Svo hljómaði setningin sem ein Reykjavíkurdætra rappaði í beinni og þjóðin saup hveljur. Í kjölfarið átti sér stað offramboð á hneykslun fólks sem hneykslaðist á hneykslun þeirra sem sátu (eða ekki) undir flutningi rappsveitarinnar og málið var komið heilan hring þegar sumir netverjar hrósuðu sjálfum sér fyrir að hafa ekki hneykslast á athæfinu. Restin skipti sér í „dólgarappið lengi lifi“ og „hvað með börnin“ fylkingar. Hvað síðarnefnda hópinn varðar er full ástæða til að tala um börn og sníp í sömu andrá, eins undarlega og það kann að hljóma.
Ólýsanleg pynting
Samkvæmt tölum frá UNICEF er búið að limlesta 200 milljón stúlkur á kynfærum. Í helmingi landanna þar sem limlesting tíðkast eru stúlkurnar fimm ára eða yngri þegar þær eru skornar og siðurinn byggir fyrst og fremst á menningarlegum hugmyndum, ekki trúarbrögðum. Oft er snípurinn skorinn af ásamt innri skapabörmunum, en í alvarlegustu tilvikunum eru snípurinn ásamt innri og ytri skapabörmunum fjarlægðir og kynfærin í kjölfarið saumuð saman þannig að einungis stendur eftir lítið op til að hleypa út þvagi og öðrum líkamsvessum. Örið er svo rist upp á brúðkaupsnóttinni af eiginmanninum svo hann geti „fullkomnað hjónabandið“ með hætti sem getur varla verið annað en ólýsanleg pynting fyrir eiginkonuna. Í sumum tilvikum eru kynfæri konunnar saumuð aftur saman síðar meir, eftir geðþótta fjölskyldunnar eða eiginmannsins. Talið er að um 40 milljón stúlkna í heiminum hafi undirgengist þessa alvarlegustu tegund kynfæralimlestingar.
Undirgefin og „hrein“
Ég skil vel ef þú reiðist, kæri lesandi, við að lesa um þessa grimmilegu athöfn sem leiðir til dauða, ófrjósemi, örkumlunar og ævilangrar þjáningar óteljandi stúlkna í tugum landa víða um heim. Kannski beinist hneykslun þín jafnvel að mér fyrir að vera að bera þessar lýsingar á borð fyrir þig – sem tengist málinu ekki neitt og finnst þú kannski eiga rétt á að lifa í fáfræði um þessa skelfilegu leið til að hefta kynfrelsi kvenna. Því kynfæralimlesting er fyrst og fremst það: Grimmileg leið til að ráðskast með kynverund kvenna og gera þær undirgefnar karlmönnum, enda er hugmyndin sú að umskorin kona sé „hreinni“ því hún sé ólíklegri til að halda framhjá. Raunar er ólíklegt að umskorin kona geti notið kynlífs yfir höfuð. Að skera burtu sníp konu takmarkar möguleika hennar á að upplifa kynferðislegan unað á sambærilegan hátt og ef kóngurinn væri skorinn af getnaðarlimi karlmanns, svo ekki sé talað um alvarlegri tegundir limlestinga. Hvað varðar misskilninginn um að málið tengist þér ekki neitt, kæri lesandi, þá neyðist ég til að leiðrétta hann. Heimurinn fer sífellt minnkandi. Internetið hefur gert okkur kleift að kynnast fólki um allan heim og finna ástina á fjarlægustu stöðum. Samhliða þessu standa yfir miklir fólksflutningar í heiminum, bæði vegna stríðsátaka en einnig vegna aukinnar hnattvæðingar. Áhrifanna er þegar farið að gæta. Í hópi 30 stúlkna af erlendu bergi sem hlutu fræðslu um mannréttindi í bænum Norrköping í Svíþjóð kom í ljós að 28 þeirra höfðu verið limlestar á kynfærum. Þrjátíu stúlkur í viðbót upplýstu í sömu fræðslu á vegum bæjarins að þær hefðu verið limlestar. Kær vinkona mín flutti sjálf frá upprunalandinu með fimm ára dóttur sína í ágúst 2015, enda var dóttirin komin á aldur til að verða limlest. Hún leikur sér oft við son minn og er, eins og börnum er lagið, lífsglöð, heilbrigð og ómeðvituð um skelfileg örlögin sem biðu hennar í heimalandinu.
„Kær vinkona mín flutti sjálf frá upprunalandinu með fimm ára dóttur sína í ágúst 2015, enda var dóttirin komin á aldur til að verða limlest. “
Mannréttindi – ekki forréttindi
Auðveldara er að loka augunum fyrir hryllingi sem á sér stað í langt-í-burtístan heldur en því sem gerist í túnfætinum. Sem fullorðnum einstaklingum ber okkur þó skylda til að gæta öryggis barna, sama hvar þau fæddust í heiminum. Andstæðingar fjölmenningar nota stundum þau rök að ofbeldi á borð við kynfæralimlestingu myndi ná fótfestu í samfélagi okkar með auknum fjölda innflytjenda. Þó er staðreyndin sú að margir innflytjendanna eru einmitt að flýja hrylling á borð við þennan. Fjölmenningu fylgja vissulega áskoranir. Eflaust komu Íslendingarnir sem fluttu í tugþúsundatali til Vesturheims í lok nítjándu aldar með sinn skerf af fáfræði og grimmilegum siðum með sér, til dæmis að svelta smalann. Óvíst er hversu mörg íslensk börn týndu lífi vegna þess hræðilega siðar sem tíðkaðist á mörgum íslenskum bæjum, en ekki varð það til þess að stöðva fólksflutningana til Vesturheims.
„Sjúgðu á mér snípinn“ er setning sem felur í sér þau forréttindi að vera með sníp yfir höfuð. Kynfrelsi kvenna á ekki að vera forréttindamál, það á að vera mannréttindamál. Okkur ber að hneyklast, ekki á söng kvenna sem rappa um kynfrelsi sitt heldur örlögum þeirra tugmilljóna sem munu aldrei geta tekið sér viðlíka setningu í munn.
Athugasemdir