Fyrir þremur vikum tókum við kærastan ákvörðun um að venja Úu, 10 mánaða dóttur mína, af brjóstagjöf á næturnar. Ástæðan er sú, að líkt og hjá mörgum öðrum, er góður nætursvefn algjör undirstaða þess að kærastan mín sé við góða geðheilsu. Var stöðugt brölt og drykkja dóttur minnar farið að hafa neikvæð áhrif á hana, og þar af leiðandi mig. Þess vegna ákváðum við að breyta til, og að í nokkrar nætur sæi ég alfarið um hana, í þeim tilgangi að venja hana af næturdrykkjunni.
Brjóstamjólk er magnað fyrirbrigði. Hver og einn kvenlíkami sérhannar brjóstamjólk fyrir hvert og eitt barn. Fyrstu dagana fær barnið, með brjóstamjólkinni, mótefni gegn þeim sjúkdómum sem líkami móðurinnar hefur sigrast á. Ef barnið fæðist fyrir tímann inniheldur mjólkin t.d. ákveðin hormón, efni og fitu sem fyrirburar þurfa. Á morgnanna er hún þynnri og meira svalandi til þess að bæta upp vökvatap í svefni. Á næturnar eru svo efni í mjólkinni sem hjálpa barninu að sofa, t.d melatónín, sem oft hefur verið nefnt svefnhormónið; efni sem líkaminn framleiðir náttúrulega til þess að gera okkur þreytt. Einnig er að finna í mjólkinni efni sem eru náskyld kannabisefnum. Allt þetta þýðir að á næturnar eru börn sem fá brjóstamjólk að drekka að fá sefandi og róandi efni beint frá móður sinni. Það eru því, eðli málsins samkvæmt, ákveðin átök í því fólgin fyrir börn að hætta brjóstadrykkju á næturnar, sérstaklega ef þau þekkja ekkert annað. Þau fara í rauninni í fráhvörf, áþekk þeim sem fíkniefnaneytendur upplifa, þegar þeir eru látnir hætta hjálparlaust á sínum efnum. Þetta fékk ég að finna á eigin skinni.
Fyrsta nóttin var hræðileg. Dóttir mín öskraði og grét í fanginu á mér, í þrjár klukkustundir hélt ég litla titrandi líkama hennar upp að mér, þar sem hún sagði mér, á sínu eigin tungumáli, að þessi meðferð væri algjörlega óviðunandi. Að lokum tókst mér að svæfa hana, með blöndu af vögguvísum, ölduhljóðum og því að kyrja búddískar möntrur. En hún svaf aðeins í hálftíma, og vaknaði svo, aftur og aftur og aftur, mjög svekkt á því að vera ekki með brjóst til þess að svæfa sig.
Þrátt fyrir að hafa undirbúið mig undir að þetta yrði erfið nótt þá var ég úrvinda daginn eftir.
Og svona gekk þetta. Í 10 nætur brölti hún og kvartaði, með líkamlegri tjáningu þar sem mér var tilkynnt að í ljósi þess að mínir eigin mjólkurkirtlar væru algjört drasl, þá væri í raun ekkert gagn að mér, sama hversu mikið „Om, mani padmé hum“ ég hummaði. Hún engdist um, hringsnerist og sparkaði, öskraði sig hása og grét stundum þar til við vorum bæði rennblaut af tárum og hori.
Smám saman fór storminn að lægja. Eftir 6 nætur kom mamman inn úr svefnsófanum, en Úa svaf enn í fanginu á mér, eða nánar tiltekið, handakrikanum. Grátköstunum fækkaði, bröltið minnkaði, og svefnloturnar urðu lengri. Núna, þremur vikum eftir að tilraunin hófst, sefur hún meira og minna samfleytt frá 8 á kvöldin til kl. 7 á morgnanna. Mamman sefur betur, og er búin að endurheimta lífsgleði og kraft, en það sama er ekki að segja um mig.
Þessar tvær vikur, þar sem næturnar hjá mér fóru í að venja hana af næturdrykkju, svaf ég á bilinu 2 - 5 klst. á nóttu. Ég elska svefn, hann er eitt af mínum helstu áhugamálum. Mér reiknast til að ég þurfti a.m.k. 9 klst. svefn til þess að geta talist manneskja, allt undir því og ég er ófær um að vera hamingjusamur. Þess vegna varð svefnskorturinn þess valdandi að margt annað í mínu lífi fór úr skorðum.
Ég fylgdist með sjálfum mér kaupa nammi og snakk til þess að reyna að gleðja mig, sækja í sykur, fitu, salt, gremju og baktal, allt afleiðing þess hversu illa mér leið. Ég ýtti verkefnum á undan mér, hringdi ekki símtöl og sendi ekki tölvupósta sem ég átti að senda. Mætti seint og illa fyrirkallaður hvert sem ég átti að fara, og var almennt mjög langt frá því að vera besta mögulega útgáfan af sjálfum mér.
Ég held ég hafi ekki áttað mig almennilega á því hvernig ástandið hafði þróast, fyrr en hugsanir, sem ég hef verið laus við í mörg ár, fóru allt í einu að láta á sér kræla aftur. Þunglyndar hugsanir. Ég sat við eldhúsborðið, illa sofinn einn morguninn, og allt í einu kom gamalkunn setning upp í hausinn á mér: „Kannski ert þú bara aumingi“.
Ég hef áður sloppið úr helvíti. Eftir að hafa sóað ótöldum árum í stefnulausar, þvældar sjálfshatandi, ógeðslegar hugsanir - mörgum mánuðum í andlegum almyrkva - þúsundum klukkustunda í stöðugt sjálfsniðurrif, hrökk ég eðlilega við. Bar strax kennsl á þessa tilfinningu, sem kemur eins og þjófur að nóttu og laumar tilhæfulausu, óboðnu myrkri í hjartað. Af því að ég vissi vel að þessi líðan væri tilkomin vegna svefnleysis, og af því mér hefur áður tekist að toga mig upp úr drullupollinum, tókst mér að bregðast strax við. Ég sagði mínum nánustu trúnaðarvinum frá ástandinu, leitaði ráða, og tók til við að gera við geðheilsuna mína.
Núna er ég að laga mig, en það mun taka tíma. Hamingjan er hús sem maður byggir, einn múrstein í einu. Ég fer fyrr að sofa, hættur að kaupa nammi, og er að koma mér af stað í hreyfingu aftur. Það að sofa, borða hollt og stunda einhvers konar líkamsrækt eru grunnstoðir þess að ég geti verið hamingjusamur. Ef ein þeirra fer úr skorðum er erfitt að vera til. Ég hugsa með hryllingi til þeirra tíma sem ég var án lausnar, fastur í fangelsi þunglyndis. Í dag er ég þakklátur fyrir að geta litið inn í klefann og sagt „hér vil ég ekki vera, getur einhver hjálpað mér?“.
Athugasemdir