að lesandi lendir í þokum, en reyndar einnig á leið hins unga Geirmundar um sjávarveg norður fyrir Samaland. (Norðvegur er ekki bara langur á kortinu.) Hér hefði mátt stytta sér leið, jafnvel þótt höfundurinn beiti skáldsýn sinni til að blása lífi í þá hundrað héraðshöfðingja sem heimsóttir eru.
„En þegar sögunni víkur loks til Íslands tekur að vaða á síðum. Hér opnast hver fjörðurinn á fætur öðrum með sögum og persónum, og örnefnin lifna við.“
En þegar sögunni víkur loks til Íslands tekur að vaða á síðum. Hér opnast hver fjörðurinn á fætur öðrum með sögum og persónum, og örnefnin lifna við. Gils skeiðarnef býr í Gilsfirði, Þorbjörn bitra í Bitrufirði, Ketill gufa í Gufudal, Gufufirði, á Gufuskálum... já, allstaðar þar sem Gufa stendur í nafni, þrællinn Kjaran í Kjaransvík, Kjallakur á Kjallaksstöðum o.s.frv. Og Íslandssagan styttist hreinlega um nokkrar aldir þegar maður les um hægrihandarmann Geirmundar, Steinólf lága í Fagradal, en nafni hans bjó þar fram til 2012, eða þá tvíburabróður Geirmundar, Hámund heljarskinn, sem settist að á Hámundarstöðum í Eyjafirði og við er kenndur bæði háls og fjall, og hús í Hrísey líka: En þar á einmitt bústað þýðandi bókarinnar og einn hvatamaður að útgáfu, Eva Hauksdóttir, hafi hún mæta þökk fyrir gott verk! (Hámundarstaðir í Hrísey er einmitt næsta hús við okkar eigið og því finnst manni eins og þessi Geirmundarmál verði nánast áþreifanleg á köflum, bróðir hans býr í næsta húsi!) Þetta er hin magnaða sérstaða okkar Íslendinga: Við höfum upphafið í hendi okkar. Okkur finnst við nánast geta þreifað á landnáminu.
Það fékk allavega smiðurinn sem átti það hlutverk seint á síðustu öld að steypa grunn undir kirkjuna á Skarði, en þar undir er talið að Geirmundur sé grafinn, ég segi ekki meir...
Það er ekki auðvelt að ná utan um Leitina að svarta víkingnum í einni bloggfærslu, allra síst fyrir ólærðan, en það er ansi dýrmætt að fá að kafa með Bergsveini í þessa fortíð alla. Kenningar hans um Ísland sem verstöð í upphafi landnáms, um rostungs-gullnámur um allar Hornstrandir, um græðgina sem virðist okkur í blóð borin, græðgina sem klárar auðlindarnar umræðulaust á nokkrum árum og enn er við lýði, skýringarnar á skinndökkva Geirmundar, og bara það eitt hvernig arfsögnin fjörulalli er tilkomin, svo ógleymdur sé grunurinn um þrælafjöldann fenginn frá Írlandi, já og líka lýsingin góða á stefnumóti „norrænu sáðfrumunnar og keltneska eggsins“ eina fallega erótíska haustnótt árið 903 á Kvenhóli innan við Ballará. Allt hljómar þetta sannfærandi, og allt þetta finnst manni að þurfi að ræða, allt eru þetta mikil tíðindi. Maður sér Íslandssöguna, sjálfa tilurð þjóðarinnar, í nýju og skýrara ljósi. Þessi bók er veisla fyrir áhugafólk um það allt. Bergsveinn setur upphaf Íslandsbyggðar í stærra og alþjóðlegra samhengi, hann stingur landnáminu í samband, ef svo má segja. Að minnsta kosti bregður bókin glænýrri birtu á Vestfirði alla, Strandir og Breiðafjörð. Við munum hér eftir aka önnur um Skarðsströnd, Þorskafjörð og Bitrufjörð.
Það er löngu ljóst að saga okkar er alltof stór fyrir svo litla þjóð. Landnámið eitt og sér kallar á hundrað manna rannsóknarteymi. Og við sem eigum bara sjö fornleifafræðinga... Síðan er það allur sagnaarfurinn og tungumálið, svo ekki sé minnst á hina einstæðu bragfræði og rímnahefð. Við eigum svo óralangt í land með að ná utan um þetta allt saman — sagan er fjall og grúsk okkar teskeið. Þess vegna hljótum við að fagna þegar maður eins og Bergsveinn, sem þess vegna gæti lifað við það eitt að skrifa skáldsögur, leggur svona mikið á sig til að varpa ljósi á einn þátt þessarar sögu.
Við eigum Hrafna-Flóka og Ingólf Arnarson, Helga magra og Auði djúpúðgu, Gunnar, Hallgerði, Njál og Guðrúnu Ósvífurs, Gretti sterka og Egil Skallagríms. Með þrautseigju hefur Bergsveinn nú bætt Geirmundi í þann fríða hóp fyrstukynslóðaríslendinga sem við teljum okkur þekkja. Ekki lítið afrek það.
Munstrið ykkur endilega í Leitina að svarta víkingnum.
PS. „Takk fyrir að gefa mér þessa bók! Verst bara að ég vaki núna til þrjú allar nætur ... “ sagði Gunni bróðir eftir að ég gaf honum eintak í afmælisgjöf.
Athugasemdir